140. löggjafarþing — 38. fundur,  16. des. 2011.

hækkun á kvóta Íslands hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

304. mál
[16:21]
Horfa

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vek athygli á því að allir sem hér hafa talað eru sammála um eitt og þá tel ég með þessa örræðu sem formaður hv. efnahags- og viðskiptanefndar hélt. Það sem menn eru sammála um er að þetta mál hefur ekkert verið rætt. Það hefur ekkert verið rætt í hv. efnahags- og viðskiptanefnd og þess vegna taldi hv. formaður efnahags- og viðskiptanefndar eðlilegt að það yrði rætt hér. En hvar er hv. formaður efnahags- og viðskiptanefndar? Hefur hann tekið þátt í umræðunni? Það getur vel verið að hv. formaður sé í húsi en ég sé hann ekki í salnum. Er einhver annar stjórnarliði í salnum til að ræða þetta? Ég hef ekki orðið var við það. Í ljós kemur það sem var upplýst í nefndinni að þetta er í besta falli fullkomin þvæla. Hver sá aðili sem skoðar netið og skoðar eitthvað annað en íslenska fjölmiðla getur flett upp leitarorðinu IMF og séð að því fer víðs fjarri að hér sé einhver sátt um málið. Þjóðríki almennt eða aðildarríki Alþjóðagjaldeyrissjóðsins eru ekki að setja inn fjármuni til aukningar á hlut sínum á kvótanum.

Það er af svo mörgum málum að taka, virðulegi forseti, það er eins og hæstv. ríkisstjórn trúi því að þá sé gott að læða allra handa málum inn, jafnvel þótt þau séu risastór, í von um að þau fái enga athygli. Rétt fyrir jólin eru svo gríðarlega mörg allra handa mál sem menn mega hafa sig alla við að leiðrétta vegna þess að þau eru svo vitlaus, illa unnin og illa ígrunduð þegar þau eru lögð fyrir þingið en í því ljósi heldur ríkisstjórnin að það sé hægt að sleppa með jafnvel tugi milljarða í gegnum þingið.

Virðulegi forseti. Það eru miklar efasemdir hjá helstu leiðtogum Evrópuríkja um að auka þennan kvóta. Ég vek athygli á því að á Spiegel Online, því virta þýska veftímariti og tímariti, kemur fram að breski forsætisráðherrann David Cameron segir að Bretar muni einungis leggja fram 1/3 af því sem þeim er ætlað að leggja fram. Það eru bara tekin fyrir þessi tvö lönd, nýleg frétt í Spiegel gengur út á að segja frá því að þýski seðlabankinn hafi miklar efasemdir um að leggja inn þetta framlag og síðan eru tekin fyrir tvö ríki, annars vegar Bretland sem ætlar að setja 1/3 af framlögum sínum inn í Alþjóðagjaldeyrissjóðinn — að hámarki — og Tékkar ætla að setja inn fé að því gefnu að öll Evrópuríkin geri það líka. Ef marka má þessa frétt og aðrar sambærilegar eru litlar líkur á því.

Hvað var okkur sagt í hv. efnahags- og viðskiptanefnd? Okkur var sagt að það væru engin vandamál, aðildarríki Alþjóðagjaldeyrissjóðsins væru að leggja inn sinn kvóta án nokkurra vandkvæða. Gestirnir, sérfræðingarnir sem kynntu málið fyrir hv. efnahags- og viðskiptanefnd, áttu von á að það yrði gert núna fyrir jólin án nokkurra vandkvæða.

Þetta er alvarlegt mál. Það er mjög alvarlegt mál að réttum upplýsingum sé ekki haldið að þingmönnum sem eiga að taka ákvörðun fyrir hönd þjóðarinnar. Þetta er í rauninni algjörlega ótrúlegt. Það er ótrúlegt í þessari blindu Evrópusambandsdýrkun Samfylkingarinnar að menn láti núna eins og það sé ekkert að gerast í Evrópusambandinu og reyni að láta líta svo út sem allt sé í himnalagi. Christine Lagarde, forstjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, hefur sagt að hún hafi áhyggjur af því að það sé hætta á sambærilegri kreppu og varð á fjórða áratugnum, þeirri sem hefur verið kölluð stóra kreppan. Hún hefur áhyggjur af því, framkvæmdastjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, Christine Lagarde, fyrrverandi fjármálaráðherra Frakklands.

