140. löggjafarþing — 38. fundur,  16. des. 2011.

störf þingsins.

[10:53]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Frú forseti. Landsdómsmálið er erfiðasta mál sem Alþingi hefur fengið til úrlausnar. Málið gekk þvert á flestar flokkslínur og hver einasti þingmaður greiddi því atkvæði á grundvelli sannfæringar sinnar og samvisku. Niðurstaðan var ófyrirsjáanleg og ég skal játa að það voru erfið augnablik þegar ljóst var að Geir Haarde mundi einn verða látinn svara fyrir landsdómi en ekki fagráðherrarnir sem með honum voru. (Gripið fram í: … hafðir tækifæri til að greiða …)

Alþingi Íslendinga komst að niðurstöðu í málinu að undangenginni vandaðri málsmeðferð sem meðal annars birtist okkur í níu binda rannsóknarskýrslu. Landsdómur hefur hafið störf sín og réttarhaldið er vel á veg komið. Alþingi Íslendinga getur ekki verið þekkt fyrir að grípa inn í réttarhald sem er hafið fyrir dómstól. Það væri að bíta höfuðið af skömminni og fullkomin vanvirðing við þrískiptingu valds og þær grundvallarreglur sem okkur er ætlað að starfa eftir.

Geir Haarde á þess nú kost fyrir landsdómi að færa fram sínar málsbætur. Hann á það tryggt að þær verði allar metnar og vegnar í samanburði við sakarefni og úr því sem komið er er engin skynsemi í öðru en að leiða málið til lykta fyrir dómnum á grundvelli gildandi laga Það er fráleitt að koma með þetta mál á lokadegi þings og fráleitt ef forseti lætur sér til hugar koma að setja málið á dagskrá í dag og mér finnst fráleitast af öllu að einhverjum skuli hafa komið til hugar að við gætum fært réttarhöld hingað inn í þingsali. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)