140. löggjafarþing — 37. fundur,  15. des. 2011.

fjársýsluskattur.

193. mál
[23:49]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Það er búið að vera ansi áhugavert að hlusta á umræðurnar, sérstaklega núna. Hér hafa tveir mjög öflugir þingmenn, báðir af landsbyggðinni, rætt mikið um sparisjóðina. Sömuleiðis var rætt um vinnubrögð og hvort vinnubrögð í þessu máli væru einsdæmi eða hvort þau hefðu verið með þessum hætti áður.

Ég hef nokkra reynslu af því að vera hér áður og hef verið ráðherra. Ég held að það væri mjög æskilegt ef menn, sérstaklega fjölmiðlamenn, mundu bera saman vinnubrögð þá og nú. Ég held að það sé alveg rétt að menn hefðu getað staðið sig betur áður en ég fullyrði að í þeim málum sem núverandi ríkisstjórnin hefur verið að vinna að og keyra í gegnum þingið hefur verið unnið eftir áður óþekktri leyndarhyggju og menn hafa jafnvel vísvitandi blekkt bæði almenning og hv. þingmenn.

Við ræddum ýmis mál, Icesave, ESB-málið, Stjórnarráðið og ýmislegt fleira, en burt séð frá því þótt ekki sé um sérstakan ásetning að ræða þá virðist mjög oft og sérstaklega í stórum málum unnið afskaplega ófaglega að hlutum og gengið þannig fram að oft og tíðum verða slæm mál enn verri út af því að þau eru illa unnin og ekki hugsað fyrir framtíðinni og ekki lagt mat á hvaða afleiðingar breytingar sem felast í frumvörpunum hafa. Þetta einkennir mjög störf þingsins núna.

Það einkennir t.d. svör við fyrirspurnum að þau eru oft og tíðum fullkomlega út í hött og menn veigra sér ekkert við því að svara þannig. En, virðulegi forseti, ráðherrar bera ábyrgð á svörum sínum við fyrirspurnum. Ég man þegar ég var í þessari stöðu þá reyndi ég að sjá til þess að svörin yrðu vönduð því að ekki var gefinn afsláttur af því ef menn voru ekki nákvæmir eða fóru ekki rétt með. Það er allt saman liðin tíð. Núna finnst manni stundum ráðherrar segja bara það sem þeim dettur í hug í skriflegum svörum.

Hv. þingmenn töluðu um sparisjóðakerfið. Ég hvet þá til að fara aðeins aftur í tímann til þess tíma þegar við hittumst sumarið 2009. Þá voru ekki lítil orð látin falla um sparisjóðina. Hv. þm. Álfheiður Ingadóttir var þá formaður hv. viðskiptanefndar og talaði svo sannarlega yfir hausamótunum á fólki, sérstaklega hv. landsbyggðarþingmönnum í Sjálfstæðisflokknum, um það hvort þeir ætluðu virkilega að þvælast fyrir björgun sparisjóðanna, hvort þeir ætluðu sér ekki að klára mál á nokkrum dögum sem sneri að björgun sparisjóðanna. Það lá svo gríðarlega mikið á að klára einhverja lagasetningu til að ná þessari björgun fram og því var lofað. Það var ekki bara hv. þm. Álfheiður Ingadóttir. Ég man að hv. þm. Jón Bjarnason hélt kynngimagnaðar ræður um mikilvægi sparisjóðanna og að aðgerðir ríkisstjórnarinnar í formi þessarar lagasetningar mundu gera að verkum að við sæjum öfluga lífeyrissjóði um allt land og sérstaklega í hinum dreifðu byggðum.

Hvað er búið að gerast síðan? Það sem er búið að gerast síðan er að sparisjóðirnir hafa verið að týna tölunni. Við sáum þá sárafáu sem eftir lifa koma fyrir hv. efnahags- og viðskiptanefnd út af þessu máli og segja: Ef þið leggið þennan skatt á þá erum við búnir að vera.

Í tíð núverandi ríkisstjórnar hefur aldrei verið farið í neina stefnumótun fyrir sparisjóðina. Einhver kynni að segja, virðulegi forseti: Af hverju á ríkið að fara í stefnumótun fyrir sparisjóðina? Eiga sparisjóðirnir ekki bara að bjarga sér? Við höfum verið að endurskipuleggja fjármálakerfið og eins og hv. þm. Einar Kristinn Guðfinnsson benti á þá fengu til að mynda stóru bankarnir þrír mikla meðgjöf. Þeir eru með gríðarlega sterkt eigið fé og hafa m.a. styrkt það vegna þess að þeir hafa verið að uppreikna lán sem þeir fengu með miklum leiðréttingum inn í efnahag sinn og hafa þeir þar af leiðandi sýnt ofurhagnað á meðan sparisjóðirnir hafa ekki verið í þeirri stöðu.

