140. löggjafarþing — 38. fundur,  16. des. 2011.

hækkun á kvóta Íslands hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

304. mál
[12:39]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Hér er enn eitt málið á ferðinni sem vekur mann til umhugsunar um það hvernig ríkisstjórn Íslands vinnur. Hér er verið að óska eftir heimild til að fjármálaráðherra Íslands fái heimild til að semja við AGS um auknar heimildir til lántöku. Það hefði komið mörgum á óvart ef sá hinn sami hæstv. fjármálaráðherra hefði kynnt það þegar verið var að ræða aðkomu AGS haustið 2008, þegar sá ágæti þingmaður kom fram fyrir hönd Vinstri grænna, að hann ætti tiltölulega skömmu síðar eftir að óska eftir heimild Alþingis til að auka við lántökuheimildir ríkisins hjá hinum sama sjóði sem hann fordæmdi í ræðum sínum hér fyrir rúmum þremur árum.

Það verður hins vegar að segjast um þetta mál hér að það er dálítið illt að skilja það í ljósi þeirra upplýsinga sem fyrir liggja um gjaldeyrisstöðu Íslands. Gjaldeyrisforði Seðlabankans mun vera einhvers staðar nálægt andvirði 1 þús. milljarða kr. og hann er allur að láni, allur í skuld. Eftir því sem ég best veit er gjaldeyrisstaða landsins neikvæð um einhverja tugi milljarða. Engu að síður fer hæstv. ríkisstjórn hér fram á heimildir til að semja um hækkun á kvóta landsins til að taka aukin lán hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum upp á 37 milljarða kr. Umhugsunarefnið í þessu er að það er vitað að við eigum ekki gjaldeyri að andvirði þessa og þá er uppsetningin þannig að 9,3 milljarðar eiga strax að greiðast í gjaldeyri við fullnustu þessa máls og síðan mun Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn eignast, eins og sagt er hér í greinargerðinni frá fjárlagaskrifstofunni, kröfu á innstæðu í Seðlabankanum sem nemur því sem upp á vantar, þ.e. um 28 milljarða í íslenskum krónum.

Í greinargerð og umsögn fjárlagaskrifstofunnar í fjármálaráðuneytinu er sagt að þessi hluti, tæpir 28 milljarðar kr., verði ekki inntur af hendi. Það má örugglega hafa um það ýmis orð. Þetta fer á reikning sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn á hjá Seðlabankanum og getur þá væntanlega gengið að hvenær sem honum hugnast eða hvenær sem hann þarf á að halda og þá þannig að hann breytir þessum krónum í gjaldeyri — sem er ekki til — sem þýðir að við þurfum þá að skuldsetja okkur meira til að geta reitt féð fram.

Það sem ég geri athugasemdir við í þessum efnum er að hér er óskað eftir þessari umræddu heimild til að hækka möguleika á lántöku landsins hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum um 37 milljarða kr. sem eru ekki til. Með öðrum orðum fáum við hér beiðni frá ríkisstjórn Íslands um að Ísland leggi inn í Alþjóðagjaldeyrissjóðinn stofnfé eða kvótafé að upphæð 37 milljarðar til að eiga síðan einhvern tímann síðar möguleika á því að fá þá sömu fjármuni að láni. Þetta er í mínum huga algjörlega galið þegar við höfum ekki efni á að reiða þetta fram af eigin fé.

Eins og kemur fram í frumvarpinu sem er til meðferðar hjá efnahags- og viðskiptanefnd er réttlætingin fyrir þessu í því fólgin að Ísland hafi hag af því að taka þátt í þessari kvótahækkun af tveimur ástæðum. Í fyrsta lagi eigi aðildarríkin möguleika á því að geta tekið hagstæð lán út úr sjóðnum og í öðru lagi ráðist atkvæðavægi einstakra ríkja í stjórn sjóðsins af kvóta þeirra í sjóðum. Kvótahækkunin sem send er til allra aðildarríkja Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er háð því og hún tekur ekki gildi fyrr en 70% aðildarríkjanna, sem ráða yfir 70% af kvótanum, hafa samþykkt hana.

Í ljósi þess hvernig þetta er orðað skyldi maður ætla að vægi Íslands í þeirri atkvæðagreiðslu væri gríðarlega mikið, en hvað á Ísland stóran hlut af þeim 70% sem þarf til að þetta taki gildi? Þegar maður fer að rýna í skjalið kemur í ljós að hlutdeildin er 0,055%. Vægi okkar þarna inni er ekkert hrikalega mikið. Sömuleiðis verðum við þá að hafa í huga að þetta er vægi Íslands í ákvarðanatöku sjóðsins ef á það reynir. Vægi okkar verður 0,055%, við náum ekki einu sinni hálfu prósenti í vigt þarna inni. Ég sé þetta ekki sem gilda röksemd fyrir því að við þurfum endilega að gera þetta svo Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn geti haldið áfram störfum. Í mínum huga liggur nokkuð ljóst fyrir að vægi landsins í endanlegri ákvarðanatöku verður gríðarlega lítið og skiptir ekki neinu meginmáli frekar en svo víða annars staðar í alþjóðlegum samtökum eða bandalögum. Stóru ríkin ráða ákvörðunum í málum sem þessum, hvort heldur við erum að tala um staðfestingu á því tilboði sem liggur fyrir hér eða atkvæðagreiðslur í sjóðnum.

