140. löggjafarþing — 38. fundur,  16. des. 2011.

hækkun á kvóta Íslands hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

304. mál
[16:37]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum frumvarp til laga um heimild fyrir ríkisstjórnina til að samþykkja hækkun á kvóta Íslands hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og til að staðfesta fyrir Íslands hönd breytingar á stofnskrá sjóðsins. Í sjálfu sér er ekkert óeðlilegt að verið sé að huga að því hvernig Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn geti starfað og eigi að starfa í framtíðinni og hvort sjóðir hans séu nógu digrir til að bregðast við mögulegum vandamálum og áföllum sem ganga nú yfir heiminn. Hv. þingmenn hafa bent á að á evrusvæðinu séu vandamál vaxandi frekar en hitt.

Þá hefur einnig komið fram að óvissa er um að ríki heims samþykki þá vegferð sem lagt er upp með og vil ég byrja á að nefna efasemdir í Bandaríkjunum og Þýskalandi um hvort rétt sé að fara þessa leið. Alla vega hafa einstakir þingmenn í Bandaríkjunum tjáð sig á þann veg að rétt sé að fara mjög varlega og skoða ítarlega hvort ástæða sé til að samþykkja að bæta í þennan sjóð. Hér er ég til dæmis með frétt þar sem er vitnað í bandarískan þingmann, sem heitir Jim D. Mint, sem er að velta þessu fyrir sér.

Eins og áður hefur komið fram hefur Der Spiegel líka fjallað um málið og vitnar í heimabankann sinn ef þannig má orða það, Bundesbank, þar sem sett eru fram varnaðarorð við því að fara þá leið sem hér er um rætt. Við hljótum að spyrja okkur hér á Íslandi hvort við ráðum við að leggja þessa fjármuni fram, eða tryggingu öllu heldur, en hins vegar eru þetta peningar sem hægt er að ganga að og þetta eru býsna miklir peningar. Við erum að tala um, ef ég man rétt, um 40 milljarða í það minnsta ef ekki meira, 40–50 milljarðar sem um er að ræða. Það er vitanlega gríðarlega há tala sem við þurfum að hafa til reiðu í okkar seðlabanka fyrir Alþjóðagjaldeyrissjóðinn ef á þarf að halda. Því miður, frú forseti, sýnist manni að ástandið innan Evrópusambandsins sé á þann veg að verulegar líkur séu á því að dregið verði á þá heimild sem þarna er til staðar.

Það kann að vera að við stöndum í þakkarskuld við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, eins og sumum finnst, en ég er ekki sammála því. Sjóðurinn var vitanlega að vinna það verkefni sem honum ber þegar aðildarríki hans lenda í vanda. Það er hins vegar alveg sérstakur kapítuli hvernig Alþjóðagjaldeyrissjóðnum var beitt gegn Íslandi af Evrópuríkjunum, af ríkjunum sem eiga í Icesave-deilunni við okkur og beittu sjóðnum grímulaust fyrir sig til að reyna að pína Íslendinga til að greiða ólögmæta kröfu Breta og Hollendinga. Manni hefði fundist eðlilegra að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefði staðið í lappirnar og sagt við Evrópuríkin: Hingað og ekki lengra, sjóðurinn er ekki innheimtustofnun fyrir ykkur. En það var aldeilis ekki. Við þekkjum þá sögu mjög vel en full ástæða er til að rifja hana upp þegar við ræðum þessa auknu kvóta.

Ætla Íslendingar virkilega að fara að auka þessa kvóta til að geta tekið þátt í að bjarga evrusvæðinu? Ég trúi því varla að svo sé. Ég trúi því varla að við séum að ræða þetta á þeim nótum. Ástæðan fyrir því að ég nefni þetta er sú að mestu líkur eru á að næsta hrun og næstu vandamál verði á þeim slóðum og af þeim völdum sem við þekkjum öll á evrusvæðinu. En að ætla Íslendingum að koma fram á þennan hátt þarfnast vitanlega yfirlegu og umfjöllunar á Alþingi, en sú hefur ekki verið raunin. Mælt var fyrir málinu 8. desember og í dag er 16. desember, það eru 8 dagar síðan mælt var fyrir málinu, og nú á að keyra það í gegn.

