140. löggjafarþing — 38. fundur,  16. des. 2011.

störf þingsins.

[10:44]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla að taka þátt í þessari umræðu undir þessum lið og ræða það sem menn hafa rætt hér á undan, landsdómsmálið. Ég held að hver sem skoðar það komist að þeirri niðurstöðu að það væri mjög óeðlilegt í ljósi þeirra breyttu aðstæðna sem uppi eru að við færum ekki aftur yfir það mál. Ég held að við séum öll sammála um að tíminn er núna.

Við þekkjum það öll að það er algengt og þekkt að ákærandi felli mál niður, sérstaklega þegar aðstæður breytast. Það þarf ekki að taka það fram, það þekkja allir. Ég held að það væri mjög skynsamlegt og æskilegt fyrir okkur að eyða þessari óvissu. Uppi eru breyttar aðstæður, bæði hvað það varðar að búið er að vísa frá stærstu ákæruliðunum og síðan hefur komið fram í kjölfar þess að aðstæður eru breyttar á hv. Alþingi. Engum er í hag að hafa þessa óvissu hangandi yfir, allra síst hv. þingmönnum. Hvort sem okkur líkar betur eða verr er þetta sá tími sem er æskilegast að við förum í þetta mál. Nú reynir svolítið á hvort við höfum vilja til að vinna það, sem og önnur, skipulega og í góðri sátt. Ég held að við hv. þingmenn höfum sýnt það þótt við höfum oft tekist á um ýmislegt að ef við ætlum okkur að vinna vel úr málum, ef vilji er fyrir hendi, getum við gert það. Ég biðla til hv. þingmanna um að gera það og ég er sannfærður um að ef menn sýna vilja í þá áttina mun þetta mál fara vel.