140. löggjafarþing — 37. fundur,  15. des. 2011.

fjársýsluskattur.

193. mál
[23:38]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Nú ætla ég kannski að vera svolítið kvikindislegur, en ég held að þetta eigi sér lengri forsögu. Það er alveg hárrétt sem hv. þingmaður kom inn á að Icesave-samningarnir áttu að fara í gegn óséðir bæði í þingflokkum og í ríkisstjórn og menn virðast ekki læra af reynslunni. Ég held reyndar að þetta eigi sér lengri aðdraganda. Ég held að vandinn geti legið jafnvel aftur til þess tíma þegar hv. þingmaður var ráðherra eða jafnvel enn lengra aftur að vinnubrögð hafi verið með þessum hætti. En það var svo að hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. forsætisráðherra gagnrýndu mjög þau vinnubrögð sem viðhöfð voru á Alþingi og töluðu ávallt fyrir því að þessu yrði breytt. Þau voru hv. þingmenn í stjórnarandstöðu til fjölda ára og mín tilfinning er sú að þau hafi verið alin upp í þessari umgjörð og svo þegar þau komust hinum megin við borðið var engu breytt og jafnvel hert enn meira á þessu. Þessir hæstv. ráðherrar höfðu þráð það svo lengi að komast til valda, þeim var orðið svo mál að allt var illt sem kom annars staðar frá eftir að þau komust í valdastólana. Þetta verður æ ljósara dag hvern og þetta sjáum við í þessu máli. Við sjáum þetta í fjárlögunum og þegar bent er á þetta er því yfirleitt svarað með skætingi og hroka. Það kom best fram í umræðum hér um tvísköttunina og atvinnulífið.

Hver voru viðbrögð hæstv. fjármálaráðherra gagnvart 300 störfum á Grundartanga, tveimur verkefnum sem eru að fara í gang? Það var ekkert annað en skætingur og hroki. Þetta er það sem hæstv. ráðherrar höfðu gagnrýnt en beita nú óspart (Forseti hringir.) og er gríðarlegt lýti fyrir Alþingi og mjög slæmt fyrir íslensku þjóðina.