140. löggjafarþing — 38. fundur,  16. des. 2011.

hækkun á kvóta Íslands hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

304. mál
[11:27]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég saknaði svars við þeirri spurningu hvort þetta væri ábyrgð eða innstæða. Ef við gefum okkur í versta tilfelli að Ítalía lendi í vandræðum og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn grípi undir þar, líka Portúgal og Spánn, og svo byrjar þetta að fara víðar um heim og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn þrýtur að peningum, á ekki lengur peninga til að styrkja. Hvað verður þá um inneign okkar? Segjum að við lendum ekki í vandræðum. Þetta eru gífurlegir fjármunir, 51 milljarður, í SDR reyndar, sem við erum að fjalla um. Þetta svarar til þess að nýtt framlag nemi 37,2 milljörðum íslenskra króna og við erum að tala um að skera niður líknardeild fyrir 50 milljónir, það er ekki einu sinni skekkjan í þessu.

Ég vildi gjarnan að menn ynnu þetta pínulítið betur hjá hv. efnahags- og viðskiptanefnd en ekki á þessari hraðferð. Einungis örfáir hafa verið kallaðir til og ég endurtek spurningu mína: Er þetta inneign og hvað verður um þá inneign, sem er geymd meira að segja á Íslandi, ef sjóðurinn fer á hausinn? Eða getur Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn ekki farið á hausinn? Og hvað gerist ef hann þarf sífellt meiri og meiri peninga? Þetta eru spurningar sem mér finnst að þurfi að svara í þessu máli.