140. löggjafarþing — 37. fundur,  15. des. 2011.

fjársýsluskattur.

193. mál
[20:20]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Frú forseti. Það hefur verið fróðleg umræða í dag um þetta frumvarp og mörg sjónarmið hafa komið fram og mikil gagnrýni á heildarstefnuna og heildarsýnina, ekki bara í þessu máli heldur almennt þegar kemur að skattlagningu.

Í upphafi vil ég fara aðeins yfir málið sem við ræðum. Á því er svolítið sami blær og á öðrum tillögum sem hafa verið hér til umræðu varðandi skattahækkanir. Svo virðist vera sem þær séu lítt hugsaðar áður en þær eru lagðar fram og oft er slegið fram einhverjum fullyrðingum um að þær samræmist einhverju sem gengur og gerist erlendis, séu ekkert óeðlilegar í alþjóðlegu samhengi og annað slíkt. Síðan þegar málin eru tekin til skoðunar kemur á daginn að flestar þessara fullyrðinga eiga ekki við nokkur rök að styðjast.

Í gær vorum við með til umræðu tvísköttun á kolefni, sem stjórnarmeirihlutinn dró reyndar til baka, en í þeirri umræðu hafði verið fullyrt að það væri ekkert óeðlilegt að orkufyrirtækin legðu sitt af mörkum og hér yrði ekki nein skattaparadís fyrir iðnaðarfyrirtæki. En síðan þegar farið var ofan í það mál kom í ljós, frú forseti, að þetta stóðst enga skoðun. Það átti að fara fram tvísköttun á iðnaðarfyrirtæki, fyrirtæki eins og Elkem á Grundartanga, án þess að ræða við einn eða neinn. Því miður gerist þetta í allt of miklum mæli með þau frumvörp sem komið er fram með og manni sýnist á því frumvarpi sem nú er til umræðu að vinnubrögðin séu hin sömu. Komið er inn á þetta í báðum minnihlutanefndarálitum.

Mig langar að vitna aðeins í nefndarálit 2. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar frá hv. þm. Birki Jóni Jónssyni. Þar er einmitt fjallað um það að hæstv. fjármálaráðherra hafi talað um að sú skattheimta sem lögð væri til í þessu frumvarpi væri að danskri fyrirmynd og ekkert óeðlileg. Síðan þegar farið var að skoða málið í nefnd kom fram að þetta var misskilningur hjá hæstv. fjármálaráðherra sem sló því upp sem réttlætingu fyrir þessari skattheimtu að hún væri að danskri fyrirmynd og ekkert óeðlilegt við hana. Þetta er kunnuglegt. Í umræðunni hér í gær var með nákvæmlega sama hætti búin til réttlæting fyrir aukaskattheimtu hvort sem var á fyrirtæki eða einstaklinga. Mig langar, með leyfi forseta, að vitna aðeins í nefndarálitið sem fjallar um þetta:

„Í Danmörku er t.d. ekki lagt tryggingagjald á fjármálafyrirtæki en þar er skattur lagður á laun og hlunnindi auk þess sem skatturinn telst til rekstrarkostnaðar og er þess vegna frádráttarbær frá tekjuskatti. Í Danmörku greiða fyrirtæki ekki launaskatta en þau fyrirtæki sem ekki greiða virðisaukaskatt, t.d. af útgáfustarfsemi og heilbrigðisþjónusta, greiða þennan skatt auk fjármálafyrirtækja. Hér er farið rangt með og ekki tekur betra við þegar vísað er til tillagna á vegum AGS og ESB.“

Frú forseti. Allt of oft eru tillögur, hvort sem það eru tillögur eins og þessar eða aðrar, þannig að búnar hafa verið til einhverjar ástæður fyrir þeim og réttlætingar sem standast ekki nokkra skoðun. Það gengur ekki.

