140. löggjafarþing — 38. fundur,  16. des. 2011.

störf þingsins.

[11:02]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég get tekið ágætlega undir margt sem hér hefur verið sagt. Ég vil þó minna hv. þm. Lúðvík Geirsson á að enginn hefur talað jafnlengi og hans ágæti formaður í þessum ræðustól, [Hlátur í þingsal.] það er sjálfsagt mjög merkileg ræða af hennar hálfu en enginn nennir að vísu að lesa hana eða hlusta á hana.

Hér hefur verið talað um vinnubrögð. Ég get tekið undir að margt er skrýtið í vinnubrögðum. Auðvitað er líka mjög skrýtið að heyra þingmenn Samfylkingarinnar og ríkisstjórnarinnar tala um að Alþingi eigi ekki að grípa inn í dómsmál. Hvaða flokkar eru það sem hafa til dæmis hunsað niðurstöður Hæstaréttar? Hvernig var þetta með stjórnlagaþingið? Hvað gerðist þá? Alþingi átti bara að breyta þeirri niðurstöðu vegna þess að stjórnarmeirihlutanum þóknaðist það. Hvað gerðist þegar Hæstiréttur beindi því til hæstv. umhverfisráðherra að fara að lögum? Nei, nei, það var bara pólitík, sagði hæstv. umhverfisráðherra, skiptir engu máli. Það er til fullt af dæmum um að Alþingi hafi ákveðið annaðhvort að leiðrétta hluti eða breyta þeim.

Landsdómsmálið sem hér er rætt um á klárlega heima hér. Menn geta hins vegar samið um hvenær það er tekið á dagskrá, hvaða málsmeðferð það fær og slíkt. Það er alveg hægt að gera það. En að koma hingað í ræðustól og tala um vinnubrögð og annað — ég vil bara upplýsa hv. þingmenn um að ég hef aldrei á ævi minni kynnst öðrum eins munnsöfnuði og vinnubrögðum og hjá hv. þingmönnum Þór Saari og Birni Val Gíslasyni á síðustu dögum þegar verið er að semja um mál, svo það sé sagt.

Þegar samningar eru gerðir skulu orð standa. Vinstri grænir komast núna upp með að virða ekki samninga sem gerðir voru í september. Þá var samið um afgreiðslu á einu máli og hvernig það yrði gert fyrir þinglok. Þingflokksformaður Vinstri grænna segir: Nei, við ætlum ekki að standa við samninga. [Frammíköll í þingsal.] Það segir hann. Það er ótrúlegt að hlusta á þetta og það er fjöldi ... (Forseti hringir.)

Svo ég segi nú nokkur orð við þingmenn Hreyfingarinnar sem vanda um fyrir öðrum þingmönnum fyrir framan þjóðina. Ég held að þingmenn Hreyfingarinnar ættu að skammast sín, (Forseti hringir.) hlusta á eigin ræður, þeir tala niður Alþingi og tala niður þjóðina. Þeir eru okkur til skammar.