140. löggjafarþing — 38. fundur,  16. des. 2011.

hækkun á kvóta Íslands hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

304. mál
[12:15]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Helgi Hjörvar) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Spurt er: Er hundrað í hættunni? Ja, það hundrað sem er í hættunni er fyrst og fremst að auka þá möguleika sem við höfum til að nýta sjóðinn sem þann bakhjarl sem hann hefur verið okkur. Það er í sjálfu sér ekkert sem við getum sagt á þessari stundu að skipti ekki máli með að bíða með fram í febrúar. Það er eðli mikils vanda á mörkuðum að þar getur dregið mjög hratt til tíðinda og línur sem manni stóðu opnar í gær geta lokast fyrirvaralaust. Ef ríkar ástæður eru hins vegar til að draga málið fram í febrúar hygg ég að það væri unnt.

Hvað varðar spurninguna um fjárlaganefnd hef ég svona almennt haft það viðhorf að ég stýri efnahags- og viðskiptanefnd og þeim störfum sem þar fara fram og hef ekki skoðun á því hvernig aðrir stýra öðrum nefndum. Ef um það kemur ósk frá fjárlaganefnd að hún fái tækifæri til að fara yfir málið er ekki nema sjálfsagt að verða við því enda væru fyrir því fullar málefnalegar ástæður þar sem fjárlaganefnd fer auðvitað með ríkisfjármálin, ekki síst skuldbindingar ríkissjóðs, og eðlilegt að hún sé vel inni í málinu. Hún hefur fylgst með og tekið þátt í umfjölluninni um breytingarnar á stofnskránni á vorþinginu og síðan séð þetta mál þegar það kom inn í nóvember og fylgst með þeirri umræðu sem fór fram í síðasta mánuði um málið. Þetta er náttúrlega annar mánuðurinn sem við ræðum það í þinginu.