140. löggjafarþing — 38. fundur,  16. des. 2011.

hækkun á kvóta Íslands hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

304. mál
[15:32]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Frumvarpið sem við ræðum í dag er eitt af þeim frumvörpum sem hæstv. ríkisstjórn kom með inn í þingið undir lok nóvembermánaðar og var rætt hér við 1. umr. fimmtudaginn 8. desember og virðist hafa fengið, a.m.k. í fyrstu, nokkuð snöggsoðna meðferð í hv. efnahags- og viðskiptanefnd. Ég verð að játa að við fyrstu sýn virtist um að ræða sakleysislegt mál en eins og vakin hefur verið athygli á í þessum umræðum í dag kalla fjölmargir þættir í því sambandi á að við sýnum varfærni og förum vel yfir efnisþætti þess og hugsanlegar afleiðingar áður en við göngum frá þessu frumvarpi hér á þingi.

Í fyrsta lagi er um umtalsverða fjárhagslega hagsmuni að ræða. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að ríkisstjórnin fái heimild til að auka kvóta Íslands hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, annars vegar með greiðslu framlags upp á rúma 9 milljarða og hins vegar með því að stofna inneign fyrir Alþjóðagjaldeyrissjóðinn í Seðlabankanum að tiltekinni fjárhæð sem auðvitað er ekki með öllu áhættulaus þegar til lengri tíma er litið. Þarna er um að ræða það háar upphæðir að öll áhætta í þessu sambandi krefst athygli þó að við getum haft alls konar skoðanir á því hvort sú áhætta er mikil eða lítil. Þetta mál er vel þess virði að það sé rætt hér í dag, það hefur ekki fengið mikla umræðu áður, ég hygg að einungis einn almennur þingmaður hafi tekið til máls við 1. umr. þegar mælt var fyrir málinu. Núna þegar það er smám saman að renna upp fyrir þingmönnum að þarna er um stærra mál að ræða fær það meiri umræðu. Það er óhjákvæmilegt að sú nefnd sem hefur fengið þetta mál til meðferðar haldi áfram að vinna í því milli 2. og 3. umr., leggist yfir þætti þess vegna þess að spurningarnar í þessu sambandi eru enn fjöldamargar og ég tel að þeim hafi ekki að öllu leyti verið svarað.

Ég verð að játa að af lestri frumvarpsins og þeirra gagna sem því fylgja inn í þingið er ekki með öllu ljóst hversu mikið liggur á þessu máli. Okkur er sagt að hér sé um að ræða mál sem sé meðal forgangsmála ríkisstjórnarinnar, eins konar áramótamál sem verði að klárast núna fyrir jólin, en í málinu sjálfu er ekki að finna neitt sem bendir til þess að svo sé. Það er ekkert að finna í frumvarpinu sjálfu eða greinargerð með því sem gefur okkur tilefni til að draga þá ályktun að nauðsynlegt sé að afgreiða það í snarhasti á fáeinum sólarhringum. Þeir sem leggja áherslu á að það verði að hraða meðferð málsins, það verði að klára það í dag eða á morgun eða á mánudaginn eða eitthvað svoleiðis, finnst mér að verði að koma í þennan ræðustól og útskýra hvers vegna. Hvað er það nákvæmlega í þessu máli sem gerir það að verkum að við þurfum að klára það í dag eða á morgun? Hvað er svona brýnt varðandi þetta mál í tíma að það kalli á að við í þinginu klárum það án þess að hafa fengið næg tækifæri til þess að fjalla um það? Þetta er fyrsta spurningin.

Í öðru lagi álít ég ekki augljóst af málinu sjálfu hvort Íslendingar þurfi að auka kvóta sinn með þeim hætti sem hér er gert ráð fyrir. Frumvarpið er reyndar sett fram sem heimildarákvæði en ekki hefur annað komið fram en að ætlunin sé að nýta heimildina. Þá spyr maður auðvitað eins og oft er gert og eðlilegt er að gera þegar um er að ræða skuldbindingar sem Ísland hefur undirgengist á alþjóðlegum vettvangi: Þurfum við að breyta íslenskum lögum með þessum hætti? Þurfum við að taka þátt í þessari kvótaaukningu hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum? Er það ef til vill valkvætt? Þetta er auðvitað mikilvægt fyrir þingið að vita.

