140. löggjafarþing — 37. fundur,  15. des. 2011.

fjársýsluskattur.

193. mál
[23:14]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að vekja athygli á þessu. Ég hafði ekki enn komið að þessu í ræðu minni. Yfirlýsingin sem felst í þessu er vitanlega eftirfarandi: Markmiðið með þessum skatti er augljóslega að reyna að hemja laun í bankakerfinu. Hvar mun það koma niður? Ég efast um að þessi skattur muni hemja laun stjórnenda eða slíkra. Það verður einfaldlega farið í að fækka starfsfólki til að standa undir þessu. Þetta mun ekki hafa áhrif á launin að mínu viti. Þetta mun líka fækka störfum, sem virðist þá vera hitt markmiðið með þessum lögum.

Áhrifin verða vitanlega þau að færri borga skatta og slíkt. Það getur vel verið að þörf sé á því að endurskoða stærð bankakerfisins en það hlýtur að vera mjög óeðlilegt að gera það í gegnum fjárlög. En það er ekkert nýtt af hálfu ríkisstjórnarinnar að gera breytingar í gegnum fjárlög, á óskyldum hlutum í rauninni. Verið er að breyta heilbrigðiskerfinu hringinn í kringum landið í gegnum fjárlögum. Nú er ljóst að markmiðið er einnig að breyta launakjörum í fjármálageiranum sem hlýtur að teljast afar sérstök og sérkennileg aðgerð.

Hv. þingmaður nefndi árið 2013, að verið sé að vísa vandanum til þess árs; sú ríkisstjórn sem stjórni á árunum 2013 og 2014 muni þurfa að fara yfir þá slóð sem núverandi ríkisstjórn skilur eftir sig, setjast niður og segja: Nú, nú, það er búið að ráðstafa tekjum sem við hefðum átt að fá 2013, 2014 o.s.frv. Þessi ríkisstjórn gerir ekki ráð fyrir því að á þeim árum þurfi hugsanlega að stoppa í göt í fjárlögum en það er vegna þess að ríkisstjórnin gerir sér grein fyrir því að hún verður hér ekki lengur, það verður komin ný ríkisstjórn sem mun leysa það með öflugri atvinnustefnu.