140. löggjafarþing — 38. fundur,  16. des. 2011.

hækkun á kvóta Íslands hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

304. mál
[15:00]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum frumvarp til laga um heimild fyrir ríkisstjórnina til að samþykkja hækkun á kvóta hjá AGS. Frumvarpið lætur lítið yfir sér og var lítið rætt við 1. umr. en ég hygg að þegar menn fara að gaumgæfa það betur þurfi að skoða það miklu betur. Ég tek undir með hv. þm. Tryggva Þór Herbertssyni, við ættum að anda rétt aðeins rólega og setja málið aftur inn í nefnd sem vinni þá faglega að því fram í janúar að kanna þetta nákvæmlega.

Spurningin er: Hvað er þetta eiginlega? Hér stendur að það eigi að samþykkja hækkun á kvóta og það er talað um stofnfé. Þá kemur upp í huga manns stofnfé í sparisjóðum. Það er nefnilega ágætissamlíking vegna þess að fyrir svo sem eins og tíu árum litu menn á stofnfé í sparisjóði nánast sem bankainnstæðu, algerlega áhættulausa, og menn líta líka á bankainnstæðu sem algerlega áhættulausa eign. Svo er þó ekki. Stofnféð hefur sýnt sig vera bundið við gífurlega áhættu ef viðkomandi sparisjóður er ekki rétt rekinn og það þótt hann sé undir mjög styrku eftirliti. Ég gagnrýndi á sínum tíma með sparisjóðina að Fjármálaeftirlitið hefði ekki gert athugasemdir við það að öll eign væri bundin í tveimur hlutafélögum. Þetta er útúrdúr.

Vandinn er að það er Seðlabankinn sem kaupir þessi stofnbréf og leggur fram þetta fé, bæði sem hluta af sínum gjaldeyrisforða og líka sem innlenda krónu sem hann setur á sérreikning sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur umráð yfir. Hvort tveggja er áfram talið eign Seðlabankans. Það er svipað og ef ég tek úr heimilisbókhaldi mínu peninga sem ég á og legg inn á bankareikning eða kaupi stofnbréf og þá get ég sagt: Hér hvarf eign og hér myndast eign. Það breytist ekki neitt. En það breytist að því leyti að ef ég tek peninga sem ég á sem er reyndar líka áhætta vegna þess að seðlar eru með ríkisábyrgð, seðlar eru líka verðbréf sem eru með ríkisábyrgð. Við skulum samt ganga út frá því að seðlarnir séu nokkurn veginn öruggir, nærri 100%. Þegar ég kaupi fyrir þá stofnbréf í sparisjóði er ég að taka þá úr mjög öruggu umhverfi og setja í öruggt umhverfi en ekki alveg eins öruggt. Það sýndi sig í hruninu að stofnbréf í sparisjóðum urðu verðlaus. Þetta er það sem menn þurfa að átta sig á.

Vandinn hérna er sá að það er Seðlabankinn sem sér um þessa flutninga á fjármunum og eignum og hann er ekki í fjárlögum ríkisins og það er dálítið athyglisverður punktur, frú forseti, sem ég held að Alþingi þurfi að fara að skoða. Þegar Seðlabankinn tekur áhættu og lánar eða kaupir stofnbréf eða gerir eitthvað annað, kaupir til dæmis ástarbréf eins og hann gerði fyrir hrun, myndast áhætta á ríkissjóð. Ég held að við þurfum að fara að skoða það. Ég spurði 17. janúar sl. um allar skuldbindingar ríkissjóðs sem ekki væru færðar í fjárlögum eða fjáraukalögum, því að það á að vera, og ég bíð í ofvæni eftir þeirri skýrslu sem á að koma vegna þess, en ég gleymdi að geta þess að þær aðgerðir sem Seðlabankinn er að gera eru náttúrlega líka skuldbinding ríkissjóðs. Hér erum við reyndar sem löggjafi að veita heimild til að hækka þennan kvóta, veita Seðlabankanum heimild, en það er fjöldamargt sem Seðlabankinn er að gera þar sem Alþingi er ekki spurt en ríkið ber ábyrgð á vegna þess að ríkissjóður ber ábyrgð á Seðlabankanum. Við erum farin að vera miklu meðvitaðri, a.m.k. ég sjálfur, hef svo sem oft verið það og lengi, um skuldbindingar og áhættu og þess vegna held ég í framhaldinu að við ættum að breyta fjárlögunum og fjárlagaumræðunni þannig að skuldbindingar Seðlabankans komi þar inn líka þannig að það sé á hreinu hvaða skuldbindingar ríkissjóður er að taka.