Eins og fram hefur komið í umræðunni hefur þetta frumvarp verið gríðarlega gagnrýnt líkt og önnur. Gagnrýnin í umræðunni í dag hefur ekki síst snúið að því að þessi skattur skuli vera algjörlega ótengdur afkomu fjármálafyrirtækja og leggjast á heildargreiðslur þeirra. Fram kom að þetta yrði mjög erfitt fyrir minni fjármálastofnanir og voru sparisjóðirnir sérstaklega nefndir í því samhengi.

Maður hlýtur að velta því fyrir sér, frú forseti, hvers sparisjóðakerfið á að gjalda með stefnu sitjandi ríkisstjórnar. Sparisjóðirnir eins og við þekkjum þá hafa verið hornsteinar í mörgum héruðum og mikilvægi þeirra í byggðarlögum landsins hefur verið óumdeilt.

Það var fróðlegt að fylgjast með til að mynda ræðu hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar hér fyrr í dag þegar hann fór yfir það hversu mikið þjónustustöðvum sparisjóðanna hefði fækkað, að árið 2010 hefðu verið um 47 þjónustustöðvar en væru nú komnar niður undir 20. Maður hlýtur að spyrja sig að því hver sé stefna núverandi ríkisstjórnar varðandi sparisjóðakerfið. Hver er stefnan? Það blasir alla vega við að það sem lagt er til í þessu frumvarpi kemur einstaklega illa niður á sparisjóðakerfinu.

Eins og hefur komið fram í umræðum í dag er þetta atriði eitt og sér kannski ekki til þess fallið að ganga algjörlega frá sparisjóðakerfinu en það er brot í þeirri mósaíkmynd. Ef við tökum þetta í stærra samhengi, mikilvægi sparisjóðanna í hverju byggðarlagi, þá er það sem þessi dreifbýlu héruð þurfa að þola undir stefnu núverandi ríkisstjórnar að verða nær óbærilegt. Eitt dæmi er í þessu frumvarpi.

Í fjárlagafrumvarpinu er ekki hægt að segja annað en að þar sé gengið mjög harkalega nærri landsbyggðinni. Nærtækt er að nefna niðurskurðinn í heilbrigðismálum, Jöfnunarsjóð sveitarfélaga og aukaframlagið sem var tekið af þeim sveitarfélögum sem verst standa. Má einnig nefna að af þeim gríðarlega fjölda skattkerfisbreytinga sem hafa verið framkvæmdar hefur engin af þeim hundruð skattbreytingum sem hafa verið gerðar í tíð núverandi ríkisstjórnar miðað að því að styrkja á einhvern hátt landsbyggðina.

Ríkisstjórnin fór um öll kjördæmi fyrir síðustu alþingiskosningar og sagði að nú yrði snúið til sóknar þegar kæmi að landsbyggðinni, landsbyggðin hefði mátt þola of mikið. Síðan horfum við upp á hvert skrefið á fætur öðru sem miðar að því að minnka samkeppnishæfni eða draga úr möguleikum landsbyggðarinnar og draga tennurnar úr þeim byggðarlögum sem verst hafa farið út úr þeim uppgangstíma sem var í íslensku samfélagi á árunum 2006–2008 eða 2004–2008. Á þeim tíma glímdu mörg þessi byggðarlög við gríðarlega erfiðleika.

Maður hlýtur ítrekað að velta því fyrir sér á hvaða vegferð ríkisstjórnin er í þessu máli. Sparisjóðirnir eru oft nátengdir starfi sveitarstjórna og hafa gegnt samfélagslegu hlutverki, ekki hvað síst í sínum byggðarlögum með þátttöku í ýmsum verkefnum. Þeir eru á margan hátt hugsaðir á svolítið annan hátt en stóru fjármálastofnanirnar.

