140. löggjafarþing — 38. fundur,  16. des. 2011.

fjársýsluskattur.

193. mál
[14:19]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Það eru að koma jól og hæstv. ríkisstjórn hækkar skatta á allt og alla. Þetta er launaskattur sem fer hátt upp í 6,71% og mun hafa þær afleiðingar að hann kemur einstaklega illa við litlar fjármálastofnanir eins og sparisjóði. Þeir munu bera skarðan hlut, sérstaklega í samkeppni við stærri fjármálastofnanir. Þetta mun líka koma illa við innlendar fjármálastofnanir í samkeppni við erlendar. Það þýðir að þetta mun færa störf frá Íslandi til annarra landa. En fréttir dagsins sýna okkur að núna eru búnir að vera mestu brottflutningar á Íslandi í 100 ár.

Virðulegur forseti. Það má færa rök fyrir því að einhverju hafi verið bjargað fyrir horn en engu að síður eru þetta í besta falli handarbakavinnubrögð sem munu koma niður á störfum og sparnaði og fjárfestingu á Íslandi. (Forseti hringir.) Við munum ekki styðja þetta en sitjum hjá við (Forseti hringir.) þær breytingartillögur sem hér eru.