140. löggjafarþing — 37. fundur,  16. des. 2011.

fjársýsluskattur.

193. mál
[00:13]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Það er enginn vafi á því að þegar ríkisstjórnin kynnti þetta frumvarp um svokallaðan fjársýsluskatt var í hugum þeirra sem að þessum málum stóðu um að ræða vinsælan skatt. Þetta væri ekki skattur á almenning eins og margoft var haldið fram. Ríkisstjórnin og fulltrúar stjórnarliða í Alþingi hafa sagt okkur að skattalegar áherslur ríkisstjórnarinnar hafi breyst á þessu hausti og nú verði lagðar fram breytingar á skattalögum sem ekki snerta almenning í landinu.

En er það svo að fjársýsluskatturinn snerti ekki almenning? Kemur hann bara við fjármálastofnanir og -fyrirtæki í landinu og hefur í raun ekkert með afkomu almennings að gera? Auðvitað er það ekki þannig. Það er nefnilega mjög athyglisvert að þeir sem hafa brugðist hvað harðast við hugmyndum um fjársýsluskatt eru einmitt Samtök starfsmanna fjármálafyrirtækja. Þau hafa lagt áherslu á að ef þessi skattlagning nær fram að ganga eins og hún var kynnt í frumvarpinu muni hún hafa bein áhrif á afkomu fólksins sem vinnur í fjármálafyrirtækjum sem eru þúsundir manna, ekki síst konur, og enn fremur gæti þetta haft mjög alvarlegar afleiðingar fyrir atvinnuöryggi þess fólks sem í bönkunum starfar.

Nú þekkjum við það af reynslunni að fólkið sem hefur starfað í bönkunum á gjarnan langan starfsaldur að baki og það er vissulega vel. Bankastarfsemi krefst auðvitað sérhæfðrar þekkingar og sú þekking fæst ekki síst með reynslunni. Þegar fólk hefur unnið lengi í fjármálastofnunum skilur það miklu betur gangvirkið sem það vinnur í og á fyrir vikið gott með að eiga samskipti við þær þúsundir Íslendinga sem koma í bankastofnanir og eiga viðskipti við þær. Viðskiptavinirnir þurfa einmitt á því að halda að í þessum stofnunum vinni fólk sem hefur þekkingu og reynslu sem nýtist til að þekkja þetta fjármálaumhverfi sem oft og tíðum er flókið fyrir okkur hin sem ekki störfum þar og ekki síður til að eiga samskipti við almenning og koma upplýsingum á framfæri. Þess vegna skiptir mjög miklu að ákveðinn stöðugleiki sé í þessum þáttum. Það er þess vegna kannski ekki að undra að Samtök starfsmanna fjármálafyrirtækja hafi miklar áhyggjur þegar lagt er af stað með frumvarp sem auðveldlega er hægt að sýna fram á að muni hafa alvarlegar afleiðingar fyrir starfsfólk.

Þetta er ekki bara alvarlegt fyrir starfsfólkið heldur líka þá þjónustu sem þessar fjármálastofnanir veita og eiga að veita vegna þess að sú þjónusta verður ekki svipur hjá sjón ef menn tryggja ekki að þessi þekking og reynsla verði áfram fyrir hendi. Þess vegna vekur það mikla undrun í mínum huga og mjög margra annarra að nú þegar ríkisstjórnin hefur haft þrjú ár til að undirbúa breytingar á skattalögum og leggur þær fram í bandormum og sérstöku frumvarpi sem nær til fjármálafyrirtækjanna, hafi menn ekki verið búnir að hugsa þetta mál betur en raun ber vitni.

Hvernig sem við horfum á þetta er ljóst að málið er illa hugsað og jafnvel meðhöndlun málsins í þingnefndinni leiddi fram að málið var algerlega óburðugt og ótækt til afgreiðslu. Þetta sjáum við til dæmis á þeim breytingartillögum sem meiri hluti hv. efnahags- og viðskiptanefndar lagði fram og birtast okkur núna í þingskjali, þar er komið fram með verulegar breytingar frá frumvarpinu eins og það var upphaflega lagt fram. Upphaflega átti fjársýsluskatturinn að ná líka til lífeyrissjóðanna. Lífeyrissjóðirnir sýndu auðvitað fram á hversu fráleitt það væri og að það væri líklegt til að veikja almennu lífeyrissjóðina. Jafnframt sýndu þeir fram á að starfsemi lífeyrissjóðanna væri af allt öðrum toga en sú starfsemi sem fer fram í öðrum fjármálastofnunum, bankastofnunum í landinu.

