140. löggjafarþing — 38. fundur,  16. des. 2011.

hækkun á kvóta Íslands hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

304. mál
[12:17]
Horfa

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt að hv. þm. Helgi Hjörvar er bara formaður hv. efnahags- og viðskiptanefndar þannig að hann stýrir ekki fleiri nefndum. Eins og hann nefndi, og er alveg hárrétt og við þurfum að ræða hér vegna þess að við náum kannski ekki að ræða það í nefndinni, snýr þetta að fjárhagslegri áhættu fyrir ríkissjóð, í það minnsta sem varðar 38 milljarða kr. sem ég held að sé aukningin í þessu. Við tökumst á um og förum vel yfir smærri upphæðir en þá sem hér um ræðir þannig að ég held að það sé eðlilegt að hv. fjárlaganefnd fari yfir málið.

Aðalatriðið er að við ræðum þetta vel hér vegna þess að þetta eru stórar upphæðir, það er það eina sem er alveg öruggt. Í langan tíma, í einhverja áratugi, var Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn mun minni en hann er núna og í minni verkefnum og það var almennt ekki talin mjög mikil áhætta hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum þrátt fyrir að hann væri á efnahagslega óstöðugum svæðum. Nú eru breyttar forsendur og ég heyri að við hv. þm. Helgi Hjörvar erum sammála um að hér sé um stórt og alvarlegt mál að ræða og erum sammála um að það sé afskaplega mikilvægt að fara vel yfir það.

Við vitum sem er að þrátt fyrir að málið hafi komið fram í mars erum við ekki komin lengra í að greina það og ræða en raun ber vitni og kemur hér í ljós. Það er ekkert annað fyrir okkur, virðulegi forseti, en að ræða þetta mál vel og gera það sem er best fyrir Ísland.