140. löggjafarþing — 37. fundur,  16. des. 2011.

fjársýsluskattur.

193. mál
[01:24]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum frumvarp til laga um fjársýsluskatt. Ég kem hér upp í annað skipti vegna þess að ég hef rekið augun í það og með því að fylgjast með umræðunni að það vantar nokkur atriði. Eitt af því sem vantar eru til dæmis vátryggingafélög. Það hefur eiginlega ekkert verið rætt um vátryggingafélög í kvöld. Ég fór að skoða reikninga vátryggingafélaga og afkoman er bara alls ekki beysin. Eitt þeirra er með stórkostlega mikinn halla og það er sennilega vegna afleiðinga af hruninu, annað er með frekar lítinn hagnað og eitt er með þokkalegan hagnað.

Það segir mér að ef fara á að skattleggja launin í þessum fyrirtækjum hverfur hagnaðurinn eins og dögg fyrir sólu og þessi fyrirtæki sem veita almenningi þjónustu á sviði trygginga, tryggja heimili manna og bifreiðar, muni annaðhvort leggja upp laupana eða þurfa að hækka þjónustu sína, þ.e. iðgjöldin vegna trygginganna. Ég hygg að þau muni frekar hækka iðgjöldin vegna trygginganna en leggja upp laupana. Þetta frumvarp kemur því niður á heimilunum með þeim hætti.

Ég fór líka í gegnum nokkrar umsagnir og rak augun í umsögn frá Allianz Ísland hf. sem er fyrirtæki sem starfar á Íslandi og er útibú frá þýsku tryggingasamsteypunni Allianz sem er ein sú stærsta í heimi. Þar er bent á að á bak við alla þessa skattlagningu á fjármálafyrirtæki virðist vera einhvers konar tilfinningasemi, það sé verið að hegna þeim eða refsa þeim fyrir það að fjármálafyrirtæki hafi sett landið á hausinn og það sé sjálfsagt að láta þau borga fyrir það. Þeir benda á að Allianz kom Íslandi ekki á hausinn, langt í frá, og það líði meira fyrir hrunið en það hafi nokkurn tíma hagnast á góðærinu eða neitt slíkt. Þarna er því verið að hengja bakara fyrir smið. Þeim finnst mjög óréttlátt að þeir séu látnir blæða fyrir fjármálastarfsemi sem í rauninni olli þeim mjög miklum vanda eins og flestum öðrum. Þeir eru ekki með nein innlán og útlán og geta ekki hækkað vaxtamun eins og bankarnir geta gert eða innlánsstofnanir. Þeir geta í rauninni ekki velt þessu yfir á kúnnann af því að það er búið að gera samninga, fasta samninga, og þeir hafa því engin tæki gegn þessum skatti. Ef þetta væri virðisaukaskattsskylt gætu þeir dregið innskatt frá en það gengur ekki. Þeir kvarta mikið undan þessu og segja að það brjóti gegn jafnræðisreglu stjórnarskrár ef löggjafinn samþykkir að mismuna fyrirtækjum með þessum hætti.

Nú þarf ég að fara að drífa mig, frú forseti, vegna þess að ég óttast að komast ekki yfir allt sem ég þarf að ræða, ég ætlaði að reyna að klára þetta. Eins og ég gat um áður erum við að hreyfa okkur innan ramma fjárlaganna, eða Alþingi, allar breytingar sem gerðar eru á frumvarpinu verða að vera innan ramma fjárlaganna. Ef menn lækka einn skatt vegna þess að í ljós kemur að hann er ekki skynsamlegur — ég vil ekki nota orðið arfavitlaus en hann kemur bara ekki vel út — þá þurfa menn í rauninni að setja nýjan skatt eða hækka einhvern annan skatt á sömu fyrirtækjagrúppuna. Þetta er eiginlega sú staða sem við erum sett í með þessari röð á verkefnum sem við vinnum, að samþykkja fyrst fjárlögin og síðan tekjuhlið fjárlaga.

