140. löggjafarþing — 38. fundur,  16. des. 2011.

hækkun á kvóta Íslands hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

304. mál
[12:19]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér heimild til að veita ríkisstjórninni leyfi til að auka framlag okkar til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins úr 117,6 milljónum SDR í 321,8 milljónir SDR. Hér er um nærri þreföldun að ræða og hún stafar ekki síst af erfiðleikum margra evrulanda sem þau sjálf virðast ekki geta tekið á, m.a. vegna sáttmála Evrópusambandsins sem bannar eða takmarkar getu Evrópska seðlabankans til að skipta sér af peningastefnu aðildarríkjanna. Evrópusambandið hefur gripið til þess ráðs að aðstoða evrulönd í gegnum Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.

Ég er ekki sátt við þessa aðstoð, m.a. vegna þess að skilyrðin fyrir henni eru þau að aðildarlönd myntbandalagsins sem eru í erfiðleikum eru neydd til þess að kljást við afleiðingar vandans en ekki orsök hans. Afleiðingar vandans eru mikil skuldasöfnun ríkissjóðs og skortur á trúverðugleika, en rót vandans fyrir hrun var fyrst og fremst mikill halli á viðskiptajöfnuði og eftir hrun mikil þörf fyrir afgang á viðskiptajöfnuði. Ef ESB-löndin væru að kljást við rót vandans mundu þau beina aðgerðum sínum að því að ýta undir kaup Þjóðverja á vörum frá þessum löndum og jafnframt þrýsta á kröfuhafana, sem margir hverjir eru þýskir bankar, að afskrifa skuldir og lækka vaxtakostnað til að tryggja þann afgang á viðskiptajöfnuði sem er nauðsynlegur til að þessar þjóðir geti aukið hagvöxt og unnið sig út úr kreppunni.

Þetta eru vandamál Evrópusambandsins. Við erum hér að ræða aukið stofnfé Íslands til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, þreföldun á framlagi okkar til sjóðsins, og mér finnst þetta mjög erfiður biti að kyngja, ekki síst í ljósi þess að fjármagnið sem við leggjum inn á innstæðureikning okkar hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum var tekið að láni á 5,5% vöxtum en vextirnir á þessum innstæðureikningi okkar hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum eru ekki nema 0,14% samkvæmt upplýsingum á heimasíðu AGS í morgun. Það er því mikill vaxtamunur, rúmlega 5 prósentustiga munur, sem þjóð í kreppu er að greiða til að geta haldið áhrifum sínum innan Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Það sem við þyrftum að gera er að greiða niður skuldir til að draga úr vaxtakostnaði en ekki taka rándýrt lán hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum til að lána honum aftur á lágum vöxtum.

Herra forseti. Núverandi stjórnarmeirihluti talar mikið um nauðsyn þess að minnka hallann á ríkissjóði til að draga úr vaxtakostnaði en er svo tilbúinn að fara út í slíka aðgerð. Ef geta væri til þess hefði ég frekar viljað sjá okkur greiða niður þessi lán Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem áttu að nema um 40% af vergri landsframleiðslu ef maður tekur líka með þau lán sem komu frá vinaþjóðunum svokölluðu og hafa að mestu leyti verið notuð til að byggja hér upp mjög öflugan gjaldeyrisvarasjóð. Vaxtagreiðslurnar á þessum lánum þegar búið er að greiða þau inn á reikning okkar í seðlabankanum í New York eru á bilinu 17–18 milljarðar á ári, fer dálítið eftir genginu.

Herra forseti. Það er erfitt að samþykkja að veita sömu stofnun og við fengum rándýrt lán hjá lán með mun lægri vöxtum. Mér finnst það óásættanlegt, auk þess er ég ósátt við að styrkja stofnun eins og Alþjóðagjaldeyrissjóðinn þannig að hann geti haldið áfram á þeirri vegferð að lána þjóðum í kreppu með því skilyrði að þær forgangsraði í þágu fjármagns og endurreisi það sem hrundi, oftast á kostnað velferðarkerfisins. Þegar ég tala um að endurreisa það sem hrundi á ég við að endurreisa óbreytt bankakerfi, að vísu eitthvað minna, en bankakerfi sem í okkar tilfelli er í einkaeigu. Það átti einmitt við um bankakerfið sem hrundi, það var algjörlega í eigu einkaaðila, og það var von margra vinstri manna eftir hrun bankakerfisins að við gætum verið með einn ríkisbanka að fullu, ekki bara eignarhald ríkisins upp á 85% eins og tilfellið er með Landsbankann, heldur sem sagt óskiptan ríkisbanka og síðan þá viðskiptabanka í einkaeigu og öflugt sparisjóðakerfi. Það hefur þó ekki orðið í þessari endurreisnaráætlun AGS á íslensku bankakerfi, heldur voru bankarnir að stærstum hluta settir í hendurnar á kröfuhöfum gömlu bankanna að undanskildum Landsbankanum. Það var af öðrum ástæðum en kannski hugmyndafræðilegum að Landsbankanum var haldið að meiri hluta í ríkiseigu. Þar spilaði Icesave-skuldbindingin stórt hlutverk.

