140. löggjafarþing — 38. fundur,  16. des. 2011.

hækkun á kvóta Íslands hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

304. mál
[11:26]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Helgi Hjörvar) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er full ástæða til að lýsa þeim áhyggjum sem hv. þingmaður hefur. Það eru miklar viðsjár í efnahagsmálum heimsins og víða grípa menn til viðbúnaðar í þeim efnum. Sannarlega getur það farið svo að sá viðbúnaður reynist ekki nægur og það hafi í för með sér kostnað fyrir aðildarþjóðirnar hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Þá um leið verður aðildin að sjóðnum og kvótinn þar inni þeim mun mikilvægari fyrir Ísland vegna þess að hann er þá um leið sú neyðaraðstoð sem við getum reitt okkur á ef alger kreppa verður á útflutningsmörkuðum okkar eins og við gátum reitt okkur á samstarf við sjóðinn þegar við urðum fyrir okkar mikla áfalli 2008 og unnum okkur farsællega í samvinnu við hann út úr verstu kreppunni og komum öllum meginatriðum efnahagslífsins á fót á ný.

Ég deili auðvitað einfaldlega þeim áhyggjum af ástandinu í heiminum sem hv. þingmaður hefur en tel að þetta sé af Íslands hálfu hluti af þeim viðbúnaði að eiga aðild að Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og innhlaup þar ef fárviðri geisa aftur á mörkuðum heimsins eins og gerðist 2008.