Sú stofnun sem var sett á laggirnar til að koma fram með hugmyndir og stefnumótun varðandi sparisjóðina hefur gert það, það er Bankasýslan. Hún hefur komið fram með hugmyndir en ekkert hefur verið gert með þær. Bankasýslan fór nákvæmlega yfir það hvernig staða sparisjóðanna væri, hvaða valmöguleikar væru og ekkert hefur verið gert með það en þess í stað á að skattleggja sparisjóðina til dauða.

Ég man þá tíð þegar hv. þm. Álfheiður Ingadóttir talaði hátt, skulum við segja, til hv. þm. Einars Kristins Guðfinnssonar og spurði hann hvort hann ætlaði virkilega að koma í veg fyrir að sparisjóðirnir mundu lifa blómlegu lífi. Hvað var hv. þm. Einar Kristinn Guðfinnsson að gera? Hann var að spyrja út í hvað sú lagasetning sem þá var lögð á borð hv. þingmanna sumarið 2009 þýddi og hvaða afleiðingar það mundi hafa að samþykkja þá lagasetningu. Það var ekki stærri glæpur sem hv. þm. Einar Kristinn Guðfinnsson framdi. Hann var fyrst og fremst að sinna þinglegri skyldu sinni og vildi vita hvað fólst í þessari lagasetningu. Lítil var þolinmæði hv. stjórnarþingmanna þá en lítið varð um efndir miðað við þær hástemmdu yfirlýsingar sem voru hafðar uppi.

Nú eru fáir sparisjóðir eftir og forsvarsmenn þeirra segja: Ef þetta frumvarp fer í gegn munu þeir ekki þola það — eins og frumvarpið lá fyrir í byrjun. Það er án nokkurs vafa skárra eftir breytingartillögur í hv. efnahags- og viðskiptanefnd.

Það liggur hins vegar alveg fyrir að þetta frumvarp skekkir samkeppnisstöðu minni fjármálafyrirtækja gagnvart þeim stóru. Það liggur líka fyrir að það skekkir samkeppni innlendra fjármálastofnana gagnvart þeim erlendu. Hvað þýðir það á íslensku? Það þýðir að við erum að færa störf frá Íslandi til útlanda. Þetta er ekkert flóknara. Íslenskar fjármálastofnanir keppa t.d. við erlendar um viðbótarlífeyrissparnað. Íslensku fjármálastofnanirnar þurfa að greiða miklu hærri gjöld en þær erlendu. Svo einfalt er það. Hvernig fjármagna íslenskar fjármálastofnanir sig? Alveg eins og aðrar, meðal annars með vaxtamun. Öll þessi gjöld á fjármálastofnanir — nú er ég ekki að segja að engin gjöld eigi að vera á fjármálastofnanir — koma einhvers staðar niður þegar menn ganga fram eins og núna. Það kemur niður á uppsögnum á starfsfólki, það kemur fram í vaxtamun eða minni sveigjanleika í skuldaniðurfærslum og skuldaleiðréttingum hjá fólkinu í landinu.

Ég verð að viðurkenna að ég hefði viljað sjá sama áhuga hjá hæstv. ríkisstjórn á að leiðrétta skuldir heimila og fyrirtækja og að skattleggja fjármálafyrirtækin. Ef þau hefðu lagt sama kraft í það væri vel komið fyrir íslenskri þjóð og þá væru miklu meiri tekjur í ríkiskassanum því að við þurfum að leiðrétta skuldir til að fá hjól efnahagslífsins af stað og þegar við fáum umsvifin þá fáum við tekjurnar.

Ef einhver kynni að segja: Hv. þingmaður er bara í stjórnarandstöðu og segir hvað sem er til að klekkja á ríkisstjórninni — þá hvet ég viðkomandi til að lesa þær umsagnir sem sendar voru inn. Það fannst engin umsögn — engin — sem mælti með þessari skattlagningu. Hvað sögðu þær stofnanir sem þekkja best til?