Hvað getur gerst? Allir segja: Það bara gerist ekkert, það gerist ekki neitt, þetta er 100% öruggt. Það var líka sagt um stofnfé sparisjóðanna, ég minni á það. Hvað erum við að gera? Við erum að veita Alþjóðagjaldeyrissjóðnum heimild til að hafa þessar eignir til ráðstöfunar. Við getum sjálf tekið lán út á þetta og borgað miklu hærri vexti — og af hverju skyldum við gera það? Vegna þess að það er áhætta. Það gæti verið að við sjálf lentum í vandræðum og gætum ekki borgað þetta lán vegna þess að íslenska ríkið yrði gjaldþrota en þá ættum við eftir sem áður kröfu á Alþjóðagjaldeyrissjóðinn eða inneign þar. Þess vegna eru miklu lægri vextir sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn borgar, 0,15% held ég að hafi verið nefnt hérna áðan, en þegar við tökum lán hjá honum, sömu upphæð, borgum við miklu hærri vexti. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn er nefnilega alltaf að taka áhættu. Þegar hann kemur til Grikklands og ætlar að fara að bjarga málum vona allir að Grikkland verði ekki gjaldþrota en auðvitað getur það gerst og sumir halda því meira að segja fram að það sé óhjákvæmilegt. Þá tapar Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn þeim peningum sem hann hefur sett þar inn með lánum og öðru slíku og það þarf einhvers staðar að mæta því. Grikkland er ekkert voðalega stórt land en ef sjóðurinn tapar líka hjá einhverju stóru landi, þá erum við kannski að tala um Ítalíu eða Spán eða annað stórt land sem þyrfti hugsanlega að leita ásjár hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, getur hann lent í því að eiga bara ekki fyrir því stofnfé sem hann hefur fengið frá 187 ríkjum.

Þetta er það sem við þurfum að gera okkur grein fyrir, þetta er áhætta vegna þess að Seðlabankinn kaupir stofnfé í Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn gæti farið á hausinn og þá lendir Seðlabankinn í því að eiga ekki lengur þessa eign, verður að afskrifa hana, það tap lendir þá á ríkissjóði og íslenskir skattgreiðendur þurfa að greiða þessa 37,2 milljarða. Það eru ekki litlir peningar, ég ætla bara að undirstrika það.

Þetta var rétt aðeins um áhættuna og hvað við erum að gera. Ég ætla að vona að ég sé nokkuð skýr vegna þess að menn hafa talað um að þetta sé ekki áhætta. En áhættan er dulin inni í Seðlabankanum og það er nokkuð sem við þurfum að skoða, þ.e. að áhættan sem Seðlabankinn tekur verði færð inn í ríkisreikning sem lánsfjárloforð eða bara bein loforð.

Hvað er að gerast úti í heimi? Hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson kom mjög ítarlega inn á það áðan og ég ætla ekki að fara að endurtaka það allt saman. Í allt sumar hafa verið í að minnsta kosti þýskum fjölmiðlum stríðsfréttir á hverjum einasta degi. Það er alltaf verið að reyna að bjarga stöðunni, og af hverju skyldi staðan vera svona hættuleg? Það er vegna þess að þessar þjóðir hafa tekið á sig allt of miklar skuldir. Hvar skyldu aðalskuldirnar liggja, frú forseti? Í lífeyrismálunum. Það er svo auðvelt í gegnumstreymiskerfi eins og er á Ítalíu, Grikklandi og í Þýskalandi að lofa einhverju í framtíðinni þegar menn þurfa ekki að sýna það í dag. Íslenska lífeyriskerfið er miklu betra því að það byggir á söfnun og þá vita menn hvað þeir hafa á móti. Hjá almennu sjóðunum er lífeyririnn skertur ef eignirnar duga ekki. Því miður er það ekki hjá LSR, það þyrfti að breyta því þannig að það gilti það sama þar. Annað kerfi er hér hins vegar með gegnumstreymi. Það er Tryggingastofnun og hún er með gífurlegar skuldbindingar. Hún borgar 50 milljarða á ári í lífeyri og það stendur ekki til að hætta við það þannig að við verðum að borga þessa 50 milljarða um alla framtíð. Það er óheyrilega há skuldbinding, sennilega meiri en Icesave og margt annað. Á móti eigum við eignir sem við höfum ekki sýnt, eins og Landsvirkjun, allt skólakerfið og allar byggingarnar, þannig að þetta er kannski ekki alveg svona dapurleg staða. Úti um allan heim glíma menn núna við óheyrilegan vanda, að nokkru leyti vegna lífeyriskerfisins sem byggir á gegnumstreymi, þ.e. borgað er beint í gegn eins og hjá Tryggingastofnun. Það er bara sagt að lífeyririnn hækki og þá koma aukin útgjöld fyrir ríkissjóð.

