140. löggjafarþing — 38. fundur,  16. des. 2011.

störf þingsins.

[10:48]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Hin sérstaka þingmannanefnd lagði til að fjórir ráðherrar yrðu ákærðir og hafði eflaust í huga að þeir yrðu allir ákærðir. Síðan gerist það að fyrst er einn þeirra ákærður en svo gerist eitthvað merkilegt í ferlinu, einhvers konar hringekja sem varð til þess að hinir þrír voru ekki ákærðir. Þetta hafa sumir kallað að blandað hafi verið inn í þetta einhverri pólitík og jafnvel persónulegum hugrenningum og sálfræði. Síðan fer málið til sérstaks saksóknara og hann vísar vissum þáttum frá.

Segja má að það sem fyrst var lagt upp með, að fjórir yrðu ákærðir, sé löngu farið. Ég held því að Alþingi eigi að endurskoða þetta mál, sérstaklega vegna þess að veigamiklum þáttum þess hefur verið vísað frá.

Með leyfi frú forseta vil ég lesa úr viðtali hæstv. forsætisráðherra í morgun í býtið á Rás 2. Þar var hæstv. forsætisráðherra Jóhanna Sigurðardóttir spurð hvort þetta hefðu verið mistök allt frá upphafi. Hún segir:

„Þetta landsdómsmál — þessu hefur aldrei verið beitt fyrr en núna og þessi löggjöf er yfir 100 ára gömul. Hún er úrelt, úr sér gengin og þetta mál á ekki að vera hjá Alþingi. Ef ráðherrar brjóta af sér á það að vera í eðlilegu dómsferli en ekki hjá landsdómi.“

Hæstv. forsætisráðherra og formaður Samfylkingarinnar segir að þetta mál eigi ekki að vera hjá landsdómi, hann sé úreltur. Ég tel einboðið að Alþingi verði að hlýða þessum orðum og afturkalla þessa ákæru.