Það kann vel að vera að ríkisstjórnarflokkarnir hafi litið þannig á að þetta væri óskaplega létt og lítið mál að koma fram með þessum hætti af því að þetta séu eingöngu tölur á blaði sem verði í Seðlabankanum — reyndar eru nærri 10 milljarðar, ef ég veit rétt, í erlendum gjaldeyri, SDR-gjaldeyri, og restin í íslenskum krónum. En engu að síður þarf þetta að vera tækt og vera til staðar. Ég velti fyrir mér hvort ekki væri nær að anda með nefinu og leyfa nefndinni sem á að fjalla um málið að fara vel og vandlega yfir það. Ef ég hef skilið þær fréttir sem berast frá Þýskalandi og Bandaríkjunum, svo dæmi séu tekin, þá ætla menn að taka sér tíma til að velta þessu fyrir sér. Ég vona að ég verði leiðréttur í þessum ræðustól ef það er rangt hjá mér.

Úr því að við erum að tala um mögulega notkun á þessum fjármunum til að bjarga evrusvæðinu eða leggja þar hönd á plóg — og nú má ekki skilja mig þannig, frú forseti, að ég telji ekki þörf á því að menn taki saman höndum og reyni að bjarga Evrópusambandinu, fjármálakrísunni þar, því það er alveg ljóst að ef það hrynur allt til jarðar mun það koma við okkur Íslendinga. En við hljótum að spyrja okkur hvort við séum aflögufær og hvort við getum tekið það að okkur sem þarna er verið að leggja til, ekki síst í ljósi þess að enn hafa Íslendingar ekki fengið greiddar neinar bætur frá fyrrum breska heimsveldinu sem ólöglega beitti hryðjuverkalögum gegn Íslandi og það hefur án efa kostað Íslendinga miklu meiri fjármuni en hér er um að ræða. Síðan ætlum við að keyra í gegnum þingið einhvers konar varasjóð til að bjarga málum. Það kann vel að vera að hefndarhugur eða refsihugur gagnvart Bretum eigi ekki að stjórna hér í þinginu, að menn eigi ekki að tengja þetta við það, en tölurnar sem um ræðir eru mjög háar, það verður að hafa til hliðsjónar.

Fréttir berast frá Evrópu sem gera það að verkum að við hljótum að þurfa að staldra við. Endurskoðunarfyrirtækið Ernst & Young hefur spáð því að mjög harður kreppuvetur sé fram undan á evrusvæðinu. Það er ekki gott, hvorki fyrir þá sem þar búa né fyrir okkur Íslendinga sem erum að sjálfsögðu í miklum samskiptum og viðskiptum við þetta svæði. Fyrirtækið telur engar líkur á að atvinnuleysi minnki fyrr en eftir nokkuð mörg ár, líklega í fyrsta lagi 2015. Á næsta ári er eingöngu spáð hagvexti upp á 0,1%; að sjálfsögðu er þetta misjafnt eftir löndum en þetta er svæðishagvöxturinn sem þeir gera ráð fyrir þarna.

Daily Telegraph greinir frá því að það nýja samkomulag sem fjallað hefur verið um sem einhvers konar allsherjarlausn fyrir Evrópusvæðið sé alls ekki í höfn, að verið sé að gera athugasemdir við það víða í þeim löndum sem ætluðu að koma að þeim björgunaraðgerðum eða ráðstöfunum sem fara átti í. Hér er frétt úr Daily Telegraph , frétt sem ég náði í á vefsíðunni evrópuvaktin.is, sem er afar góð síða sem fylgist vel með því sem fram fer í Evrópu. Þar er greint frá því að forsætisráðherrar Ungverjalands og Tékklands hafi sameiginlega lýst því yfir að samkomulag gæti verið skaðlegt út af skattamálum í þessum löndum, þeim hugnast einfaldlega ekki ákvæði um samræmda skattstefnu, sem virðist felast í þessum sameiginlegu ráðstöfunum.

