140. löggjafarþing — 38. fundur,  16. des. 2011.

hækkun á kvóta Íslands hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

304. mál
[12:10]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Helgi Hjörvar) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir hans ágætu ræðu og vil bregðast strax við nokkrum þeirra atriða sem þingmaðurinn spurði um.

Hvers vegna kemur málið svona seint fram eftir að hafa verið samþykkt í sjóðnum í mars? Þá er fyrst til þess að líta að málinu var dreift í þinginu 21. nóvember sl. en það átti sér nokkurn aðdraganda. Á sumarþinginu var til umfjöllunar undanfari þessa máls þannig að við fjölluðum um þessar breytingar í sjóðnum á síðasta þingi líka. Þar voru til umfjöllunar breytingar á stofnskrá Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem eru síðan hluti af þessari aukningu. Þannig hafði málið þegar í prinsippinu komið til umfjöllunar hér í vor.

Þurfum við að afgreiða málið fyrir áramót? Það er sá tímarammi sem unnið hefur verið eftir og ég held að það sé mikilvægt að við sýnum í okkar alþjóðlega samstarfi að við vinnum innan þeirra tímamarka sem sett eru, það er hluti af því að byggja upp traust og trúverðugleika á Íslandi á ný. Ég held hins vegar að við eigum að taka okkur góðan tíma í að ræða málið og ég fagna því hversu langt við erum komin í þinghaldinu svona löngu fyrir jól. Við erum alveg í góðum færum til að ræða málið ítarlega við 2. umr. og þó að það þyrfti að taka einhverja daga í það held ég að sú umræða sé alveg þess virði. Það eru miklar viðsjár á alþjóðamörkuðum og margt sem hér er ástæða til að staldra við og íhuga.