140. löggjafarþing — 37. fundur,  15. des. 2011.

fjársýsluskattur.

193. mál
[20:13]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Tillögur stjórnarflokkanna hafa vissulega tekið breytingum og breytingartillögur hafa verið lagðar fram er laga málið að einhverju leyti. En það er svo að enn er verið að leggja á þennan nýja skatt og í rauninni mjög vandséð hvaða áhrif hann mun hafa þegar upp er staðið.

Það er hins vegar alveg ljóst, úr því að hv. þingmaður nefndi sparisjóðina og hvaða áhrif óbreyttar tillögur geta mögulega haft, þá verð ég bara að upplýsa að það lítur út fyrir að innan skamms verði lítið um sparisjóði í landinu yfirleitt, held ég, því að Arion banki hefur nú gert kauptilboð í stofnfé Afls sparisjóðs, gengið mjög hart eftir að fá það keypt, og hyggst sameina þann sjóð bankanum sem mun til framtíðar litið vitanlega hafa skerta þjónustu á því starfssvæði. Í því tilfelli þarf kannski ekki fjársýsluskattinn til. En hann mun að sjálfsögðu hafa áhrif á fjármálastofnanirnar, ekki síst þær minni, og draga úr möguleikum þeirra til að sinna þeim viðskiptum sem þær sinna í dag nái frumvarpið fram að ganga þó svo að það hafi verið lagað að einhverju leyti.

Það sem maður hefur miklar áhyggjur af hvað varðar skattatillögurnar er að hugmyndaauðgin virðist hvergi stoppa við að leggja á nýja skatta og það virðist illa ígrundað hvaða áhrif þeir kunni að hafa.