Bankasýsla ríkisins telur að skoða þurfi af kostgæfni hvaða áhrif fyrirhuguð skattlagning hefur á afkomu fjármálafyrirtækja og segir einnig að skatturinn muni leggjast þungt á sparisjóðina og hafa mögulega áhrif á framtíðarrekstrarhæfi þeirra.

Fjármálaeftirlitið bendir á að engin tilraun hefur verið gerð til að leggja mat á möguleg áhrif skattsins á fjármálamarkaðinn né heldur á neytendur og telur skattlagninguna varasama.

Ríkisskattstjóri er heldur ekki hrifinn af þessu framtaki og segir að nauðsynlegt sé að hafa samráð við aðila sem frumvarpið tekur til.

Virðulegi forseti. Til að koma til móts við fjármálastofnanir er þessi launaskattur lækkaður niður 5,45% að því gefnu að viðkomandi fjármálastofnun skili ekki hagnaði. Ef fjármálastofnun skilar hagnaði fer skatturinn upp í 6,71% út af flækjustigi sem er enn eitt dæmi um það að ríkisstjórnin getur ekki haft skattamálin einföld eða hefur það að markmiði að hafa þau flókin. Það er ekki hægt að draga þennan skatt frá rekstrarkostnaði eins og á við um önnur gjöld. Ef hagnaður er hjá fyrirtæki hækkar skatturinn sjálfkrafa úr 5,45% í 6,71%. Þessi framkvæmd á skattlagningu á sér enga hliðstæðu í þeim löndum sem við berum okkur saman við. Ég nefndi það áðan í andsvari og fyrr í kvöld í ræðu að þegar menn fóru að skoða fyrirmynd skattsins, sem á að vera danski bankalaunaskatturinn, sáu þeir að sú framkvæmd var með allt öðrum hætti.

Samt sem áður bentu Samtök starfsmanna fjármálafyrirtækja á að afleiðing af danska bankaskattinum, sem var þó miklu vægari en sá íslenski, hefði verið sú að bankastarfsmönnum í Danmörku var fækkað um 20%. Þeir eru að vísu ekki með eins gífurlega há gjöld til fjármálaeftirlitsins og við. Við höfum þá sérstöku að íslenska bankakerfið er 3% af stærð danska bankakerfisins en íslenska fjármálaeftirlitið er 43% af danka bankaeftirlitinu. Þá er að vísu ekki tekið tillit til IPA-styrkja sem eru um 400 milljónir sem bætast ofan þá milljarða sem fara í þá stofnun. Að sjálfsögðu greiða danskar fjármálastofnanir heldur ekki til umboðsmanns skuldara en sú stofnun mun kosta íslenska skattgreiðendur þegar næsta ár er liðið 2,5 milljarða kr. og langmest af þeim kostnaði verður lögfræðikostnaður.

Það er hagur tveggja stétta sem hæstv. ríkisstjórn ber sérstaklega fyrir brjósti, það eru annars vegar endurskoðendur því að hún flækir skattkerfið út í hið óendanlega til að endurskoðandi hafi enn meiri verkefni og hins vegar lögfræðingar, enda er ofurhagnaður hjá lögfræðifyrirtækjum. Ég hef ekkert á móti lögfræðingum, því síður endurskoðendum, mjög gott fólk og ég á marga vini í þessum stéttum, en það er fullkomlega galið að ganga fram eins og hæstv. ríkisstjórn gerir. Ég vek athygli á því, virðulegi forseti, að ef þessum 2,5 milljörðum væri skipt t.d. á milli 500 fjölskyldna væri hægt að leiðrétta skuldir þeirra um 5 millj. kr. hjá hverri. Einhverja mundi muna um það.

Ég fór hins vegar ekki yfir öll gjöldin, þ.e. ótekjutengdu gjöldin á fjármálafyrirtækin, ég talaði ekki um sérstaka skattinn á fjármálafyrirtækin, ég talaði ekki um gjaldið í Tryggingarsjóð innstæðueigenda, ég talaði ekki um tímabundið álag til að standa undir sérstökum vaxtaniðurgreiðslum og tryggingagjaldi. Allar þessar ótekjutengdu álögur eiga það sameiginlegt að koma einstaklega hart niður á minni aðilum. Allir sem þetta hafa skoðað, ef undan er skilin hæstv. ríkisstjórn, eru sammála um að þessi skattur þýði uppsagnir starfsfólks og þá fyrst og fremst og nær eingöngu kvenna á landsbyggðinni.