140. löggjafarþing — 37. fundur,  15. des. 2011.

fjársýsluskattur.

193. mál
[23:44]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir greinargóð svör. Það er annað sem hefur líka vakið athygli mína í þessari umræðu og það er að þegar þetta frumvarp var lagt fram var horft til þess að verið væri að leggja byrðarnar á breiðu bökin, þ.e. bankana í landinu. Nú hefur það auðvitað komið á daginn að eins og frumvarpið var úr gerði gert bitnaði það langsamlega harðast á minni fjármálafyrirtækjum, fyrirtækjum sem til dæmis höfðu ekki notið þess forgangs sem maður getur sagt að stóru bankarnir fengu þegar eignir voru færðar úr gömlu bönkunum í hina nýju. Það átti til dæmis við um sparisjóðina. Síðan sáum við að ýmis önnur fjármálafyrirtæki sem hafa verið að spretta upp, m.a. á höfuðborgarsvæðinu, hefðu farið mjög illa út úr frumvarpinu eins og það blasti við.

Það vekur athygli mína að þegar þetta frumvarp var lagt fram var mjög horft til þess að verið væri að leggja byrðar á þessi fjármálafyrirtæki til að hlífa almenningi, launþegunum í landinu. Þegar við förum hins vegar yfir umsagnirnar sjáum við að samtök starfsfólks í fjármálafyrirtækjum hefur brugðist mjög harkalega við. Formaður þeirra samtaka, Friðbert Traustason frá Flateyri, hefur til dæmis skrifað mjög góðar greinar til að vekja athygli á því hvernig samspilið er milli þessa frumvarps og þessara hugmynda og þess að stór hætta sé á að fólk missi vinnu sína.

Það vakti líka athygli mína þegar Íslandsbanki var að kynna hagræðingaraðgerðir sínar að gripið var til þess ráðs að segja upp fjölda fólks, ekki síst konum og meðal annars konum sem höfðu mikla starfsreynslu. Þá var meðal annars vísað til þess að fram undan væru erfiðari tímar með þessum sköttum sem væru að stórum hluta til ótekjutengdir og óafkomutengdir og bitnuðu þess vegna mjög mikið á launaþættinum og það hefði þessi áhrif. Það sem ég er að segja og ég spyr hv. þingmann um er þetta: Er ekki alveg ljóst að þrátt fyrir að þetta frumvarp hafi verið lagt fram, sem átti ekki að koma við nokkurn einasta einstakling (Forseti hringir.) af því að það átti að koma við eitthvað óáþreifanlegt sem var fjármálastofnun, hefur það þessi áhrif á almenning (Forseti hringir.) í landinu, launþegana og starfsfólkið í bönkunum?