140. löggjafarþing — 37. fundur,  16. des. 2011.

fjársýsluskattur.

193. mál
[00:30]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Auðvitað eiga nákvæmlega sömu rök við um þetta eins og í því dæmi sem hv. þingmaður nefndi. En mig grunar að hluti af því sem við sjáum hér kunni að stafa af því að við fórum í gegnum hrun sem þjóðin er brennd af. Menn horfa allt öðrum augum nú til dags á fjármálafyrirtækin og hafa kannski ekki nægilegan skilning á því að heiðarleg, góð fjármálafyrirtæki eru mjög mikilvæg fyrir hvert einasta samfélag. Það er einfaldlega þannig að ef samfélag fær ekki góða fjármálaþjónustu verður svo margt að. Við þekkjum það í smækkaðri mynd í litlum samfélögum að þar sem fyrirtæki hafa ekki fengið eðlilega bankafyrirgreiðslu af ýmsum ástæðum standa þau höllum fæti, fyrir utan að fjármálastarfsemi er líka mikilvæg í atvinnulegu tilliti. Hún skapar möguleika fyrir ungt og menntað fólk og við megum ekki vera svo blind á það sem gerðist á undanförnum árum að við höfum almenna fordóma gagnvart því að byggja upp fjármálakerfi sem getur verið eftir sem áður nauðsynlegur starfsvettvangur fyrir okkar unga fólk sem er til dæmis að koma úr skóla.

Ég vil vekja athygli á einu í viðbót í þessu sambandi sem er það sem fjármálafyrirtækin sjálf hafa sagt. Þau hafa sagt: Ef ríkissjóður telur sig þurfa á peningum fjármálafyrirtækja að halda til að standa undir samneyslunni og velferðinni í landinu, er miklu eðlilegra að reyna að sækja það á grundvelli afkomunnar sem þau sýna, ekki með því að búa til skattstofn úr launaþætti fyrirtækjanna. Það dregur úr vilja þeirra til að ráða til sín starfsfólk og ýtir þess vegna undir atvinnuleysið. Það er miklu eðlilegra að reyna að skattleggja hagnaðinn. Það er að vísu vísbending um það í breytingartillögunum en hún er til marks um hversu óhugsað (Forseti hringir.) þetta mál var strax í upphafi og að þetta hafi ekki verið hugsunin þegar frumvarpið var lagt fram. Þetta neyddust menn til að gera eftir umsagnir sem bárust til efnahags- og viðskiptanefndar.