Ef um er að ræða eitthvað valkvætt þurfum við að fara í hagsmunamatið. Ég hygg reyndar að þetta hljóti að vera valkvætt vegna þess að annars væri málið sennilega sett öðruvísi fram, en ef um valkvæða ákvörðun er að ræða þarf að meta kostina og gallana. Ég verð að segja að í greinargerð með frumvarpinu er frekar léttilega skautað yfir þann þátt. Það er vissulega bent á að kvótaaukningunni fylgi meiri atkvæðisréttur í Alþjóðagjaldeyrissjóðnum en einhvern veginn hef ég á tilfinningunni að það sé ekki neitt sem telja megi til grundvallarhagsmuna Íslendinga, að fá örlítið meira atkvæðavægi innan Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Með þeim hátt á annað hundrað þjóðum sem þar eru er ljóst að áhrif okkar verða ekkert óskaplega mikil jafnvel þó að við förum í þessa kvótaaukningu. Það er kannski ekki sterk röksemd að við eigum að auka kvótann til þess að fá meira atkvæðavægi í Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

Hitt atriðið sem vikið er að í greinargerðinni varðar það að þetta geti auðveldað aðgang að lánsfé hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum undir tilteknum skilyrðum. Þá finnst mér við þurfa að fá upplýsingar um hvort ætlunin sé að nýta það lánsfé og draga á þær heimildir — í hvaða tilgangi þá? Við þurfum að sjá það í því samhengi. Alveg eins og áhættumálið sem ég vék að í upphafi er þetta mál sem varðar heildarfyrirkomulag ríkisfjármála og ætti þar af leiðandi að koma til skoðunar hjá að minnsta kosti hv. fjárlaganefnd Alþingis sem að sjálfsögðu þarf að skoða málið þó að það hafi af einhverjum ástæðum verið sent úr þinginu til efnahags- og viðskiptanefndar. Það er augljóst að fjárlaganefnd þarf líka að fara gaumgæfilega yfir þetta mál.

Þetta finnst mér, hæstv. forseti, gefa tilefni til að fara yfir þessa þætti. Ég er einfaldlega ekki betur að mér um þetta mál en svo að ég get ekki útilokað að á endanum gætum við komist að þeirri niðurstöðu að það bæri að samþykkja þessa heimild til að auka kvótann með þeim hætti sem hér er gert ráð fyrir. Ég ætla ekki á þessu stigi að útiloka að vandleg yfirferð og athugun gæti leitt til þeirrar niðurstöðu. Ég segi hins vegar fyrir mig, hæstv. forseti, að ég vil ekki komast að þeirri niðurstöðu nema málið hafi fengið mun betri skoðun bæði hjá mér og þó einkum hjá þeirri þingnefnd sem ábyrgð ber á málinu og um leið kannski þeirri þingnefnd sem ber ábyrgð á ríkisfjármálunum. Sú skoðun þarf að fara fram, ítarleg og vönduð, áður en við komumst að niðurstöðu, áður en ég kemst að niðurstöðu. Ég treysti mér ekki til að gera það fyrr og mér finnst það allmikið ábyrgðarleysi af þinginu ef ætlunin er að ljúka meðferð málsins fyrr.

Þarna er um að ræða hagsmuni sem taldir eru í milljörðum króna og í þeirri viðkvæmu efnahagslegu stöðu sem við erum í er einfaldlega hvorki ábyrgt af okkur né skynsamlegt annað en að taka allar ákvarðanir á þessu sviði af vandvirkni og yfirvegun.

