140. löggjafarþing — 38. fundur,  16. des. 2011.

hækkun á kvóta Íslands hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

304. mál
[14:57]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að sú andstaða sem við finnum í þessum ríkjum, eins og frá Japan, Þýskalandi og Bandaríkjunum, stafi einfaldlega af því að þau eru orðin mjög skuldug, þ.e. það á við um Japan og Bandaríkin. Brúttóskuldirnar í Japan eru í kringum 240% af landsframleiðslu ríkissjóðs en eru í kringum 86% hér á Íslandi. Í Bandaríkjunum er þetta að verða komið upp í 100% af landsframleiðslu, en staðan er mun betri í Þýskalandi.

Ég held að staðan sé einfaldlega sú að þegnar þessara þjóða eru ekki tilbúnir að skera úr snörunni þegna annarra þjóða sem eru búnar að haga sér óskynsamlega í fjármálum, eins og Grikkland, Írland, Portúgal, Ítalía og jafnvel fleiri lönd, t.d. Ungverjaland. Þegnarnir eru ekki tilbúnir að hætta sinni fjárhagslegu framtíð fyrir þessi ríki og það er ofurskiljanlegt. Maður réttir meðbróður sínum hjálparhönd svo lengi sem maður hefur einhver tækifæri til þess. Ef meðbróðirinn lætur sér ekkert að kenningu verða og heldur áfram í sukkinu og svínaríinu og gerir ekkert til að bæta stöðu sína kemur að því að menn segja hingað og ekki lengra.

Hv. þingmaður spyr hvort ég muni styðja þetta í framtíðinni. Það sem ég vil gera núna er að fara vel fyrir þetta mál og ég vil gera það faglega í efnahags- og viðskiptanefnd. Ég vil taka afstöðu byggða á þeirri niðurstöðu. Í þeirri vinnu verður að vera mjög vel gaumgæfð sú áhætta sem fylgir því að setja þessa peninga inn í Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Við getum ekki gert það svona blint á hlaupum hérna á milli (Forseti hringir.) í spreng í lok þings.