140. löggjafarþing — 38. fundur,  16. des. 2011.

hækkun á kvóta Íslands hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

304. mál
[11:24]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Í síðustu viku var þetta mál fyrst lagt fram. Það varð lítil umræða um það en ég tók þátt í henni og benti á að þetta væri ábyrgð íslenska ríkisins á skuldbindingum AGS sem hefur verið í aðgerðum víða um heim. Ég spyr hv. formann efnahags- og viðskiptanefndar hvort nefndin hafi kannað þá áhættu sem gæti stafað af þessu. Ég minni á að nýr framkvæmdastjóri AGS, Lagarde minnir mig að hún heiti, er búin að vara við því aftur og aftur og síðast í fyrradag eða í gær að staðan væri orðin mjög alvarleg um allan heim, og ekkert land undanskilið. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hjálpar mjög víða og í vaxandi mæli. Ég endurtek það sem ég sagði við 1. umr., þegar þýska þingið ræddi um sambærilega ábyrgð fyrir Evrópusambandið spurði einn þingmaður þar af því að það var talað um að það væru engar líkur á að þessi áhætta kæmi til: Af hverju eruð þið þá að veita þessa ábyrgð fyrst það mun ekki reyna á hana?

Það er nefnilega þannig að allar þessar ábyrgðir koma einhvern tímann til þó að líkurnar kunni að vera litlar. Þetta er vissulega ábyrgð þótt þetta sé ekki skuld hjá ríkinu. Þetta er talið eign þangað til Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn notar það. Þannig skil ég það. Það væri ágætt að fá skýringu formanns nefndarinnar á því hvað þetta er eiginlega, hvort þetta er ábyrgð eða eign. Hvað gerist ef Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn lendir í verulegum vandræðum og á ekki lengur fé? Hvað gerist þá?