Ef við komumst síðan að þeirri niðurstöðu að það sé mikilvægt fyrir okkur, jafnvel nauðsynlegt og skynsamlegt fyrir okkur Íslendinga, að stíga það skref sem hér er gert ráð fyrir skulum við gera það. Við skulum bara ekki stíga skrefið fyrr en við erum viss um að við séum að fara í rétta átt. Við höfum of oft bæði í lagasetningu á þingi og í öðrum efnum farið fram úr sjálfum okkur, afgreitt einhverja hluti í snarhasti, einhverri andarteppu á lokametrum þingstarfa fyrir jól eða sumarhlé, og við höfum allt of oft brennt okkur á því, m.a. með þeim afleiðingum að við höfum þurft að laga lög sem við vorum jafnvel nýbúin að setja. Það eru dæmi um það í þinginu þessa dagana að við erum að laga lög vegna þess að menn misstigu sig eitthvað við lagasetninguna í haust eða síðasta vor. Það er auðvitað ekki gott. Ef maður uppgötvar að það er veila í því sem maður hefur smíðað eða sent frá sér er skárra að laga það en láta það ógert, en það ber ekki nægilega gott vitni um það sem við erum að gera hérna og þau vinnubrögð sem við eigum að viðhafa.

Þetta mál er dæmigert mál sem þarf að leggjast yfir. Það er flókið og ég held að óhætt sé að segja að það er ekki fyrr en kannski á allra síðustu sólarhringum sem einstakir hv. þingmenn hafa áttað sig á því hvaða þýðingu þetta hefur. Framan af heyrðist mér á mönnum að þeir litu þannig á að það væri meira og minna eitthvert formsatriði að samþykkja þetta frumvarp, það hefði engin raunveruleg áhrif, þetta væri afgreiðsla, það þyrfti bara að gefa þessu stimpil. En auðvitað er þetta meira en svo, þetta snýst um að Ísland, hvort sem það er ríkissjóður eða Seðlabankinn eins og gert er ráð fyrir í þessu frumvarpi, þarf að greiða Alþjóðagjaldeyrissjóðnum háar fjárhæðir, meira en 9 milljarða kr. Þessir 9 milljarðar munu að vísu áfram teljast til gjaldeyrisvaraforða okkar en engu að síður verður um eignatilfærslu að ræða frá Seðlabanka Íslands til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, það er ekki hægt að skilja þetta öðruvísi. Um leið hefur það áhrif þegar Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn eignast þá inneign í íslenskum krónum hjá Seðlabanka Íslands sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu. Það hefur líka áhrif.

Ég játa að ég er ekki alveg farinn að sjá hver þau áhrif eru eða hvaða áhætta getur hugsanlega fylgt því. Þetta er nokkuð sem ég tel að þurfi að skoða gaumgæfilega. Fyrir því að stíga skref af þessu tagi þurfa að vera góð rök, það þarf að vera gert á grundvelli góðrar skoðunar, ekki þannig að þingmenn taki við máli úr einhverju ráðuneyti, stimpli það og sendi síðan áfram. Það eru ekki nógu góð vinnubrögð.

Eins og hæstv. forseti hefur tekið eftir höfum við þingmenn stjórnarandstöðunnar ítrekað vakið athygli á því við þessa umræðu að það þurfi að sýna varfærni í þessu og það er auðvitað vegna þess að aðrir eru ekki til þess. Það er eins og þetta mál, eins og svo mörg önnur, sé einhvern veginn heilagt fyrir þingmenn stjórnarflokkanna, þeir eru einhvern veginn búnir að undirgangast að það verði að samþykkja þetta. Það er reyndar ekki svo að þeir geti komið upp í ræðustól og útskýrt fyrir okkur hinum hvers vegna, þeir gera það ekki en virðast ætla að láta þetta yfir sig ganga þannig að það kemur í hlut okkar, þingmanna stjórnarandstöðunnar, að vekja athygli á því að hér verði að staldra við, fara aðeins betur yfir hlutina og sýna varfærni.

Ég vil að lokum, hæstv. forseti, nefna það að hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson nefndi athyglisverða vinkla á málinu í ræðu sinni áðan um vaxtaprósentur og ýmislegt annað í tæknilegri útfærslu þess. Ræða hans og fleiri ræður, fleiri sjónarmið sem hafa komið fram í þessari umræðu, gefa tilefni til þess að hv. efnahags- og viðskiptanefnd fari í mjög gaumgæfilega skoðun, fái umsagnir fleiri aðila um þetta mál og fari gaumgæfilega yfir það áður en hlaupið er að einhverri niðurstöðu. Þetta mál kann að vera þess eðlis að við þurfum eða viljum jafnvel þegar upp verður staðið samþykkja það en í mér er nokkur óhugur gagnvart því að samþykkja það með þeim vinnubrögðum sem ætlunin er hér á þessum lokadögum þingsins.

