140. löggjafarþing — 38. fundur,  16. des. 2011.

hækkun á kvóta Íslands hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

304. mál
[11:32]
Horfa

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Eins og fram kom í þessari stuttu framsögu hv. þingmanns og formanns efnahags- og viðskiptanefndar Helga Hjörvar er hér um mjög stórt mál að ræða. Við höfum ekki rætt það mikið í hv. efnahags- og viðskiptanefnd og málið er mjög seint fram komið. Það er mjög skiljanlegt að góður vilji sé í samskiptum Íslands og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins af þeirri einföldu ástæðu að ég held að samskiptin á milli Íslands og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hafi í það heila verið góð. Ef ég man rétt höfum við fjórum sinnum tekið lán hjá sjóðnum, fyrst í tíð fyrri viðreisnarstjórnarinnar, í kringum árið 1960. Síðan má segja að Ísland hafi verið fyrsta ríkið sem hóf samstarf við sjóðinn í tengslum við bankakreppuna sem varir enn en við Íslendingar urðum kannski fyrstir fyrir fyrir nokkrum árum.

Þá þóttu það, virðulegi forseti, vera nokkur tíðindi að hefja samstarf við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og mörgum þótti ekki góður bragur á því og jafnvel ekki skynsamlegt. Síðan ríkisstjórn Geirs H. Haardes tók þá ákvörðun, með stuðningi mikils meiri hluta hv. þingmanna, hafa fjölmörg ríki hafið samstarf við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og fengið lán hjá honum þannig að allt tal um að það ætti ekki við að vestræn ríki væru í samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn virkar svolítið sérstakt í ljósi nýlegrar sögu.

Við skulum átta okkur á því, virðulegi forseti, að ástæðan fyrir því að menn eru að fara í þá vegferð að auka kvótann hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum eins og það heitir, og er ekkert annað en að menn eru að sækja meiri fjármuni til aðildarríkjanna fyrir sjóðinn, eru válynd tíðindi af fjármálamörkuðum. Það eru mjög miklar líkur á því að enn fleiri ríki þurfi á aðstoð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins að halda. Það á ekki síst við þau lönd sem eru næst okkur og vinaþjóðir okkar í Evrópu, þvert á það sem menn töldu, því við skulum ekki gleyma því að þegar bankahrunið reið yfir Ísland var talið sjálfgefið í mörgum löndum að það sem var að gerast á Íslandi mundi ekki gerast þar. Mig rekur minni til þess að til dæmis vinir okkar Danir hafi vandað um við okkur og sagt að við hefðum verið óskaplega óskynsöm að hlusta ekki á ráðgjafa frá Danske Bank sem kom hingað og hafði uppi ýmis varnaðarorð um íslenskt bankakerfi. Ég held að það sé rétt að við hefðum betur hlustað eftir þeim röddum en mér finnst hins vegar nokkuð áhugavert að þrátt fyrir að Danir gætu auðveldlega séð hvað var á ferðinni á Íslandi þá áttu þeir ekki jafnauðvelt með að átta sig á hvað væri á ferðinni hjá þeim sjálfum. Þar hafa margir bankar fallið og sér ekki fyrir endann á því. Ég sá fregnir af því fyrir nokkrum dögum að líkur væru á því að algert bankahrun yrði í Danmörku en við skulum vona að sú verði ekki raunin hjá vinaþjóð okkar Dönum eða öðrum þjóðum.

Allt þetta tengist því sem við ræðum hér í dag, hækkun á kvóta Íslands hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, því við getum ekki rætt það öðruvísi en í heildarsamhengi. Þetta er ekki innanlandsmál í þeim skilningi að það snúi bara að því sem er að gerast á Íslandi, það tengist fyrst og fremst því ástandi sem uppi er á alþjóðlegum mörkuðum og í efnahagslífi heimsins. Því er ekki úr vegi, virðulegi forseti, að fara aðeins yfir stöðuna, skoða hvað hefur gerst og hvað sé líklegt að gerist.