Erum við að ræða þessi mál hér? Höfum við rætt þessi mál á undanförnum vikum eða frá því að þing kom saman eða í vor? Nei, virðulegur forseti, nei. Hæstv. ríkisstjórn telur að öll áföll sem yfir evruna dynja séu merki um styrkleika hennar og það sé almenn regla að því verr sem gengur hjá Evrópusambandinu, því verr sem gengur hjá evrunni og því meiri hætta á því að virkilegur skaði verði af þessu evrusamstarfi, því betra sé það fyrir Evrópusambandið og evruna. Það er fullkomlega ótrúlegt að fjölmiðlar þessa lands hafi ekki borið saman ummæli til að mynda hæstv. utanríkisráðherra, ég tala nú ekki um hæstv. forsætisráðherra, við raunveruleikann, sýn þeirra á málið í álfunni og hvað er að gerast í heiminum við raunveruleikann. Þó má segja að eitt blað hafi gert það, Morgunblaðið, en þá er hins vegar upp talið.

Ég er hér með mynd úr Spiegel. Spiegel hefur ekki verið talið neitt sérstaklega gegn Evrópusambandinu fram til þessa, svo það sé sagt, í rauninni þvert á móti. Myndin heitir Tímasprengjur. Hér er farið yfir það hvað þarf að endurfjármagna í viðkomandi löndum og þrjú lönd eru tekin fyrir, Frakkland, Ítalía og Spánn. Þarna er Frakkland sem er með langstærstu tímasprengjurnar ef marka má Spiegel.

Í hinu sama blaði kemur sömuleiðis fram hvað þarf að koma fram af fjármunum um mitt ár 2012 fyrir banka í viðkomandi Evrópusambandslöndum. Það sem þarf samanlagt að koma fram með í endurfjármögnun eru um 115 billjónir evra um mitt ár 2012. Ef einhver skilur þessar tölur bið ég viðkomandi að gefa sig fram. Þetta eru risatölur. Hér erum við að tala um að það eru 26,2 billjónir á Spáni, 7 í Portúgal, 7,3 í Frakklandi, 6,3 í Belgíu, einungis 0,2 í Hollandi, 1,5 í Noregi, 13,1 í Þýskalandi, 3,9 í Austurríki, 15,4 á Ítalíu, 3,5 á Kýpur, því litla landi og 0,3 í Slóveníu.

Hvað segir þetta okkur? Það segir okkur að ástandið sé mjög alvarlegt og að ábyrg ríkisstjórn græjar ekki rúmlega 50 milljarða á handahlaupum eins og ekkert sé. Það gerir ábyrg ríkisstjórn ekki. Svo má auðvitað segja að það væri gersamlega fráleitt að halda því fram að sú ríkisstjórn sem hér er við völd, ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, sé ábyrg. Ég vil halda því til haga að Ágúst Einarsson, prófessor í Háskólanum á Bifröst, vekur athygli á því að fólksflutningar hafi ekki verið meiri síðustu 100 árin. Það kemur engum sem býr á Íslandi á óvart en það er hins vegar staðfesting á veruleikafirringu hæstv. forsætisráðherra sem sagði fyrir framan alþjóð í fjölmiðlum að þetta væri ekkert meira en það sem gengur og gerist, þ.e. brottflutningar frá landinu.

Virðulegur forseti. Þegar hæstv. forsætisráðherra var leiðrétt bað hún þá ekki hún forláts eða afsökunar og leiðrétti sig? Nei, hæstv. forsætisráðherra hamast við að sannfæra þjóðina um að hún sé í einhverjum allt öðrum heimi en allir aðrir.

Það er orðið sama hvaða mál kemur hingað inn, maður getur ekki treyst þeim upplýsingum sem fylgja þeim málum heldur verður maður að hafa varann á og setja alla fyrirvara því að röngum upplýsingum er hreint og beint haldið að hv. þingmönnum. Það eru til að mynda rangar upplýsingar að segja að allar þjóðir Alþjóðagjaldeyrissjóðsins taki núna þátt í þessari fjármögnun án nokkurra spurninga og ætli að ganga frá því núna fyrir jólin. Það eru rangar upplýsingar og hver ber ábyrgð á því að þessum röngu upplýsingum er haldið að þingmönnum? Ég spyr að því, virðulegi forseti. Hér erum við að tala um gríðarlega mikla fjármuni og röngum upplýsingum er haldið að þingmönnum.

