140. löggjafarþing — 37. fundur,  15. des. 2011.

fjársýsluskattur.

193. mál
[20:40]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni yfirgripsmikla ræðu sem kom með dálítið nýjan vinkil í þetta mál, sjónarhorn landsbyggðarinnar.

Nú þekkti ég sparisjóðakerfið nokkuð vel. Þar voru reyndar gerð mjög mikil mistök af hálfu yfirstjórnanna en starfsfólkið á gólfinu var frábært. Ég get fullyrt að það hafði mjög góð tengsl við venjulega fólkið, tengsl sem stóru bankarnir höfðu miklu minni áhuga á á þeim tíma. Ég held að það hafi verið mikil mistök hjá núverandi ríkisstjórn að láta hvern sparisjóðinn á fætur öðrum fara á hausinn í stað þess að bjarga rekstrinum, t.d. SPRON. SPRON var sett á hausinn jafnvel eftir að kröfuhafar höfðu gert samning um að halda rekstrinum áfram því að rekstur SPRON var mjög verðmætur, reksturinn og sú viðskiptavild sem SPRON naut hefur sennilega verið margra milljarða króna virði.

Þetta frumvarp sem hér er lagt fram getur skaðað litlu sparisjóðina sem eftir eru, það er rétt hjá hv. þingmanni og ég get tekið undir það. En það sem sparisjóðirnir höfðu og mér fannst hv. þingmaður ekki koma alveg nógu vel inn á það, var staðbundin þekking á stöðu manna úti um land. Ég man eftir því að þegar menn ætluðu að kaupa skuldabréf af einhverjum manni úti á landi var alltaf byrjað á því að hringja í sparisjóðinn og spyrja: Hver er þetta? Og það stóð ekki á því að sparisjóðurinn sagði strax: Þetta er öndvegismaður og hann stendur alltaf í skilum — eða sagði eitthvað allt annað sem gerði það að verkum að skuldabréfið var ekki keypt. Sparisjóðurinn vissi mjög vel hver staða manna var á hverjum stað. Þessi þekking er að glatast vegna þess hvernig ríkisstjórnin (Forseti hringir.) gengur yfir sparisjóðina, meðal annars. (Forseti hringir.) með þessu frumvarpi.