Evrusamstarfið, sú tilraun á tíu ára afmæli í janúar á næsta ári. Miklar vonir voru bundnar við myntbandalagið og menn hafa alveg fram á síðustu missiri talað um að það hafi verið mikil velgengnissaga. En í því samstarfi hafa orðið miklir brestir. Á síðustu missirum og sérstaklega síðustu mánuðum hefur farið fram gríðarleg varnarbarátta vegna þeirrar stöðu sem uppi er í Evrópusambandinu. Því miður, virðulegi forseti, er mín tilfinning sú að varnarbaráttan hafi í raun ekki gengið út á að reyna að finna hagstæðustu leiðirnar fyrir ríki evrusvæðisins, í það minnsta ekki eingöngu, heldur að halda andlitinu fyrir þá stjórnmálamenn og embættismenn sem lögðu hvað mest upp úr evrusamstarfinu á sínum tíma.

Ég ræði þetta hér, virðulegi forseti, vegna þess að ástandið í Evrópu og öðrum heimshlutum þar sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn nær til tengist þessu máli hér órjúfanlegum böndum og er ástæðan fyrir því að það er fram komið. Haldnir hafa verið neyðarfundir eftir neyðarfundi í ráðherraráði Evrópusambandsins og í framkvæmdastjórn og ég held að neyðarfundirnir, þetta eru ekki venjulegir fundir, séu orðnir 20 talsins. Í einföldustu mynd er niðurstaðan af þeim sú að menn eru fyrst og fremst að leysa skuldavandann með auknum skuldum. Þar hafa Bandaríkin margoft, síðast fyrir nokkrum dögum, hlaupið undir bagga og hjálpað Evrópusambandinu með því að halda áfram opnum lánalínum. Þetta hafa Bandaríkjamenn auðvitað gert í gegnum tíðina, þ.e. aðstoðað Evrópu. Þeir gerðu það bæði í fyrri og seinni heimsstyrjöldinni við að berjast gegn einræðisöflum. Í raun björguðu Bandaríkjamenn líka Evrópu úr öðru stríði sem var Kosovo-stríðið á sínum tíma því að þrátt fyrir að það væri evrópskt stríð, því að þar voru svo sannarlega forustumenn í stóru ríkjunum í Evrópu í forsvari, þá voru það Bandaríkjamenn, þegar kom að því að fylgja eftir hótunum Evrópuríkja gagnvart Serbíu, sem framkvæmdu og fjármögnuðu það. Fyrst og fremst var um að ræða lofthernað og ef ég man rétt fóru bandarískar herflugvélar í 98% af þeim ferðum þar sem sprengjum var varpað á Serbíu.

Bankahrunið í kjölfar falls Lehman Brothers reið yfir hjá fleiri þjóðum en Íslendingum, öðrum Evrópuríkjum ekki síður. En hins vegar fjármögnuðu bandaríski seðlabankinn sem og evrópski seðlabankinn ýmsa aðra seðlabanka og þar var bjargað, í það minnsta um einhvern tíma, mörgum evrópskum bönkum. Við vorum svo lánsöm að við hefðum örugglega ekki fengið slíka fyrirgreiðslu þótt við hefðum farið fram á það. Það var mikið lán því það var miklu betra að taka þennan skell strax. Þetta var orðin mikil bóla, og þó að það hafi ekki verið gott að hún hafi sprungið var það þó skárra en hitt. Ég hef miklar áhyggjur af því að nú séu bankabólur víðs vegar í álfunni sem eigi eftir að springa og þó hafa nú margar sprungið. Við höfum séð að bjargað hefur verið risastórum bönkum eins og Fortis bankanum sem nær yfir landamæri Hollands, Belgíu og Lúxemborgar ef ég man rétt, og Dexia bankanum. Kannski síðastnefndi bankinn sýni hvað þetta er gríðarlega alvarlegt, því að hann hafði staðist strangara álagspróf en áður hafði tíðkast nokkrum vikum fyrir sitt eigið fall nú á haustmánuðum. Það eru þrjú ár síðan bankahrunið varð haustið 2008 og menn hafa rætt þetta og farið yfir þessi mál á vettvangi Evrópusambandsins og á fleiri stöðum og lagt fram ýmsar nýjar reglur, m.a. um þetta stranga álagspróf. En þrátt fyrir að hafa staðist álagsprófið féll bankinn nokkrum vikum seinna og belgískir skattgreiðendur þurftu að reiða fram gríðarlegar ábyrgðir og fjárhæðir til að bjarga honum, miklu hærri fjárhæðir en gengur og gerist. (Gripið fram í.) Hv. þingmaður kallar að þetta hafi verið einn fjórði af Icesave-skuldbindingunum sem Íslendingum var ætlað að taka, hvorki meira né minna. Nú er ekki eins og það séu litlar opinberar skuldir í Belgíu, eins og við vitum hafa Belgar verið um langa tíð ein skuldugasta þjóð Evrópu. Uppbygging þeirrar þjóðar er um margt sérstök og hefur kannski ekki einkenni hefðbundins þjóðríkis, en það er annað mál.

