140. löggjafarþing — 37. fundur,  16. des. 2011.

fjársýsluskattur.

193. mál
[00:06]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er nokkuð góð spurning hjá hv. þingmanni. Mér sýnist fljótt á litið að um 1.500 heimili gætu fengið 5 millj. kr. leiðréttingu ef teknir eru saman þeir fjármunir sem fara í umboðsmann skuldara og það sem kemur út úr þessum skatti, það eru 4,5 milljarðar. 1.500 heimili. Ég held að það mundi hjálpa ansi mörgum heimilum að fá 5 millj. kr. skuldaniðurfellingu.

Stóra einstaka málið er að þetta sýnir í hnotskurn enn eitt vítahringsmál hæstv. ríkisstjórnar. Við erum föst í vítahring ef við leiðréttum ekki skuldir heimila og fyrirtækja og ef við erum með ríkisstjórn sem kemur alltaf í veg fyrir atvinnusköpun, mýmörg dæmi eru um það. Menn nefna alltaf um orkumálin en það er svo margt fleira, við getum til dæmis nefnt sjávarútveginn. Með því að skapa óvissu í sjávarútvegi er komið í veg fyrir fjárfestingu og það tengist ekki bara sjávarútvegi því að þeir sem þjónusta sjávarútveginn eru miklu fleiri en bara þeir sem eru í sjávarútvegi.

Komið var í veg fyrir að nýjasti og besti spítalinn á landinu, sem er í Keflavík, yrði nýttur til að skapa störf og tekjur fyrir heilbrigðisstarfsfólk og allt samfélagið þar og svo mætti lengi telja. Og vegna þess að menn eru fastir í þessum vítahring náum við ekki endum saman og fáum ekki tekjur í ríkissjóð. Þess vegna eru menn á elleftu stundu fyrir hver einustu fjárlög að reyna að bjarga sér fyrir horn. Þetta gerir að verkum að við erum áfram föst í þessum vítahring og í stað þess að stækka kökuna þannig að sneiðarnar verði stærri og við fáum meira í sameiginlega sjóði okkar minnka kökurnar (Forseti hringir.) að raungildi og þó svo að menn stækki sneiðarnar eru þær aldrei nógu stórar.