Ég vil geta þess, herra forseti, að ég er ekki beint á móti aðstoð sjóðsins þó að ég hafi talað lengi og mikið gegn efnahagsstefnu sjóðsins. Ég geri greinarmun á aðstoð sjóðsins annars vegar og hins vegar lánum sem eru bundin skilyrðum um að þjóðir innleiði ákveðna efnahagsstefnu. Ég er á móti þessari efnahagsstefnu vegna þess að ég tel að hún sé fyrst og fremst hugmyndafræðileg, hún byggir á þeirri hugmyndafræði að bankar séu best komnir í höndum einkaaðila, að mikilvægt sé að tryggja hagsmuni fjármagnseigenda eftir bankahrun og þá oft á kostnað velferðarinnar í þeim löndum sem hafa neyðst til að taka lán hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Auk þess eru þessi lán Alþjóðagjaldeyrissjóðsins afar dýr og ekkert tillit er tekið til þess að verið er að lána þjóðum í kreppu sem eiga afar erfitt með að borga háan vaxtakostnað nema með því að skera niður velferðina. Ég hefði miklu frekar viljað sjá Alþjóðabankann koma inn í fleiri lönd en bara þróunarlöndin og aðstoða þau sem eru í kreppu og viðurkenna þar með að lönd sem hafa orðið fyrir miklu efnahagslegu áfalli þurfa meiri aðstoð en þau sem eiga í tímabundnum lausafjárerfiðleikum.

Auk þess hafa ráðleggingar Alþjóðabankans oft verið mun betri, sérstaklega hvað varðar gjaldmiðla landa sem lent hafa í bankahruni. Alþjóðabankinn varð fyrstur til þess að innleiða gjaldeyrishöft, gerði það í Suðaustur-Asíulöndum, í Indónesíu þar sem gengið hrundi álíka mikið og íslenska krónan, um 80%. Í stað þess að setja bara boð og bönn sem takmörkuðu útstreymi fjármagns innleiddi Alþjóðabankinn strax útgönguleið fyrir þá sem voru lokaðir inni með mikið fjármagn eða þá sem við köllum aflandskrónueigendur. Útgönguleiðin fólst í því að gefa eigendum þess fjármagns sem vildi fara út loforð um að þeir gætu farið út eftir fimm ár með að mig minnir 30% afföllum ef þeir fjárfestu í atvinnulífinu í Indónesíu, ef þeir færu eftir tíu ár færu þessi afföll niður í 10% af upphæðinni.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn var mjög seinn til að aðstoða Seðlabanka Íslands við að koma upp slíkri fjárfestingarleið fyrir þá sem eiga aflandskrónur hér á landi. Ég bara skil ekki hvernig á því stendur að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn ráðleggur íslenskum stjórnvöldum að koma hér upp gjaldeyrishöftum án þess að vinna í raunhæfri útgönguleið út úr þessum gjaldeyrishöftum og láta okkur sitja hér uppi með gjaldeyrishöft sem þingið hefur þurft að herða ár eftir ár án þess að komin væri í gang einhver útgönguleið.

Eins og ég sagði fyrr, herra forseti, hef ég ekkert á móti aðstoð sjóðsins þegar hún felur fyrst og fremst í sér að koma inn í lönd sem hafa orðið fyrir bankahruni og meta þær skuldir og skuldbindingar sem hafa fallið á ekki síst ríkissjóð við bankahrunið. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur yfir að ráða mjög færum sérfræðingum á þessu sviði og þess vegna hef ég ekkert á móti því að Ísland sé aðildarland að sjóðnum og greiði fyrir því að hægt verði að veita þessa aðstoð löndum sem eru í kreppu. Ég tel að nú sé nóg komið og er á móti því að við aukum þetta stofnframlag að þessu sinni. Ástæðan er tvíþætt, annars vegar þessi mikli vaxtamunur sem við erum að greiða með þessu aukna stofnframlagi okkar. Við erum land í kreppu, við erum ekki með 9 milljarða sem við getum einfaldlega tekið einhvers staðar og sett inn á innstæðureikning okkar hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, við þurfum að taka lán til að geta aukið þetta stofnframlag og það lán tökum við með mjög háum vöxtum. Síðan tel ég að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn þurfi að endurskoða efnahagsáætlun sína, ekki síst hvað varðar áherslu á að standa vörð um fjármagnseigendur á kostnað velferðarinnar.

Þess vegna segi ég nei við þessari heimild, herra forseti.