140. löggjafarþing — 37. fundur,  15. des. 2011.

fjársýsluskattur.

193. mál
[23:16]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er nefnilega nokkuð merkilegt að lesa í þeim texta sem ég vitnaði til í ræðu minni áðan og í andsvörum líka að það sé markmið lagasetningarinnar með skattlagningunni að setja umhverfi þessara fyrirtækja í sama farveg og annarra atvinnuvega hér á landi, þ.e. að lækka laun, fækka störfum. Það er mjög merkilegt að lesa. Þetta hafa hv. stjórnarliðar aldrei viljað viðurkenna. Ég spyr mig þá: Hvað um allar þær ræður sem hv. stjórnarþingmenn hafa haldið um þrepaskipt skattkerfi? Að minnsta kosti hafa þeir talað þannig hingað til að þá sé í raun og veru búið að brúa það bil, að þeir sem hafa miklar tekjur borgi miklu hærri skatt, þ.e. um 50% af laununum mundu fara í skatt. Það er réttlætingin fyrir því að búa til þrepaskipt skattkerfi að þeirra eigin mati.

Þá spyr ég mig og vil spyrja hv. þingmann líka: Er þá eitthvert markmið með því að lækka laun, alveg sama í hvaða atvinnugrein það er? Í þessari yfirlýsingu hér er sagt að færa eigi þetta nær því sem aðrar atvinnugreinar búa við, sem sagt lækka laun, fækka störfum. Hver er þá tilgangurinn með því að hafa þrepaskiptan skatt ef menn ætla að fara þessar leiðir til að reyna að lækka laun, sem er náttúrlega alveg með ólíkindum ef það er markmið stjórnvalda á hverjum tíma að lækka laun í landinu, alveg sama hver atvinnugreinin er. Svo er þessu alltaf snúið á haus. Það vinna kannski þúsundir eða tugþúsundir manna en það er alltaf verið að tala um laun einhverra fimm eða tíu. Hvað um alla hina? Þetta er alltaf sett fram með þessum hætti.

Mig langar að spyrja hv. þingmann: Hver er skoðun hans á þessu? Er það ekki mótsagnakennt hjá stjórnarliðum að gera þetta á þennan hátt?