140. löggjafarþing — 37. fundur,  16. des. 2011.

fjársýsluskattur.

193. mál
[00:28]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Forseti. Það er hárrétt hjá hv. þingmanni að vegna þess hvernig þessi skattheimta er byggð upp mun hún klárlega koma verst við viðskiptavini smærri fjármálastofnana. Ég vil taka undir með hv. þingmanni þegar hann segir að ríkisstjórnin vilji nota sömu peningana tvisvar sinnum. Í þessu máli blasir við, og raunar í fleiri málum sem ríkisstjórnin hefur lagt fram, óskhyggja um að hér og þar leynist einhverjir aukapeningar sem alls ekki eru til.

Mig langaði að bera annað undir hv. þingmann sem hefur einnig komið fram í umræðunni, þ.e. samkeppni við erlendar fjármálastofnanir. Þetta frumvarp skerðir möguleika íslensks fjármálakerfis til að keppa við erlendar fjármálastofnanir. Í bandorminum sem við afgreiddum fyrr í dag var tekið út ákvæði um tvísköttun á fyrirtæki, iðnaðarfyrirtæki eins og til að mynda Elkem á Grundartanga, þ.e. kolefnisskattinn. Það var gert á þeirri forsendu að hann rýrði samkeppnisstöðu þessara iðnaðarfyrirtækja á alþjóðlegum markaði. Er hv. þingmaður ekki sammála því að sömu rök eigi við um það frumvarp sem við ræðum nú? Þar er með sama hætti verið að rýra samkeppnisstöðu fjármálafyrirtækja gagnvart fyrirtækjum erlendis. Ættu þá ekki sömu rök við um að breyta þeirri skattlagningu sem hér er lögð til eða hætta við hana?