Það blasti við að við þessu yrði að bregðast og það var gert með breytingartillögu. Síðan er greinilegt að menn hafa ekki hugsað þetta mál til enda því að ákveðið var að setja á þennan fjársýsluskatt sem er í raun og veru launaskattur. Eftir því sem fleira fólk er í vinnu hjá fjármálastofnun, þeim mun þyngra kemur hann niður á rekstri hennar. Það hlýtur að hafa þau áhrif að fjármálastofnunin reyni að velta þeim kostnaði af sér og hvernig mun það gert með sem auðveldustum hætti? Jú, með því að segja upp fólki eða lækka laun þess.

Það sem er svo undarlegt í þessu öllu saman er að áherslan var ekki sú að reyna að ná til þeirra fyrirtækja sem voru best í færum til að borga aukinn kostnað. Fjársýsluskatturinn er í eðli sínu ekki afkomutengdur skattur og hefur ekkert með það að gera hvort fyrirtæki vegni vel, hvort það sé að græða eða hvort því vegni illa og sé að tapa eða sýna lélegan rekstrarárangur af einhverjum ástæðum. Nei, þetta átti að vera skattheimta á laun. Hún hefði þau áhrif að smám saman syrfi að fyrirtækjum með margt fólk í vinnu. Þetta kemur ekki bara fram í sparisjóðunum sem við höfum rætt um heldur ekki síður hjá ýmsum smærri aðilum á fjármálamarkaði sem hafa skotið upp kollinum og skotið rótum eftir bankahrunið. Þegar þörfin kallaði á nýja tegund af fjármálalegri þjónustu sáu ýmsir tækifæri í að setja upp fjármálastarfsemi þar sem reksturinn byggir meðal annars á alls konar ráðgjafarstarfsemi sem er virðisaukaskattsskyld. Það er nauðsynlegt að undirstrika það vegna þess að þessi skattur er meðal annars réttlættur með því að bankarnir séu ekki virðisaukaskattsskyldir. Það er ljóst að eins og hugmyndin var í upphafi átti skatturinn sérstaklega að koma niður á launakostnaði fyrirtækjanna, auka launakostnað þeirra. Það hefði neikvæð áhrif á þessi nýju, litlu fyrirtæki á fjármálamarkaði sem byggja til dæmis rekstur sinn á ráðgjafarstarfsemi, skuldabréfaútgáfu og ýmsu öðru og því augljóst að þessi fyrirtæki yrðu grátt leikin. Enda hefur þróunin verið að birtast okkur á síðustu vikum og mánuðum, við höfum séð að þessi fyrirtæki hafa einmitt verið að leita sér skjóls með því að sameinast stóru bönkunum og það er auðvitað ekki sú þróun sem við viljum sjá, að minnsta kosti ekki að öllu leyti.

Ég ætla að vekja athygli á því að í kvöld var dreift svari hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra við fyrirspurn hv. þm. Péturs H. Blöndals um raunvexti á innlánum í bankakerfinu. Af hverju ræði ég þetta? Jú, vegna þess að eitt af því sem bent er á í öllum umsögnum um þetta mál, og raunar vekur meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar athygli á þessu líka, er að viðbrögð fjármálakerfisins við þessari ætluðu skattheimtu hljóta að verða sú að reyna að auka vaxtamuninn í landinu. Af hverju er að taka? Það er hægt að reyna að lækka vexti innlánseigenda og síðan hækka útlánavexti sem kæmi sérstaklega niður á atvinnulífinu sem sækir sér fyrst og fremst fjármagn inn í bankakerfið. Það gera einstaklingar líka en eðli málsins samkvæmt er atvinnulífið fjárfrekara en almenningur. Almenningur leggur hins vegar peninga á bók.

Í því samhengi er athyglisvert að skoða þróunina á þessu ári samkvæmt svari hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra við fyrrgreindri fyrirspurn hv. þm. Péturs H. Blöndals. Ef við skoðum meðalraunávöxtun óverðtryggðra innlána miðað við breytingar eftir að tekið hefur verið tillit til fjármagnstekjuskatts er ávöxtunin á 12 mánaða tímabili frá mars síðastliðnum 4,68% í mínus. Ef við skoðum 12 mánaða tímabil fram í júní á þessu ári er hún mínus 8,34% og í september mínus 3,82%. Með öðrum orðum, fólk sem hefur lagt inn á óverðtryggða reikninga er að finna fyrir því, meðal annars vegna áhrifanna af fjármagnstekjuskattinum og vaxtastiginu í landinu, að fjármunir þess eru að rýrna. Til að stuðla að auknum vaxtamun verður þrýstingur á að lækka þessa innlánsvexti og þá mun einmitt þetta fólk, almenningur í landinu og ekki síst gamla fólkið, sem vill sýna ráðdeild, (Forseti hringir.) byggja sig upp og gæta sín, verða sérstaklega illa úti vegna þessarar skattheimtu.