Svo er annað sem ekki hefur farið mjög hátt í íslenskum fjölmiðlum — íslenskir fjölmiðlar eru reyndar efni í alveg sérstakan þingfund — og það er að í Varsjá var farið í kröfugöngu. Ég bendi hv. þm. Merði Árnasyni á að reyndar er þess ekki getið hvort þar hafi verið 10, 100 eða 1.000 manns en kröfugangan var farin og þar var kjörorðið: Við viljum fullveldi ekki evru. Þetta segir okkur, frú forseti, að mikil ólga er innan landanna, innan Póllands til dæmis, um það hvert skuli stefna. Er verið að afsala sér völdum, fullveldi eða einhverju slíku, með því að taka þátt í þeim pakka sem um ræðir?

Þá hefur forstjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins — og við erum að tala um að auka við ábyrgðir Íslendinga í honum — varað sérstaklega við því að kreppuástand gæti skapast núna sem er í ætt við kreppuna frá 1930. Þessu tengt hefur Wall Street Journal sagt — og sagði það reyndar í dag — að mikil breyting sé að verða á starfsháttum fjárfesta í Evrópu, þeir séu að fjárfesta nánast eingöngu í heimalöndunum eða heima fyrir, og þá erum við að tala um Þýskaland sérstaklega, og einhvers konar afevruvæðing sé á svæðinu. Þá hljótum við að spyrja okkur: Er það þannig að sá kvóti sem hér er talað um að auka verði eins konar brunapeningar, flestir virðast að minnsta kosti vera þeirrar skoðunar að verulega sé farið að halla undan fæti.

Frumvarpið er í sjálfu sér ekki mjög langt, þar eru þrjár greinar. Í athugasemdum með frumvarpinu er farið yfir kvótann, ástæður og allt það, breytingar á stjórn sjóðsins o.s.frv. Svo að allrar sanngirni sé gætt ætla ég að lesa upp setningu sem fjallar um ávinning Íslands. Hún er svona, með leyfi forseta:

„Ávinningur Íslands af því að taka þátt í þessari almennu kvótahækkun er einkum af tvennum toga. Í fyrsta lagi geta aðildarríkin tekið hagstæð lán úr ýmsum lánaflokkum sjóðsins og miðast lánsfjárhæðir við tiltekið margfeldi af kvóta viðkomandi ríkis sem er breytilegt frá einum lánaflokki til annars.“

Ef ég skil þetta rétt er ekki um neina stórkostlega breytingu að ræða, það er einfaldlega verið að auka það hlutfall sem Íslendingar geta tekið að láni. Ég veit að menn munu þá leiðrétta mig ef ég fer með rangt mál.

Ég hef síðan fjallað um áhrif framangreindra breytinga á fjárhagsskuldbindingar ríkissjóðs Íslands og Seðlabanka. Þar kemur fram að í samræmi við ákvæði í stofnskrá sjóðsins er fjórðungur hækkunar greiddur í SDR en þrír fjórðu hlutar greiðast í íslenskum krónum. Það er einmitt það sem ég kom inn á áðan: Ef Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn ætlar nýta sér þá fjármuni sem verða til reiðu í Seðlabankanum munu nær 10 milljarðar verða í erlendum gjaldeyri, sem fara þá út úr landinu, en restin í íslenskum krónum. Það er kannski ágæt viðurkenning fyrir krónuna, verður að teljast jákvætt ef Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn ætlar að fara að brúka hana erlendis. Ég hef síðan farið yfir það hér hvernig stærðirnar eru þarna í sjóðnum, þarf ekki að lesa það. Í skýringunum er síðan farið yfir breytingar á framkvæmdastjórninni sem ástæðulaust er að fara mikið yfir og örstutt rætt um starfsemi sjóðsins og svo aftur kvóta og þess háttar.