Þetta hefur allt saman legið fyrir, virðulegi forseti. Þegar ég skoðaði þetta mál fór ég að hugsa hvort ekki hefði verið annar valkostur en að vinna þetta svona. Það vekur athygli mína að fram kemur í fylgiskjölum með frumvarpinu minnisblað um verklag við samþykki og greiðslu á kvótaaukningum samkvæmt fjórtándu almennu endurskoðun á kvótaúthlutun. Það er undirbúið af fjármáladeild og samþykkt af Thomas Krueger 11. mars 2011. Þar segir, með leyfi forseta:

„Þetta minnisblað inniheldur yfirlit yfir það verklag sem aðildarríki skulu fylgja við það að samþykkja aukningar á eigin kvóta samkvæmt 14. almennu endurskoðun á kvótaúthlutun og við greiðslur í tengslum við kvótaaukningar í samræmi við ákvæði samþykktar nr. 66-2.“

Virðulegi forseti. Ég veit ekki hvar hv. þm. og formaður efnahags- og viðskiptanefndar er en ég hefði viljað að hv. þingmaður væri viðstaddur umræðuna.

(Forseti (KLM): Forseti vill geta þess að þessari ósk er komið á framfæri.)

Virðulegi forseti. Við ræddum þetta á miklum hlaupum í hv. efnahags- og viðskiptanefnd á sama tíma og við vorum að ræða mörg önnur mjög stór mál og ef við náum ekki að fara almennilega yfir mál í nefndum þá þurfum við, eðli máls samkvæmt, að skiptast á skoðunum og fá upplýsingar í þingsalnum. Ég held að það væri fullkomlega óábyrgt af okkur að fara ekki vel yfir þetta. Ég skil þann þátt máls mjög vel að við viljum gera hvað við getum til að vera virkir aðilar í samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Annað væri óeðlilegt þar sem við höfum áður fengið fyrirgreiðslu hjá þeim, fyrst árið 1960, síðan 1967 og 1968, aftur 1974 og 1975 og síðan 1982. Síðan höfum við ekki þurft á því að halda, frekar en aðrar vestrænar þjóðir, þar til að bankahruninu kom. Ég skil að menn vilji taka virkan þátt í þessu samstarfi en ég skil ekki hvers vegna þetta mál er svona seint komið fram. Ég mundi vilja að formaður hv. efnahags- og viðskiptanefndar upplýsti hv. þingmenn um það. Miðað við þau gögn sem fylgja frumvarpinu verður ekki annað séð en að minnisblað frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum hafi verið samþykkt 11. mars 2011 um hvernig ætti að vinna þessi mál af hálfu aðildarríkjanna.

Virðulegi forseti. Það er mjög æskilegt að góð samstaða sé um þetta mál í þinginu og ég held að í grunninn sé ekki um að ræða pólitískar deilur um aðildina að Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. En það veldur mér áhyggjum um hve stórar fjárhæðir er að ræða Við fengum gesti sem fóru yfir þann þátt málsins en ég held að það væri ofsögum sagt að við hefðum eytt drjúgum tíma í þetta. Ég held því að eðlilegt væri að hv. fjárlaganefnd mundi fara yfir þennan þátt og við mundum meta áhættuna af að samþykkja þetta því hér er um milljarðatugi að ræða. Menn geta sagt að litlar líkur séu á því að við töpum þessum milljarðatugum, að hluta eða í heild sinni, en þetta eru samt milljarðatugir. Eitt af því sem ég held að við verðum að tileinka okkur og hefðum betur tileinkað okkur fyrr, er að meta áhættuna við þær ákvarðanir sem við tökum. Það þarf ekki að útskýra það fyrir Íslendingum og raunar ekki vestrænum þjóðum almennt að ákvarðanir sem stjórnmálamenn taka, oft og tíðum ákvarðanir um mjög miklar ábyrgðir í kjölfar tiltölulega lítillar umræðu og án ítarlegrar athugunar, geta og hafa valdið gríðarlegum skaða. Ég held að innstæðutryggingakerfið sé kannski eitt besta dæmið um það.

