140. löggjafarþing — 38. fundur,  16. des. 2011.

hækkun á kvóta Íslands hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

304. mál
[16:15]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég verð að segja að mér fyndist það ekki skondin staða ef raunin yrði að eina ríkisstjórnin sem borgaði væri sú íslenska, ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, mér fyndist það grafalvarleg staða. Staðreyndin er auðvitað, eins og hv. þingmaður sagði, 200 milljónir bandaríkjadala inn í björgunarsjóð evrunnar. Erlend ríki spyrja hvort það sé réttlætanlegt að taka þessa áhættu og þá er það grafalvarlegt mál þegar íslenska ríkisstjórnin ætlar að taka frumvarp sem þetta á sama tíma og allir spyrja þessara spurninga. Miklar fjárhæðir liggja undir og það er grafalvarlegt mál að ríkisstjórnin skuli ekki vera tilbúin að spyrja akkúrat þessara spurninga og fara gaumgæfilega ofan í málið.

Þetta er það sem ég hef miklar áhyggjur af og ég hefði talið í ljósi forsögunnar og þeirrar staðreyndar að margir hæstv. ráðherrar Samfylkingarinnar áttu sæti í hrunstjórninni að þau væru búin að læra eitthvað af mistökunum sem þá voru gerð. Það er undarlegt að þau séu ekki tilbúin að hlusta á varnaðarorð erlendis frá, varnaðarorð úr öllum áttum. Það er akkúrat það sem maður horfir upp á í þessu máli, að það fari í gegn án þess að búið sé að kanna til hlítar hvaða umræður séu í gangi í öðrum löndum. Það er að sjálfsögðu nokkuð sem átti að gerast á vettvangi nefndarinnar sem hefur þetta mál til umfjöllunar. Ég skil ekki hvað býr að baki því að samþykkja 37,2 milljarða kr. fjárveitingu á sama tíma og önnur ríki spyrja spurninga og skoða málið betur. Hvað rekur íslensku ríkisstjórnina áfram á þessum ógnarhraða í þessu máli?