140. löggjafarþing — 37. fundur,  15. des. 2011.

fjársýsluskattur.

193. mál
[20:16]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið — og þar sem ég sé að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra gengur í salinn hef ég hér undir þessari umræðu að minnsta kosti tvo öfluga þingmenn úr sama kjördæmi sem við getum í rauninni horft til þegar við horfum fram á áhrifin af því sem hv. þingmaður nefndi í andsvari sínu, þ.e. að hann gerði sér ekki fyllilega grein fyrir því hvar þetta endaði allt saman í þeirri aðför, ef svo má kalla, að grunnstoðum atvinnulífsins í landinu.

Þrátt fyrir að staða mála í sparisjóðakerfinu innan vébanda kjördæmis hv. þingmanns sé með þeim hætti sem hann greindi eru ýmsir þættir aðrir sem við höfum reynt að mynda samstöðu um að reyna að verja, tvímælalaust, og óþarfi að hafa fleiri orð um heilbrigðiskerfið, sem svo mjög var vegið að ákveðinni stofnun í kjördæmi hv. þingmanns.

Aðrir þættir sem að þessu lúta ganga inn á afkomu fólks með öðrum hætti og þá eru mér sérstaklega í huga þær tillögur sem fyrir liggja varðandi skattheimtu úr lífeyrissjóðunum. Maður sér það sem betur fer í tillögum meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar að dregin eru til baka þau áform þar, en svo eigum við eftir óleyst vandamál á öðrum sviðum, sem við köllum svo, þ.e. áframhaldandi skattlagning upp á 1.400 milljarða á lífeyrissjóðina og eignaupptöku fólks þar. Ég vil því gjarnan í tengslum við þær hugmyndir sem liggja fyrir kalla eftir viðhorfum hv. þingmanns til þeirra mála.