140. löggjafarþing — 37. fundur,  15. des. 2011.

fjársýsluskattur.

193. mál
[20:46]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á að taka undir með hv. þingmanni, það kom ekki fram í fyrra andsvari mínu, um að mikilvægt hefði verið að bjarga þessum rekstri og þeirri viðskiptavild sem þarna var. Ég hef kannski ekki nægilega þekkingu til að svara því nákvæmlega hvaða áhrif þetta hefur, en þeirri spurningu hefði einmitt átt að vera svarað áður en þetta frumvarp var lagt fram og hefði átt að gerast í meðförum nefndarinnar.

Þá langar mig, með leyfi frú forseta, að lesa upp úr nefndaráliti 2. minni hluta þar sem segir:

„Fjármálaeftirlitið bendir á að engin tilraun er gerð til að leggja mat á möguleg áhrif skattsins á fjármálamarkaðinn né heldur á neytendur og telur skattlagninguna „varasama“. Ríkisskattstjóri er heldur ekki hrifinn af þessu framtaki og segir að nauðsynlegt sé að hafa samráð við aðila sem frumvarpið tekur til.“

Þetta er eitt af því, frú forseti, sem hefur verið gagnrýnt í umræðunni, þ.e. þær breytingar sem felast í frumvarpinu, jafnvel þó að verið sé að taka eitthvað af þeim handahófskennt til baka, að það liggur á engan hátt fyrir hver áhrif frumvarpsins verða á þá þætti sem hv. þingmaður kom inn á í andsvari sínu. Það eru auðvitað vinnubrögð af verstu gerð sem klárlega munu koma mjög illa við einmitt litlu fjármálastofnanirnar, jafnvel þó að gerðar hafi verið þessar breytingar. Heildaráhrifin af frumvarpinu hafa ekki verið metin og liggja ekki fyrir. Það hefði kannski verið betra ef frumvarpið hefði komið fyrr fram eða ef betur hefði verið unnið að því áður en það var lagt fram, en það var ekki gert. Nefndin gefur sér síðan ekki tíma til þess heldur. Þetta er vinnulag (Forseti hringir.) sem getur auðvitað ekki gengið á hinu háa Alþingi.