140. löggjafarþing — 37. fundur,  16. des. 2011.

fjársýsluskattur.

193. mál
[01:14]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég kem nú aftur í þessa umræðu um frumvarp til laga um fjársýsluskatt og ætla að nálgast málið með örlítið öðrum hætti en ég gerði í fyrri ræðu minni þar sem ég talaði almennt um skattlagningaráform núverandi ríkisstjórnar og hver heildarstefnan hefði verið í þeim efnum og vék að frumvarpinu sem hér er til umræðu í því samhengi. Ég ætla í þessari ræðu að horfa örlítið frekar á útfærslu þess frumvarps sem liggur til umræðu með þeim breytingartillögum sem fram hafa komið af hálfu meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.

Það er alltaf svo að þegar umræða stendur yfir um þessi mál gefst okkur þingmönnum, sem ekki eigum sæti í þeirri nefnd sem um málið fjallar, tækifæri til að grufla svolítið í málunum. Ég hef verið að gera það og jafnframt fengið athugasemdir utan úr bæ, eins og maður segir, sem hafa gefið mér tilefni til að skoða ákveðna þætti málsins betur. Án þess að ég vilji hrapa að niðurstöðum vil ég þó segja að ég mundi ráðleggja hv. efnahags- og viðskiptanefnd að taka sér þann tíma sem hún hefur hugsanlega milli 2. og 3. umr. til að fara í ákveðinn lagatæknilegan yfirlestur á frumvarpinu með þeim breytingum sem fram hafa komið, ef það gæti orðið til þess að skýra einhverja þætti sem við lauslega yfirferð virðast þurfa aðeins nánari athugunar við.

Þau atriði sem ég er að hugsa um í því sambandi tengjast m.a. skattskylduákvæðunum í upphafi frumvarpsins. Það er auðvitað forsenda skattalaga og góðrar beitingar þeirra að reglurnar sem settar eru af hálfu löggjafans séu eins skýrar og kostur er. Þegar ég skoða fyrstu greinar frumvarpsins þar sem fjallað er um skattskylda aðila og skattskylda starfsemi virðist mér í fljótu bragði að um túlkunarvanda geti verið að ræða í sumum tilvikum. Ég skora á hv. nefnd að veita því nokkra athygli áður en hún lýkur endanlega yfirferð sinni yfir þetta mál. Ég er að vísa til þess að í upphafsgreinunum, sem lúta bæði að skattskyldum aðilum og þeirri þjónustu sem þar um ræðir, er þetta orðað nokkuð víðtækt; meiningin er greinilega sú að hafa ákvæðin víðtæk þannig að aðilar eigi þess ekki kost að komast auðveldlega hjá skattskyldu. Það er ágætt svo langt sem það nær en gerir það hins vegar að verkum að í ákveðnum tilvikum kann að vera óskýrt við hverja er átt.

Ég velti því t.d. fyrir mér í sambandi við skattskyldu aðilana hverjir eru skattskyldir. Í 2. gr. frumvarpsins eru tilteknir aðilar sem eru skattskyldir og nefndar tegundir félaga svo og aðrir sem í atvinnuskyni eða með sjálfstæðri starfsemi sinni inna af hendi vinnu eða þjónustu á tilteknu sviði. Svo eru tilteknar tegundir fjármálafyrirtækja og síðan útibú, umboðsmenn og aðrir fulltrúar erlendra aðila á þessum sviðum. Þarna geta verið jaðartilfelli. Ég er ekki með tillögu að breyttu orðalagi í þessu sambandi en ég vek þó athygli á því að þarna getur skapast vafi vegna þess hve orðalagið er almennt.

Meðal annars vaknar sú spurning hvort svo kunni að vera að í ákvæðunum sé vísað til launagreiðenda og verkkaupa af því að bæði er gert ráð fyrir að lagður sé skattur á launagreiðslur og verktakagreiðslur á tilteknum sviðum, en svo virðist sem verktakarnir sjálfir eða aðrir sem inna af hendi vinnu eða þjónustu geti líka verið skattskyldir. Þá vaknar jafnvel sú spurning hvort það eigi að einhverju leyti við um launþega. Nú er rökrétt að skýra þessi ákvæði með þeim hætti að verkkaupi og verktaki eigi ekki báðir að standa skil á skattinum en engu að síður má lesa aðrar greinar, t.d. 4. gr., þannig að bæði launagreiðandinn eða verkkaupinn og verktakinn eða launþeginn geti verið skattskyldir miðað við ákvæðið.

Ég vek fyrst og fremst athygli á þessu, hæstv. forseti, til að hafa komið þeirri ábendingu á framfæri við nefndina að þarna gæti verið gott að fá lögfræðilegan yfirlestur með nokkuð gagnrýnu hugarfari út frá lagatæknilegu sjónarmiði, þá sérstaklega skattalaga, burt séð frá hinni efnislegu hlið málsins um hversu hár skatturinn eigi að vera, hvort eigi að leggja skattinn á og allt það. Skatturinn yrði þannig lagður á með nægilega skýrum heimildum í lögum. Í fljótu bragði, eins og ég segi, sýnist mér að nokkuð skorti á í þeim efnum að það sé alveg ljóst þegar þessi ákvæði eru lesin hverjir hinir skattskyldu aðilar séu og hvaða starfsemi eða þjónustu skattskyldan nái til.

Annað atriði af sama toga — og nú rennur tíminn mjög hratt frá mér — sem mér finnst einnig þurfa að skoða vel út frá lagatæknilegu sjónarmiði eru gildistökuákvæðin og reyndar dagsetningarákvæði í frumvarpinu, sérstaklega þegar horft er til breytingartillagna. Hvenær eiga lögin að taka gildi? Hvenær eiga einstök ákvæði að taka gildi? Hvað er átt við með orðalagi t.d. í b-lið 5. liðar breytingartillagna meiri hlutans þegar talað er um fyrirframgreiðslu upp í álagðan fjársýsluskatt 1. apríl vegna mánaðanna þar á undan? Er það fyrirframgreiðsla 1. apríl vegna janúar, febrúar og mars? Ég átta mig ekki alveg á þessu orðalagi og legg til að þessi gildistökuákvæði og dagsetningarákvæði sem verið er að breyta m.a. með breytingartillögum meiri hlutans verði skoðuð sérstaklega þannig að samræmi sé í þeim og einhver lógísk hugsun.

Í því sambandi má nefna ákvæðið um að þeir aðilar sem standa eiga skil á skattinum þurfi að tilkynna sig eins og getið er um í 7. gr., skráningarskyldu. Þar segir, með leyfi forseta:

„Hver sá sem er skattskyldur […] skal ótilkvaddur og ekki síðar en átta dögum áður en starfsemi hefst tilkynna atvinnurekstur sinn eða starfsemi til skráningar hjá ríkisskattstjóra. Þeir sem stunda skattskylda starfsemi […] skulu einnig tilkynna ríkisskattstjóra um starfsemi sína.“

Hvenær eiga þeir að gera það? Þegar í stað við gildistöku laganna? Ef lögin verða samþykkt á morgun þýðir þetta þá að þeir verði að klára það þegar lögin hafa birst núna um jólin eða hvað er átt við í þessu sambandi? (Forseti hringir.) Hvenær á skráningin að koma til sögunnar?

Það eru fleiri atriði af sama toga, hæstv. forseti, sem vert væri að vekja athygli á, þ.e. lagatæknileg frekar en efnisleg, og verð (Forseti hringir.) ég að boða að koma hingað síðar í ræðu til að fjalla nánar um þá þætti.