140. löggjafarþing — 38. fundur,  16. des. 2011.

hækkun á kvóta Íslands hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

304. mál
[11:23]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Helgi Hjörvar) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar. Hún hefur haft þetta mál um kvóta hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum til umfjöllunar og gefið út nefndarálit á þskj. 501 sem alþingismenn geta kynnt sér.

Í stórum dráttum varðar þetta stækkun á kvóta okkar hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og felur í meginatriðum í sér að inneignir okkar hjá sjóðnum aukast um 37 milljarða með því að 1/4 þeirrar fjárhæðar er ráðstafað af gjaldeyrisforða okkar inn á inneignarreikning í Alþjóðagjaldeyrissjóðnum en 3/4 eru skapaðir með því að gefa út inneignarreikning í íslenskum krónum fyrir sjóðinn hjá Seðlabanka Íslands.

Meiri hlutinn leggur til að málið verði samþykkt og ég þakka nefndarmönnum fyrir góða samvinnu við meðferð málsins.