140. löggjafarþing — 37. fundur,  15. des. 2011.

fjársýsluskattur.

193. mál
[21:55]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Ég ætla að reyna að svara hv. þingmanni í tiltölulega einföldum skeytum. Þegar hv. þingmaður spyr hvaða möguleika ég sjái til að breyta starfsháttum núverandi ríkisstjórnar, bæta verklagið og breyta vinnulaginu, er svarið í mínum huga tiltölulega einfalt. Því væri best komið með þeim hætti að fleiri þingmenn úr liði stjórnarinnar á þingi færu að dæmi hv. þingmanns og yfirgæfu stjórnarfleytuna. Þetta er annar kosturinn.

Hinn kosturinn er að ríkisstjórnin sjái að sér og viðurkenni að hún er komin langt út fyrir markaða stefnu sína, farin að reka eftir vindum, berast undan ölduföldum og er í raun komin inn í skerjagarðinn. Ég held að vænlegra væri fyrir forsvarsmenn hæstv. ríkisstjórnar að fara að skjóta upp einu neyðarblysi eða svo og boða til sín björgunarlið sem kæmi henni klakklaust að landi, en það verður ekki gert nema með því að fólk fái tækifæri til þess að kjósa.

Við höfum fleiri dæmi um þetta, ekki bara að gengið sé yfir samþykktir fjárlaganefndar eða annarra nefnda heldur er líka gengið yfir Alþingi sjálft og þá lagasetningu sem það hefur gert. Ég ætla bara að nefna dæmi sem lýtur að þingsköpum. Það er ekki farið að þingsköpum þegar fjallað er um tekjugrein fjárlaga því að þetta frumvarp um nýjan fjársýsluskatt er hluti af tekjugrein fjárlaga og bundið er í þingsköp að fjárlaganefnd þingsins skuli gefa efnahags- og viðskiptanefnd umsögn um öll frumvörp sem lúta að tekjugrein fjárlaga. Slík umsögn liggur ekki fyrir (Forseti hringir.) og því miður kærir enginn í stjórnarmeirihlutanum sig um hana.