140. löggjafarþing — 37. fundur,  15. des. 2011.

fjársýsluskattur.

193. mál
[21:51]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Við áttum ágætissamstarf í fjárlaganefnd, ekki eingöngu um þá byggðaúttekt á fjárlagagerðinni sem hann gerði að umtalsefni, heldur líka í fleiri málum sem varða fjárhag ríkisins svo sem Icesave, svo ég nefni eitt dæmi.

Hv. þingmaður nefnir að ríkisstjórnin hafi áhuga á kynjuðum fjárlögum. Ég er ekki sammála því. (Gripið fram í: Á blaði.) Ég held að ríkisstjórnin hafi yfir höfuð engan áhuga á kynjaðri fjárlagagerð. Hún hefur hins vegar gríðarlegan áhuga á kynlegri fjárlagagerð. Þar er töluverður munur á. En þessi einbeitti áhugi ríkisstjórnarinnar á kynlegri fjárlagagerð birtist meðal annars í þessu frumvarpi. Það birtist líka í meðferð hæstv. ríkisstjórnar á þeirri tillögu sem full samstaða náðist um í fjárlaganefnd, þvert á alla pólitíska flokka, um að gera úttekt á áhrifum fjárlaga hvers árs á byggðir eða samfélagsþróun í landinu, ekki aðeins samfélögin utan höfuðborgarsvæðisins heldur allt þjóðfélagið. Af einhverjum ástæðum hafa tvö til þrjú ráðuneyti enn þann dag í dag ekki svarað fyrirspurnum sem eru grundvallaratriði í að gera þessa úttekt.

Ég get svarað spurningu hv. þingmanns játandi. Ef slík úttekt lægi fyrir væru vissulega líkindi til að ríkisstjórnin færi eftir henni en ég verð að segja alveg eins og er að ég hef miklar efasemdir um að hæstv. ríkisstjórn sé fært að fylgja leiðbeiningum sem settar hafa verið niður á blað. Þvert á móti tel ég að henni gangi betur að sveigja stefnu sína eftir því hvernig vindurinn blæs hverju sinni.