Hæstv. forseti. Áður en ég lýk máli mínu verð ég að benda á að hér er um að ræða eitt af þeim sennilega um 30 málum hæstv. ríkisstjórnar, stjórnarfrumvörpum, sem miðað við hinn svonefnda forgangslista ríkisstjórnarflokkanna er ætlunin að klára nú á lokadögum þingsins. Langflest þessara mála voru lögð fram á Alþingi á síðustu dögum nóvembermánaðar eða í byrjun desember, fyrir tveimur eða í mesta lagi þremur vikum, flest fyrir um það bil tveim vikum. Þessi mál sem ríkisstjórnin leggur svona mikið kapp á að klára áður en þingið fer í jólahlé hafa þar af leiðandi fengið minni umfjöllun í nefndum þingsins en æskilegt er og það er í fullkomnu ósamræmi við þær hugmyndir sem við höfðum um vandaða málsmeðferð hér í þinginu. Þar að auki eru málin það seint í umræðu á þinginu að það er mikill þrýstingur á að ljúka umræðu um þau sem allra fyrst. Tíminn til að skoða málin milli 2. og 3. umr. er svo til enginn þannig að hættan sem alltaf er fyrir hendi í lagasetningu hér, að mönnum yfirsjáist eitthvað, að menn misstígi sig á lokametrunum í lagasetningarstarfinu, er stóraukin með því að viðhafa vinnubrögð af þessu tagi.

Það sem maður veltir fyrir sér er hvers vegna í veröldinni ríkisstjórnin gerir þetta. Ríkisstjórnin lagði fram við setningu Alþingis 1. október lista yfir þau mál sem hún ætlaði að leggja fram í vetur. Ríkisstjórnin hafði á þeim tímapunkti gert sér nokkuð glögga mynd af því hvaða mál hún teldi æskilegt að afgreiða, annars vegar á haustþingi og hins vegar á vorþingi. Þessi mál eru flest meðal þeirra mála sem átti að afgreiða á haustþingi. Þá spyr maður: Hvers vegna kemur ríkisstjórnin ekki með þessi mál inn en fyrr á síðustu dögum nóvembermánaðar eða fyrstu dögum desembermánaðar þegar hún veit að samkvæmt starfsáætlun þingsins átti að ljúka þinginu 16. desember? Hvers vegna í veröldinni? Það eru engir nýgræðingar sem standa að þessu. Það eru ekki nýgræðingar í ráðherrastólum sem bera ábyrgð á þessu, langt í frá. Þeir hæstv. ráðherrar sem bera ábyrgð á þessu eru sumir hverjir meðal þingreyndustu manna, vita nákvæmlega hvernig störfin í þinginu fara fram. Af hverju byggja þessir menn ekki á sinni góðu reynslu, löngu reynslu skulum við frekar segja, og leggja mál fram með þeim hætti að þau geti fengið viðunandi umfjöllun í þinginu?

Þegar ríkisstjórnin og ríkisstjórnarflokkarnir koma með mál inn í þingið á síðustu stundu, leggja ofurkapp á að koma þeim í gegnum nefndirnar, oft án viðunandi málsmeðferðar, og leggja svo að lokum áherslu á að þau fáist afgreidd á þingi meira og minna umræðulaust spyr maður: Er þetta vísvitandi gert til að reyna að koma málum í gegn án þess að þau fái almennilega umræðu í þinginu, án þess að þau fái nægilega gagnrýna skoðun af hálfu þingmanna, umsagnaraðila og annarra sem geta fjallað um mál þegar þau eru orðin opinber? Er þetta vísvitandi?

Framan af hélt ég að þetta væri einfaldlega klaufaskapur, slæleg vinnubrögð (Forseti hringir.) eða annað slíkt en þegar þetta gerist í tugavís með mál, þegar frumvörp eru í þessari stöðu í tugavís, (Forseti hringir.) fer maður að velta fyrir sér hvort þetta sé vísvitandi gert til þess að koma málum gegnum þingið án eðlilegrar umræðu.