140. löggjafarþing — 38. fundur,  16. des. 2011.

fjársýsluskattur.

193. mál
[14:21]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við erum að greiða atkvæði um fjársýsluskattinn og það kemur mjög skýrt fram í frumvarpinu sem hér er lagt fram hver tilgangur hans er. Ég vil fá að lesa orðrétt upp úr frumvarpi hæstv. fjármálaráðherra, en þar stendur þetta:

„Loks er viðbúið að fjársýsluskattur hafi áhrif á þróun atvinnugreinarinnar í heild. Auknar álögur af þessu tagi færa rekstrarumhverfi fyrirtækja í fjármála- og vátryggingastarfsemi nær því sem aðrar greinar atvinnulífsins búa við og eru til þess fallnar að draga úr launahækkunum og halda aftur af nýráðningum.“

Þetta stendur skýrum stöfum í frumvarpi sem við erum að fara að samþykkja hér þannig að hv. stjórnarliðar hljóta að vita nákvæmlega hvað þeir eru gera — fækka störfum og lækka laun.