Ég held að ef hv. þingmenn fletta því upp um hvað menn voru að tala á hv. Alþingi þegar tilskipun Evrópusambandsins varðandi innstæðutryggingar var innleidd á sínum tíma, geti enginn komist að þeirri niðurstöðu að menn hafi metið áhættuna við þá ákvörðun sérstaklega. Þvert á móti komu hér upp þingmenn, nánar tiltekið hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir og hv. þm. Ögmundur Jónasson, og lögðu til, virðulegi forseti, að við mundum ekki binda okkur við 20 þús. evrur heldur mundum við ábyrgjast allar innstæður á bankareikningum. Þetta lögðu hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir og hv. þm. Ögmundur Jónasson til. (Gripið fram í: 2 þús. milljarðar.) 2 þús. milljarðar. Eftir því sem ég best veit greiddu allir hv. þingmenn Samfylkingarinnar og Vinstri grænna atkvæði með þessu. Allir greiddu atkvæði með ótakmarkaðri ábyrgð á reikningum. Hver væri staða íslenskrar þjóðar ef menn hefðu samþykkt þetta á sínum tíma?

Virðulegi forseti. Það er auðvitað áhugavert að skoða þetta vegna þess að Íslendingar urðu mjög hressilega fyrir barðinu á þessari gölluðu tilskipun og við erum enn í málaferlum út af því. Ég man ekki eftir að nokkur þingmaður á þeim tíma hafi haft uppi nein varnaðarorð, ekki nokkur, eða nokkur hafi velt því fyrir sér hvaða afleiðingar þetta gæti haft í för með sér. Af hverju legg ég áherslu á þetta? Vegna þess að núna erum við að afgreiða ábyrgð, framlag upp á rúmlega 50 milljarða ef ég man rétt. Ég held að afskaplega skynsamlegt væri fyrir okkur að vera eins viss og við getum verið um hvað það þýðir. Ég teldi æskilegt að fá að vita af hverju við fáum þetta stóra mál hingað á allra síðustu dögunum, nóg er af stórum málum á þessum tímapunkti. Ég held líka að það væri mjög æskilegt að hv. fjárlaganefnd mundi fara yfir málið og ég fer sömuleiðis fram á það við hv. formann efnahags- og viðskiptanefndar að hann kanni hvort einhver flötur sé á því að við getum afgreitt þetta í janúar. Ég held að skynsamlegt væri að gefa okkur góðan tíma til að fara yfir málið. Nú segi ég þetta ekki til að reyna að koma í veg fyrir að það fari í gegn. Ég hef enn ekki mótað mér skoðun á því hvort þetta er það sem við eigum að gera. Ég hef hins vegar þá skoðun að við eigum að reyna að hafa samskiptin við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn eins og góð og mögulegt er.

Ég get vel skilið að hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum sé mikill vilji til að búa sig undir frekari áföll. Ég vona að þau verði ekki en horfurnar eru ekki góðar, þá er ég sérstaklega að vísa til Evrópusambandsins og í raun Bandaríkjanna líka. Bandaríkjamenn hafa safnað gríðarlegum skuldum á undanförnum áratugum og skuldasöfnun þeirra hefur því miður á síðustu árum ekki minnkað, heldur þvert á móti. Við erum að tala um gríðarlega háar fjárhæðir, jafnvel þó að Bandaríkjamenn séu öflug þjóð. Munurinn á Bandaríkjunum og Evrópusambandinu er kannski sá, í það minnsta munurinn á þeim og gömlu Evrópu, að þar er mannfjöldaþróun með öðrum hætti. Bandaríkin eru yngri þjóð og flestir telja að þau ættu auðveldara með að koma sér út úr þessum vanda á næstu áratugum en gamla Evrópa. Það er bara einn galli við skuldir og hann er sá að það þarf að greiða þær. Ef ekki væri fyrir þann galla væri allt í fína lagi með skuldir. Almenna reglan er sú að greiða þarf skuldir og þegar um þjóðir er að ræða þarf annaðhvort sú kynslóð sem er til staðar að greiða þær og/eða hún getur sent skuldirnar til barnanna sinna og jafnvel barnabarna sinna.