Margar sveitarstjórnir hafa af því gríðarlegar áhyggjur hversu mikið skilningsleysi er á viðkvæmni samfélags þeirra og hversu illa leikið það verður. Það er af mjög litlu að taka. Eftir niðurskurðinn sem á undan er genginn horfum við upp á að loforð um endurreisn sparisjóðakerfisins eru ítrekað að engu gerð af ríkisstjórninni. Hér í umræðum á Alþingi hefur það ítrekað komið fram að lítill vilji sé hjá ríkisstjórninni til að grípa til einhverra ráðstafana til handa sparisjóðakerfinu eða móta einhverja stefnu þar til framtíðar.

Þetta á kannski að enda þannig að hér verði þrjár stórar fjármálastofnanir en engin smærri fjármálafyrirtæki eins og sparisjóðirnir, ég skal ekki segja. Gagnrýnisraddir á þetta frumvarp hafa ekki hvað síst verið út af þessum þætti. Það er ekki skrýtið því að ótekjutengdar álögur og gjöld á fjármálafyrirtæki, svo sem sérstakur skattur líkt og hér er komið inn á, koma sér mjög illa fyrir lítil fjármálafyrirtæki eins og sparisjóðina og rekstraraðilar þeirra hafa gríðarlegar áhyggjur af því hvaða áhrif innihald frumvarpsins hefur.

Auk þess er hægt að gagnrýna fleiri þætti í frumvarpinu. Konur eru til dæmis mikill meiri hluti þeirra starfsmanna sem mundu fyrirsjáanlega fá uppsagnarbréf vegna áhrifa frumvarpsins að mati þeirra sem hafa gefið umsögn um frumvarpið. Þetta kemur fram í nefndarálitum sem liggja hér frammi. Þetta vekur alveg sérstaka athygli því að þar stangast frumvarpið algjörlega á við áform ríkisstjórnarinnar um kynjaða hagstjórn. Raunar höfum við mátt upplifa það með fleiri þætti að aðgerðir ríkisstjórnarinnar, hvort sem er varðandi tekjuöflun eða niðurskurð, hafa því miður bitnað á kvennastörfum. Niðurskurður í heilbrigðismálunum og þær uppsagnir sem hafa verið allt í kringum landið og stefnir í að haldi áfram — þar er um stóran hluta af kvennastörfum að ræða. Þetta er með sama hætti því að staðreyndin er sú að hærra hlutfall kvenna en karla mun missa vinnuna.

Maður veltir því fyrir sér í allri umræðu undanfarinna daga bæði hvað snertir þetta mál og önnur mál sem tengjast skattahækkunum að svo virðist vera sem það vanti alla heildarsýn, alla yfirsýn yfir hvert við stefnum. Ég vil þó segja að sá sem hér stendur er enginn sérfræðingur á þessu sviði en þetta virðist einkennast um of af handahófskenndum aðgerðum og að alla jafna viti hægri höndin ekki hvað sú vinstri er að gera. Við sjáum það í þessu frumvarpi og í bandorminum og raunar í fleiri tillögum allt of oft að það er engin skýr framtíðarsýn og ef menn sjá möguleika til að ráðast fram með einhvers konar skattahækkanir eða annað er bara vaðið af stað án þess að skoðað sé hverjar afleiðingarnar verða, án þess að haft sé nokkurt samráð við einn eða neinn sem málinu tengist og jafnvel reynt að lauma hlutum inn á síðustu metrunum þvert gegn öllu sem áður hefur verið sagt, þvert gegn samkomulagi.

Þetta gerðist líka hvað varðar tvísköttunaráform á iðnað, sem voru reyndar að hluta til dregin til baka. Aðilar töldu sig hafa náð samkomulagi við iðnaðarráðherra og fjármálaráðherra um að ekki yrði ráðist í frekari skattheimtuaðgerðir (Gripið fram í.) vegna þess að samkomulag hefði náðst um að greiða skatt fyrir fram og síðan tæki ETS-kerfið við þegar það fer í gang. En nei, það kom tvísköttun ofan á það. Þetta kom öllum í opna skjöldu, jafnvel stjórnarliðum. Þeir virtust ekki hafa vitað af þessum gríðarlegu skattáformum sem mundu setja hundruð starfa í óvissu og einhver sprotaverkefni um frekari atvinnuuppbyggingu víðar á landinu.

