140. löggjafarþing — 38. fundur,  16. des. 2011.

hækkun á kvóta Íslands hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

304. mál
[12:04]
Horfa

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég var heilbrigðisráðherra í þessari ríkisstjórn sem hér er vísað til, ríkisstjórn Geirs H. Haardes. Þrátt fyrir að bankakerfið hafi verið orðið nokkuð sjúkt kom það aldrei inn á borð heilbrigðisráðherrans.

Ég veit ekki hvort Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn kom eitthvað sérstaklega að því, ég var ekki í samskiptum við hann, en röksemdin fyrir því að tryggja innstæður var einfaldlega sú að halda bankakerfinu gangandi á þessum krítíska tímapunkti. Sem betur fer tókum við réttar ákvarðanir. Menn geta sagt eftir á að það hefði verið hægt að gera ýmislegt öðruvísi en þá var bara ekki sjálfgefið að bankakerfið héldi áfram, það var ekkert sjálfgefið að kreditkortin héldu áfram o.s.frv. Menn geta ímyndað sér hvaða staða hefði verið uppi í íslensku þjóðfélagi ef það hefði ekki gerst. Það hefði örugglega komið hér ofsahræðsla og fullkomin paník.

Þegar menn tala um að tryggja innstæður og það hjá lögaðilum skulum við ekki gleyma því að þessir lögaðilar voru meðal annars, kannski að stærstum hluta, að greiða út laun og annað slíkt. Ef menn hefðu haft áhyggjur af að það virkaði ekki er ansi hætt við að gert hefði verið stórt áhlaup á bankakerfið.

Síðan held ég að endurreisn bankakerfisins sé dýrasti þáttur Icesave-málsins vegna þess að á sama tíma og við vorum hér að ræða Icesave og reyna að koma því frá rann það mál einhvern veginn í gegnum þingið án mikillar umræðu.

Eitt af því sem ég á erfitt með að skilja, sérstaklega þegar við skoðum það hversu miklar kröfur eru gerðar til eigenda banka, er af hverju Fjármálaeftirlitið leyfði að (Forseti hringir.) vogunarsjóðir gætu verið eigendur að bönkum. Það samræmist engan veginn þeim prinsippum sem gilda þegar kemur að eigendum banka, en að því kom ég ekki.