Ég vek athygli á því að núna kl. fjögur birtist frétt í íslenskum fjölmiðlum, aðeins fyrr í erlendum. Fyrirsögnin er: „Hafa áhyggjur af ungverska seðlabankanum.“ Síðan skrifar Jón Hákon Halldórsson á vefmiðilinn Vísi, með leyfi forseta:

„Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn eru hætt óformlegum viðræðum um björgunarpakka fyrir Ungverjaland sem voru farnar af stað. Ungverjaland hefur óskað eftir 15–20 milljarða evra lánalínum ef landið lenti í greiðsluerfiðleikum. Framkvæmdastjórar Evrópusambandsins segja hins vegar að ný lög sem voru samþykkt um seðlabankann í Ungverjalandi takmarki mjög sjálfstæði hans og við það verði ekki unað.“

Virðulegi forseti. Þetta eru ekki góðar fréttir. Þetta segir okkur að mikil hætta er á ferðum í Ungverjalandi og það getur eðli málsins samkvæmt smitað út frá sér til annarra landa. Staðan er sú að Evrópusambandið og IMF eru hætt þessum viðræðum. Það er orðið þannig eins og menn þekkja, sérstaklega í Evrópu, að efnahagslíf landa er það samtvinnað að vandi á einum stað kemur niður á öðrum líka. Er þetta eitthvað sem við erum búin að ræða í hv. efnahags- og viðskiptanefnd? Nei. Við höfum bara ekki rætt neitt um þetta. Hafa menn rætt ástandið á alþjóðamörkunum í hv. efnahags- og viðskiptanefnd eða í utanríkismálanefnd? Nei, ekki til í dæminu. En hvað með þetta mál? Er ætlast til þess að menn klári það? Já, virðulegi forseti, það er ætlast til að menn klári þetta bara hratt og vel og án þess að spyrja nokkurra spurninga. Þetta er staðan á hv. Alþingi.

Ef það glittir í stjórnarliða í ræðustól Alþingis er hv. stjórnarliði að kvarta undan því að hér sé verið að velta steinum og ræða mál, mál sem varða alla þjóðina. Það er augljóst að hv. stjórnarþingmenn ætla ekki að taka þátt í því. En það væri í lagi ef þeir tækju þá umræðu kannski annars staðar. Ef menn mundu til dæmis ræða mál í hv. nefndum þingsins, kryfja þau og koma svo með ábyrgar tillögur fyrir þingið. Svo er ekki, virðulegi forseti. Ég spyr og ég vil fá svar: Af hverju er formaður hv. efnahags- og viðskiptanefndar ekki í salnum? Sú regla hefur verið að í það minnsta formenn viðkomandi nefnda væru við umræðuna. Ég fer fram á að kallað verði á formann hv. efnahags- og viðskiptanefndar. Það er fullkomlega óeðlilegt, af augljósum ástæðum, en sérstaklega í ljósi þess að málið hefur ekki verið rætt í nefndinni og að hv. formaður efnahags- og viðskiptanefndar talaði um og benti á að þar af leiðandi væri sjálfsagt að ræða það í salnum. Ég fer fram á það, virðulegi forseti, að hv. formaður efnahags- og viðskiptanefndar sé kallaður til og verði við umræðuna.

(Forseti (ÞBack): Þingmaður haldi áfram ræðu sinni.)

Virðulegi forseti. Ég held að vald forseta sé mikið en virðulegur forseti getur ekki farið fram á það að menn haldi ræðu ef þeir vilja það ekki. Ég get svo sem alveg haldið áfram. Stóra einstaka málið er að ég fer fram á það (Forseti hringir.) að hv. formaður efnahags- og viðskiptanefndar sé hér.

(Forseti (ÞBack): Forseti vill láta þess getið að hv. formaður efnahags- og viðskiptanefndar hefur setið við og hlustað í hliðarsal.)