Menn hafa lofað ýmsu, ég kíkti á lífeyriskerfið í Grikklandi og þar geta menn hafið töku lífeyris fyrir sextugt, 58 ára held ég að það sé. Grikkir eru með lífeyri sem er bara mjög góður. Ég held að ég hafi skilið það rétt að það væru um 90% af launum sem er eiginlega of góður lífeyrir. Í sumum löndum hefur líka komist upp að menn borga skatta eftir minni, þ.e. skattasiðferðið er mjög slæmt. Það er líka hluti af vandanum. Ég held að menn þurfi að fara að snúa af þessari braut eyðslu og skuldasöfnunar. Ég hef lagt til hérna að Íslendingar settu sér það mark að hætta að skulda nema fyrir húsnæði og námslánum sem einstaklingar og að ríkissjóður og sveitarfélög verði yfirleitt alltaf skuldlaus. Við Íslendingar þurfum að fara að taka okkur tak í því.

Frú forseti. Í löndum heims eru skuldir allra þjóða að meðaltali núll. Það sem ein þjóð lánar tekur önnur að láni. Ef þetta yrði allt gert upp væri meðalskuldin núll. Sumar þjóðir búa við mikla sjóði og þar er kannski Kína efst á blaði. Önnur lönd eru Þýskaland og Tævan, merkilegt nokk, sem býr við mjög digra sjóði sem það hefur lánað úr til annarra landa. Þetta ójafnvægi, þar sem Kína er með alveg gífurlegar innstæður og Bandaríkin með alveg gífurlegar skuldir, er vandamálið sem við erum að glíma við um allan heim. Við erum að glíma við það í Evrópu og í Bandaríkjunum. Þetta endurspeglast einmitt í vandamálum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Þess vegna held ég að það sé mjög brýnt að menn taki á þessum vanda og hemji neysluna í löndunum sem eru með stöðuga skuldasöfnun. Hvernig hefur þetta verið leyst, frú forseti, með Bandaríkin og Kína? Bandaríkjamenn hafa flutt út dollara í 100 ár og Kínverjar hafa flutt þá inn á móti öllum vöruflutningunum, þ.e. Bandaríkjamenn hafa prentað dollara og Kínverjar hafa safnað þeim í hólf. Þetta er eiginlega málið í hnotskurn og einhvern tímann hlýtur þetta að enda.

Þetta frumvarp sem við ræðum hér er angi af þessari stóru alheimsmynd og ég vildi gjarnan að hv. nefnd skoðaði þetta í góðu í janúar, héldi jafnvel einhverja fundi. Ég er ekki í þeirri nefnd en hún gæti fengið til sín gesti og umsagnir um þetta til að átta sig á því hvað er að gerast.

Ég sá einhvers staðar að 187 ríki standi að Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Einmitt núna er í 187 þingum væntanlega verið að ræða þetta mál sem við erum að ræða hérna. Það væri gaman að vita hvaða meðhöndlun svona mál fá í þeim þingum, hvernig þetta er unnið, hvernig menn kanna áhættuna af þessu og hvernig skattgreiðendum eru kynnt þessi mál. Eru þau kannski ekkert kynnt eins og stefnir í að hér verði. Ef þetta verður samþykkt hérna í dag eða á morgun fær þetta enga almennilega umræðu og allt í einu erum við farin að skulda þarna tugum milljörðum meira en ella, þ.e. búin að taka þá áhættu. Við skuldum það ekki einu sinni, við eigum þetta inni eins og stofnfjáreigandinn átti stofnféð.

Ég legg til að málið fari aftur til nefndar milli 2. og 3. umr. og þar verði þetta skoðað nákvæmlega í janúar. Síðan tökum við afstöðu í lok janúar.