Það sem meiri hluti nefndarinnar gerir er að lækka gjöldin á launin því að í ljós kom að það mundi bara valda hörmungum, sérstaklega í minni stofnunum úti á landi. Eins og ég gat um er þróunin sú að fólk notar netið miklu meira en áður og þetta mun hugsanlega flýta þeirri þróun að útibúum verður lokað, þjónustan flyst inn heim í stofu til kúnnans, inn í vinnuherbergið og þar vinnur hann á tölvuna sína og við það missir fjöldi fólks vinnuna. Það er kannski versti fylgifiskur þessarar lagasetningar að hún mun væntanlega hafa í för með sér uppsagnir og þær uppsagnir munu væntanlega koma illa við launþega og ríkissjóð líka. Það er dálítið merkilegt að með því að þvinga fjármálafyrirtækin til að segja upp fólki þá fer það fólk, hvert? Annaðhvort til útlanda og hættir að borga skatta á Íslandi eða það fer á atvinnuleysisskrá og kostar þar eða það fer í háskóla og kostar ríkissjóð. Það er að segja, menn eru í rauninni að auka álögur á ríkissjóð.

Svo vil ég benda á það sem kemur fram í nefndaráliti meiri hlutans. Þar virðist vera ákveðin skekkja í útreikningunum því að þar er gert ráð fyrir því að lækka þennan skatt úr 10,5%, sem er náttúrlega óskaplega hár skattur á laun, niður í 5,45%. Sem sagt um rúmlega helming en samt eiga tekjurnar ekki nema að helmingast. Maður hefði haldið að tekjurnar mundu þá rúmlega helmingast að því gefnu að skatturinn hafi engin áhrif á launin. En menn eru einmitt að lækka þetta til að minna verði um það að fólki sé sagt upp. Í rauninni ættu tekjurnar að verða meiri en gert er ráð fyrir í nefndaráliti meiri hlutans, við það að lækka prósentuna um rúman helming ættu tekjurnar að lækka miklu minna. Þarna hefur nefndin væntanlega gert einhver mistök í hugleiðingu sinni. Þetta skiptir kannski ekki mjög miklu máli nema menn ákveði að hækka prósentuna á hagnaðinn í staðinn til að ná sömu tekjum og þá er ég aftur kominn inn á það sem ég gat um áðan, um spennitreyjuna, að menn verði að hreyfa sig innan fjárlaganna og eru þvingaðir til þess. Það er náttúrlega ómöguleg staða því að komið getur í ljós að það sé bara ekki hægt að leggja skatt á viðkomandi atvinnugrein sem á að bera skattinn.

Frá Samtökum fjármálafyrirtækja kom umsögn og ég hef hlustað eftir því í allt kvöld hvort eitthvað sé talað um tryggingafélög en það er eiginlega hvergi talað um þau, hvorki í nefndaráliti meiri hluta né minni hluta né í umsögnum. Það er eins og þau hafi gleymst. En ég hugsa að þau séu ekkert síður berskjölduð fyrir bæði skatti á hagnað, sem er ekkert voðalega mikill, og skatti á laun og að sú lækkun sem meiri hluti hv. efnahags- og viðskiptanefndar leggur til muni eftir sem áður skaða vátryggingafélögin mjög mikið og við munum upplifa það að iðgjöld vegna bílatrygginga, heimilistrygginga o.s.frv. muni hækka. Ég veit ekki hvort menn hafa haft það í huga að telja heimilin svo burðug að þau geti staðið undir auknum greiðslum.

Svo vil ég, eins og nefnt hefur verið hér áður, vitna í svar sem ég fékk frá hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra varðandi raunvexti á innlánum. Þar kemur bara í ljós, frú forseti, að allar götur frá mars 2006 til dagsins í dag hafa óverðtryggðir reikningar borið neikvæða ávöxtun, þ.e. sparifjáreigendur eru stöðugt að tapa, hvert einasta ár hafa raunvextir verið neikvæðir. Það þýðir að við erum að skera niður sparnað í landinu og hér er verið að skattleggja þessi ágætu fjármálafyrirtæki sem borga þessa vexti, þ.e. við erum að skattleggja fyrirtækin og þau geta þá enn síður borgað sanngjarna og réttláta vexti á innstæður sem ættu náttúrlega að vera fyrir ofan verðbólgu. Bæði eru vextirnir á innstæðurnar skattaðir og fyrirtækin skattlögð alveg sérstaklega aftur og aftur sem gerir það að verkum að menn eru að saga niður sparnað í landinu. Ég man þá tíð að það var engin lán að hafa neins staðar nema víxla til þriggja mánaða, og ég vil ekki sjá að börnin mín og barnabörn upplifi svoleiðis tíma.