140. löggjafarþing — 38. fundur,  16. des. 2011.

störf þingsins.

[10:41]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Ég vil sömuleiðis tjá mig um þá tillögu til þingsályktunar sem komin er fram um afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra. Ég tel eðlilegt að þingið taki þessa tillögu á dagskrá því að fyrir liggja rökstuddar upplýsingar um að stuðningur við ákæru Alþingis á hendur þessari tilteknu persónu sé ekki lengur sá sami og áður var. Í ljósi þess hvernig málið er vaxið, ekki síst gagnvart landsdómnum sjálfum og þeirri persónu sem um ræðir, finnst mér vart boðlegt að hafa slíka óvissu hangandi yfir bæði landsdómi og viðkomandi einstaklingi í að minnsta kosti mánaðartíma. Ég tel að að öllu eðlilegu sé miklu heiðarlegra af okkur að taka málið á dagskrá, ganga til atkvæða um það og koma því í ákveðið ferli þannig að þessari óvissu sé aflétt. Maður spyr hvers vegna viðhorfin séu breytt. Til þess liggja ýmsar ástæður. Meginrökin liggja í því að búið er að vísa frá stórum ákæruliðum sem eru farnir út úr málinu. Sömuleiðis liggja fyrir nýjar upplýsingar, t.d. varðandi neyðarlögin, og mat manna á þeirri aðgerð er allt annað í dag en var.

Það liggur líka fyrir að ESA hefur höfðað mál á hendur íslenskum stjórnvöldum sem hafa lýst því yfir, sem betur fer, að þau ætli að berjast með kjafti og klóm fyrir hagsmunum Íslands. Eitt af ákæruatriðunum þar varðar til dæmis Icesave þannig að það eru ýmsir þættir í þessu máli sem krefjast þess af Alþingi að það hafi ekki lengur en nauðsyn krefur hangandi yfir þá óvissu sem nú er komin í málið. Ég tel tvímælalaust að Alþingi beri (Forseti hringir.) að taka málið á dagskrá og koma því í einhvern annan farveg en það er statt í núna.