140. löggjafarþing — 37. fundur,  15. des. 2011.

fjársýsluskattur.

193. mál
[23:06]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum enn fjársýsluskattinn og reyndar skattamál í heild. Gerðar hafa verið fjölmargar skattbreytingar og enn er verið að tala um nýjan skatt. Við þingmenn höfum verið að reyna að vekja athygli á því að sú staðreynd geri það að verkum að það dregur úr trúverðugleika landsins gagnvart fjárfestum og öðrum sem horfa til okkar. Óvissan tengd því að fjárfesta á Íslandi verður því meiri.

Nú kemur þessi fjársýsluskattur sem er nýr skattur, eins og fram kemur í nefndarálitum frá efnahags- og viðskiptanefnd, og eru það enn ein skilaboðin til þeirra sem horfa til Íslands um að hér sé óstöðugleiki þegar kemur að ákvarðanatöku og stefnumörkun. Það er eitt af því sem við höfum gagnrýnt fyrir utan áhrifin sem kunna að verða af þessari ákvörðun. Ég segi „kunna að verða“ því að eins og sjá má af nefndarálitum hefur ekki verið lögð vinna í að kanna hvaða áhrif þetta mun hafa, vinna sem nauðsynlegt hefði verið að leggja í.

Við höfum oft rætt um að bæta þurfi vinnubrögð til að komast hjá því að taka rangar ákvarðanir eða leggja til hluti sem hafa neikvæðar afleiðingar. Það er því mjög sérstakt að sjá að þegar þessi hreina vinstri stjórn á eftir um það bil 16 mánuði, eða hvað það er, af kjörtímabilinu eru vinnubrögðin enn ekki eftir þeim fyrirheitum sem lagt var af stað með, um gagnsæi og bætt vinnubrögð, þar sem allt væri uppi á yfirborðinu. Þvert á móti hefur vinnubrögðum jafnvel farið hrakandi frá því sem var og hlutirnir hafa verið illa unnir og á bak við tjöldin.

Fjársýsluskattinum hefur verið mótmælt af mörgum aðilum. Það er óvíst hvaða áhrif hann mun hafa á það starfsfólk sem vinnur í geiranum í dag. Það er þó alveg ljóst að einhver verður að borga eða bera kostnaðinn. Það verður að teljast hæpið að erlendu kröfuhafarnir, sem eiga viðskiptabankana, þessa stóru — sem núverandi ríkisstjórn einkavæddi með eftirminnilegum hætti — gefi grið og taki þetta af þeim hagnaði sem þeir vilja taka út úr bönkunum, meira en gert er ráð fyrir í frumvarpinu. Ef skattleggja á þennan geira sérstaklega þá er ég sammála þeim sem hafa sagt að betra sé að leggja það á hagnaðinn af fyrirtækjunum en leggja það á launahlutann.

Það er líka eitt sem ég hef velt upp hérna og kannski ekki fengið svör við, enda ekki mikið um að stjórnarliðar taki þátt í þessum umræðum: Er búið að lofa fjármálafyrirtækjunum því að þau muni einhvern tímann fá þetta til baka, með lægri sköttum eða eitthvað slíkt? Við vitum að ríkisstjórnin er gjörn á að taka að láni frá framtíðinni, taka framtíðarskatta og nota núna til að bjarga sér fyrir horn af því að hugmyndaauðgin í að efla atvinnulíf og búa til tekjur er engin. Maður veltir því fyrir sér hvort á fleiri stöðum sé nú þegar búið að taka framtíðartekjur.

Ég vil því, frú forseti, enn og aftur segja það í þessum ræðustól, þannig að það komist í þingtíðindin, að þegar lán er tekið af framtíðartekjum skapar það erfiðleika á þeim tíma þegar reiknað var með að þær tekjur skiluðu sér. Því er hætta á að eftir tvö, þrjú ár muni verða erfiðara að ná í tekjur en í dag, þar sem verið er að nota framtíðartekjurnar núna.

Vonandi semst um einhverjar breytingar á skattamálum í kvöld sem verða til lækkunar. Við leggjum áherslu á það því að ekki er hægt að bjóða einstaklingum eða atvinnulífi upp á þá stefnu sem hér er í skattamálum.