140. löggjafarþing — 37. fundur,  15. des. 2011.

fjársýsluskattur.

193. mál
[20:42]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir með hv. þingmanni um staðbundna þekkingu sparisjóðanna á starfssvæðum þeirra. Sparisjóðirnir hafa í rauninni verið og eru um margt ólíkir þeim fjármálastofnunum sem við þekkjum á höfuðborgarsvæðinu. Þeir hafa oft verið hryggjarsúlan í samfélögunum og gegnt gríðarlega mikilvægu hlutverki í atvinnuuppbyggingu og í samfélagslegri uppbyggingu á sínum svæðum. Ég fullyrði að mörg landsvæði væru ekki svipur hjá sjón ef þau hefðu ekki í gegnum tíðina haft sparisjóðina sem hafa haft gríðarlega góða þekkingu á innviðum samfélagsins, sóknarmöguleikum samfélagsins í heild, einstakra fyrirtækja og hafa tekið mjög öflugan og virkan þátt í að byggja upp samfélög sín.

Það er þess vegna gríðarlegt áhyggjuefni, og ég vil taka undir með hv. þingmanni hvað það snertir, að sú hugsun sem bjó að baki í þessum fjármálastofnunum sé almennt að glatast. Það er að gerast einmitt núna í tíð þessarar ríkisstjórnar. Þessi rekstur sparisjóðanna, sú viðskiptavild sem hv. þingmaður talaði um, þekkingin, reynslan, sú sýn og sú hugsun sem þar er ríkjandi, fullyrði ég að er að glatast í allt of miklum mæli. Ég tel að til lengri tíma litið verði það mjög neikvætt fyrir mörg byggðarlög. Að því leytinu tek ég undir með hv. þingmanni að það var raunar með ólíkindum að ekki skyldi hafa verið gripið til neinna ráðstafana til að bjarga sparisjóðakerfinu og einmitt þeirri hugsun sem býr að baki því.