Mér finnst þetta bera að með mjög sérstökum hætti, ég get ekki neitað því. Það sem ég vil líka segja er að þó að ekki yrði samþykkt að verða við þessari ósk, eða taka þessu tilboði eins og sumir kalla það, höfum við áfram möguleika á því að taka lán hjá sjóðnum, u.þ.b. 20 milljarða, 117 milljónir SDR. Eins og málinu er stillt upp erum við að auka möguleika Íslands á því að taka andvirði 37 milljarða hærri fjárhæð að láni frá AGS en við höfum í dag, þ.e. að fara upp í 58 milljarða. Og hvað erum við að greiða fyrir það? Jú, við eigum að greiða 37 milljarða til þess að hafa þessa heimild. Það liggur ekkert fyrir um að við þurfum á þessu fé að halda, ekki neitt. Hvers vegna þarf Ísland að draga meira á lánalínu frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum? Er einhver þörf á því? Við erum með gjaldeyrisforða upp á rúman milljarð, hann er allur að láni, allur skuldsettur. Hvað munar okkur um hækkun á þessari heimild um 37 milljarða? Gengur ekki allt svo vel, er ekki allt á uppleið? Hefur ekki orðið gríðarlegur umsnúningur í ríkisfjármálunum? Þetta eru þau orð sem hæstv. fjármálaráðherra hefur haft um efnahagsstjórnina. Ég kem ekki auga á það hverju menn ætla að bjarga með þessum hætti, öðru en því að halda úti góðu veðri hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, góðu viðmóti og öðru því um líku.

Ég stóð í þeirri trú að það væru takmörk fyrir því hversu mikla skuldsetningu við þyldum, þá sérstaklega í erlendum gjaldeyri. Á ríkisstjórnarheimilinu virðast menn ekki hafa áhyggjur af því fremur en mörgu öðru sem lýtur að fjármálum íslenska ríkisins og kjörorðið þar er oft og tíðum að flýtur á meðan ekki sekkur. Ég kem í það minnsta ekki auga á neina skynsemi í þeim málatilbúnaði sem hér liggur fyrir. Við Íslendingar eigum að taka lán hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, þurfum að gera það, að andvirði 37 milljarða til að geta lagt sömu fjárhæð inn í Alþjóðagjaldeyrissjóðinn sem stofnfé. Hvað ætlar Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn að gera með það? Jú, hann ætlar væntanlega að lána það öðrum ríkjum eða þá okkur aftur með vöxtum. Við fáum enga vexti af því fé sem við leggjum inn í sjóðinn. Á árunum 2007–2008 var þetta kallað að gíra upp félög. Íslenska ríkisstjórnin mælist með þessum hætti til þess við Alþingi að það taki þátt í því að gíra upp Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Í ljósi þeirra atburða sem gerðust og ekki síður þeirra orða sem hv. stjórnarliðar margir hverjir hafa viðhaft um þessi mál er sannast sagna undarlegt að verða vitni að þeirri beiðni sem hér liggur fyrir og er ekki betur rökstudd en raun ber vitni í frumvarpinu og greinargerðinni sem fylgir.

Ég hvet hv. efnahags- og viðskiptanefnd til að fara betur ofan í þetta mál, ekki síst í ljósi þess hvernig það ber að. Þetta dettur hér inn á lokametrum haustþingsins, rétt fyrir jólahlé, gríðarlegar fjárhæðir. Það er afgreitt þannig að það muni ekki hafa nokkur áhrif á skuldbindingar A-hluta ríkissjóðs. Fyrir því er engin vissa. Eins og hér hefur verið bent á er ákveðin tapsáhætta í því eins og bara öðru hlutafé fyrir utan að það stofnfé sem þarna er verið að leggja inn ber ekki rentur. Þrátt fyrir þessa vankanta hefur efnahags- og viðskiptanefnd ekki leitað eftir umsögn fjárlaganefndar um þetta mál sem er raunar í samræmi við aðra verkhætti sem á þeim bænum hafa verið teknir upp á síðustu vikum. Það kemur í sjálfu sér ekki á óvart en er ekki til eftirbreytni.

Þegar maður leggst aðeins yfir málið og skoðar í samhengi við þá orðræðu sem stafað hefur frá ríkisstjórnarheimilinu um að á Íslandi hafi orðið gríðarlegur umsnúningur og mikill árangur náðst í ríkisfjármálunum skilur maður þessa fjárbeiðni ekki alveg til hlítar. Í mínum huga er hún fyrst og fremst sett fram til að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafi úr meira fé að spila en hins vegar háttar þannig til hér á landi að íslenski seðlabankinn er ekki aflögufær í gjaldeyri því að við erum með neikvæða stöðu á þeim reikningi. Engu að síður er farið fram á þetta og ég tel ámælisvert að gera það án þess að fyrir liggi nákvæmari greining en er að finna í nefndaráliti efnahags- og viðskiptanefndar.