Nú er mikil skuldakreppa í heiminum og þau lönd sem við berum okkur hvað helst saman við eru almennt séð skuldug. Það er meira að segja þannig að þessi öflugu ríki sem menn horfa nú mjög til bæði til að veita forustu og sem bakhjarls, eins og Þýskaland og Bandaríkin, eru mjög skuldug. Þýskaland skuldar auðvitað ekkert á borð við skuldsettustu ríkin en það kemur á óvart hvað þjóðin er skuldug vegna þess að menn hafa horft sérstaklega til Þýskalands því að þar hefur gengið vel í efnahagsmálum og þjóðin hefur almennt sýnt ráðdeild og sparsemi. Að vísu hangir þetta nokkuð saman að vaxtastig evrunnar tekur mið af hagsmunum Þýskalands en ekki annarra ríkja. Það var til dæmis mjög erfitt fyrir ríki eins og Írland og Spán sem voru með mikinn hagvöxt og mikla þenslu í efnahagslífinu þegar vextir voru mjög lágir á evrusvæðinu. Ástæðan fyrir því var einfaldlega sú að Þjóðverjar voru að borga upp skuldsetninguna vegna sameiningar Austur- og Vestur-Þýskalands. Allt var mjög hægt í Þýskalandi og í ofanálag var vinnumarkaðurinn mjög óþjáll og stífur og það þurfti að losa um alla þessa hluti. Á sama tíma varð stöðnun í Þýskalandi og vaxtastig evrunnar tók mið af hagsmunum Þjóðverja. Þess vegna er það ein röksemdafærslan sem Evrópuríkin nota núna þegar þau vilja fá Þjóðverja til að taka þátt í því að taka ábyrgð á skuldum annarra ríkja vegna þess að þau geta ekki skuldsett sig meira, ég er þar að vísa til Grikklands, Spánar, Írlands, jafnvel Ítalíu og Belgíu og fleiri ríkja, að Þjóðverjar hafi hagnast svo mikið á evrusamstarfinu meðan þessi ríki hafi jafnvel tapað á því að nú sé komið að siðferðilegum skuldadögum hjá Þýskalandi og þeir verði að taka þátt í þessu.

Virðulegi forseti. Ég held að óhjákvæmilegt sé að við förum vel yfir þetta mál. Eins og ég skil þetta erum við með ákveðinn hluta, 9,2 milljarða, og eins og útskýrt var fyrir nefndinni — hv. formaður efnahags- og viðskiptanefndir leiðréttir mig ef þetta er röng túlkun því ég vil ekki fara rangt með hér frekar en annars staðar — er í raun verið er að auka kvóta hjá öllum ríkjum innan Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Okkar framlag er rúmlega 50 milljarðar og aukningin fer fram með tvennum hætti. Annars vegar erum við með ákveðna fjármuni á gjaldeyrisreikningi í erlendum bönkum sem við færum í raun inn á reikning Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Það verður áfram í bókhaldi sem gjaldeyrisvaraforði. Hins vegar fáum við ekki mjög góða vexti á þeim reikningi og greiðum þá væntanlega vaxtamuninn því að gjaldeyrisvaraforði okkar er að langstærstum hlut tekinn að láni. Ef ég man rétt eru vextir af lánum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem við tökum 5,5%. Ef ég man rétt eru þessar innstæður á um 1% vöxtum og í ofanálag getur Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn dregið á þetta hvenær sem er. Kostnaðurinn við þennan gjörning er því tvenns konar, annars vegar er það vaxtamunurinn sem við greiðum og auðvitað áhættan á því að þessir fjármunir geti tapast. Í ofanálag hefur Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn aðgang að 28 milljörðum frá Seðlabankanum og getur dregið á. Þetta eru þá um 37,2 milljarðar kr.

Ef til þess kæmi að dregið yrði á þessa fjármuni í Seðlabankanum, og það er alls ekki ólíklegt, er mikilvægt fyrir okkur að vita hvaða afleiðingar það hefur. Væntanlega eru teknar út íslenskar krónur sem þarf þá að skipta í erlenda gjaldmiðla sem við eigum ekki sérstaklega mikið af og 28 milljarðar kr. er ekki lág fjárhæð. Við höfum ekki haft tækifæri til að fara yfir þennan þátt málsins en þetta er stóri þátturinn, hvaða afleiðingar það hefur ef dregið verður á þessi lán. Síðan getur auðvitað kostnaðurinn við vaxtamun orðið verulegur því þetta eru svo stórar fjárhæðir. Í þriðja lagi snýst þetta um líkurnar á því að við gætum tapað þessum fjármunum vegna þess, nema eitthvað hafi gerst í morgun sem ég tók ekki eftir og ég fylgdist með fréttum í morgun, að veður eru válynd á erlendum mörkuðum og í efnahagsmálum erlendra ríkja.