140. löggjafarþing — 37. fundur,  15. des. 2011.

fjársýsluskattur.

193. mál
[21:34]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin. Ég heyri að við erum svo sem sammála um þessa hluti.

Það er nú einu sinni þannig að eitt fyrirtæki sem er burðarás nánast í einum landshluta, held ég að ég geti fullyrt, fékk einmitt svona trakteringar hjá stóru bönkunum en fór síðan í minni bankann og jók peningana til að setja inn í fyrirtækið og er síðan burðarás í viðkomandi landshluta. Þetta viðhorf er oft gagnvart landsbyggðinni, eins og hv. þingmaður nefndi, að menn spyrja: Eru ekki einhverjar eignir eða eitthvað annað sem menn geta sett að veði og er á höfuðborgarsvæðinu? Það gildir nefnilega annað þegar menn koma upp fyrir Ártúnsbrekkuna.

Það er annað sem mig langar að spyrja hv. þingmann um og ég hef velt fyrir mér. Fram kemur í umsögnum, bæði frá 1. og 2. minni hluta, að ekki sé nógu vel rýnt af hálfu hv. efnahags- og viðskiptanefndar í þessi áhrif. Ég verð að segja fyrir mína parta að hv. efnahags- og viðskiptanefnd hefur alla mína samúð. Ég tel að meiri hlutinn í þeirri nefnd hafi reynt að sníða af mestu agnúana sem fyrirsjáanlegt var að mundu valda mestum skaðanum, til að mynda gagnvart skattlagningu á lífeyrissjóðina, og menn hafi reynt að breyta þessu í þá veru að draga úr sem mestum skaða. En síðan eru farnar aðrar leiðir til að reyna að halda tekjustofnunum innan þess sem reiknað er með til að tekjuhlið fjárlaganna standist.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort við þyrftum kannski að breyta þessum vinnubrögðum að því leyti til að frumvörpin kæmu miklu fyrr til efnahags- og viðskiptanefndar til að menn hefðu þar meiri og rýmri tíma til að fara yfir málin, því að það er jú þingið að reyna að gera, og þeir hv. þingmenn sem þar sitja, að betrumbæta málið. Og hvort ekki væri mikilvægt að breyta þessu í þá veru að menn fjölluðu um þessi mál með þeim hætti að ekki væri í hverri umsögninni á fætur annarri nefnt að málið (Forseti hringir.) væri ekki nægilega vel unnið til þess að afgreiða í gegnum þingið.