Það er, frú forseti, óþolandi að á sama tíma og það ætti að vera keppikefli stjórnvalda hverju sinni að skapa umgjörð sem gerir það að verkum að bæði heimili og fyrirtæki geti gert einhverjar áætlanir skulum við ítrekað horfa upp á handahófskenndar tillögur sem með lágmarksgrundvallarvinnu hefði verið hægt að koma í veg fyrir.

Ég man fyrsta daginn sem ég kom á þing, þá var okkur afhent ágætt rit sem heitir Handbók um undirbúning og frágang lagafrumvarpa þar sem farið er lið fyrir lið yfir það hvernig lagafrumvörp skuli vinna, að samráð skuli vera haft við þingflokka og hagsmunaaðila. Af hverju erum við að setja lög eða gera breytingar á lögum? Hvaða afleiðingar hafa þær breytingar? Þetta þarf allt að leggja fram og allri þessari vinnu þarf að vera lokið áður en ríkisstjórnin eða viðkomandi leggur fram lagafrumvarp. Það er, frú forseti, gert í þeim tilgangi að koma í veg fyrir að tillögur sem standast enga skoðun komi ítrekað fram.

Þetta er eitt af því sem horft er til þegar verið er að skoða og flokka þjóðríki niður eftir pólitískum stöðugleika. Því miður verðum við vitni að því að Ísland færist neðar og neðar á lista yfir ríki með pólitískan stöðugleika. Staðreyndin er sú að þeir sem eru í atvinnurekstri geta engar áætlanir gert. Einstaklingar og heimili geta jafnvel engar áætlanir gert vegna handahófskenndra vinnubragða þegar kemur að mótun umgjarðar, þ.e. skattlagningu, niðurskurði og starfsaðferðum sitjandi ríkisstjórnar. Maður batt miklar vonir við að á þessu yrði breyting. Maður hefur heyrt af því að slík vinnubrögð hafi verið stunduð á hinu háa Alþingi allt of lengi, en staðreyndin er auðvitað sú að maður batt vonir við að einhver breyting yrði á þessu eftir bankahrunið. En því miður held ég að ástandið hafi aldrei verið verra hvað þetta snertir. Heimili og fyrirtæki geta ekki gert nokkrar áætlanir, það er ómögulegt að átta sig á því hvað er handan við hornið, það er ómögulegt að átta sig á því hvað morgundagurinn ber í skauti sér, menn geta átt von á hverju sem er. Það sannast af mörgum þeim skattkerfisbreytingum sem ráðist hefur verið í án nokkurs samráðs við einn eða neinn.

Það er eins þegar kemur að útgjaldahliðinni og niðurskurðinum. Ef við lítum t.d. á niðurskurðurinn í heilbrigðiskerfinu, undir hvern hefur hann verið borinn eða við hvern hefur verið haft samráð áður en lagt hefur verið af stað í algjörar kerfisbreytingar á heilbrigðiskerfinu allt í kringum landið? Ekki nokkurn einasta mann, þess í stað er hann birtur í fjárlögum ár hvert. Þar eru grundvallarbreytingar birtar án þess að haft sé samráð við einn eða einn. Þjónusta í einstökum byggðum er jafnvel sett í algjört uppnám og svo kemur ríkisstjórnin hlaupandi og hendir einhverju örlitlu inn á milli umræðna en eftir situr fólkið í viðkomandi samfélögum og veit ekkert hvaðan á það stendur veðrið.

Frú forseti. Þar sem ég kom svolítið inn á sparisjóðakerfið hérna virðist þetta frumvarp vera með svipuðu sniði hvað snertir vinnubrögð og það sem almennt hefur gerst í niðurskurðinum og á fleiri sviðum.