Maður áttar sig á því, eftir að hafa skoðað þetta, að málið hefur ekki fengið neina efnislega umfjöllun — eða litla skulum við segja svo að sanngirni sé gætt — í efnahags- og viðskiptanefnd. Ef ég veit rétt var ekki kallað eftir umsögnum sem hlýtur að teljast sérstakt því að við erum að tala um tugi milljarða, 40–50 milljarða eða hvað þetta var. Það væru öllu betri vinnubrögð ef efnahags- og viðskiptanefnd tæki sér tíma til að fara yfir þetta og hlustaði eftir því hvað sérfræðingar, bæði hérlendis og erlendis, telja um þessa ráðstöfun. Þetta er ekki eins og að hringja í viðskiptabanka og fá yfirdrátt í stutta stund til að redda sér fyrir horn eða hvernig sem það er. Þetta er ekki slíkt. Þarna er verið að tala um tugi milljarða sem eiga að vera til reiðu fyrir Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.

Virðulegi forseti. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur að sjálfsögðu haft hlutverki að gegna og hefur skipt töluvert miklu máli. En ekki eru allir á eitt sáttir við starfsemi sjóðsins og hvernig hann starfar. Margir þingmenn hafa hér gagnrýnt sjóðinn fyrir starfsemi hans í öðrum löndum en á Íslandi og einnig á Íslandi og sérstaklega þá stefnu sem var ofan á áður en sjóðurinn kom til Íslands og það var að berjast fyrir einkavæðingu fyrirtækja sem voru í eigu ríkisins eða opinberra fyrirtækja og eigna, koma þeim í sölu til að fjármagna skuldir og þess háttar. Það sem gleymist í þessari umræðu er að það er spurning hvort fleiri lönd, líkt og Írar hafa viðurkennt, hefðu átt að fara íslensku leiðina í bankahruninu, þ.e. láta eigendur bankanna eða kröfuhafa bankanna taka á sig stærsta skellinn. Það eru þeir aðilar sem hafa lánað mjög óábyrgt til þessara banka, til þessara fjármálastofnana, til þeirra ríkja sem eru í vandræðum. Við þekkjum það að þegar einstaklingur á Íslandi tekur sér lán í bankanum og þarf að leggja fram ábyrgð fyrir þeim þá er gengið á þær ábyrgðir þangað til ekkert er eftir ef einstaklingurinn stendur ekki í skilum. Á eitthvað annað að gilda um erlendar fjármálastofnanir sem gína yfir öllu og lána mjög óábyrgt, taka þátt í þeirri hringekju sem hér var sett á fót að spila upp verðmæti hluta og reyna að hækka hluti í sjálfu sér?

Frú forseti. Íslenska leiðin sem farin var 2008, borin fram af hæstv. þáverandi forsætisráðherra, Geir H. Haarde, verður líklega björgunarleið Íslands út úr kreppunni. Það verður að segjast eins og er. Sú forusta sem þáverandi forsætisráðherra, Geir H. Haarde, hafði fyrir Ísland í því máli hefur reynst happadrjúg. Írar hafa rennt augum til Íslands og öfundað okkur af þeirri leið. Fólkið á Írlandi, almenningur, er nefnilega að borga tap fjármálastofnana, það er að borga skuldirnar sem við Íslendingar ákváðum með neyðarlögunum haustið 2008 að láta erlenda kröfuhafa borga, við ákváðum að láta þá bera mesta tjónið.

Frú forseti. Ég verð að hrósa þeim alþingismönnum sem sýndu þann kjark að samþykkja neyðarlögin á haustþingi 2008. Það voru fulltrúar Sjálfstæðisflokks, Samfylkingar og Framsóknarflokks sem samþykktu þá ráðstöfun að setja neyðarlögin á fót. Þingmenn Vinstri grænna höfðu ekki kjark í sér þetta haust til að taka þá ákvörðun heldur sátu hjá, þáttur þeirra í björgun Íslands er enginn. Þó svo þeir telji sig vera að bjarga einhverju núna þá er það ekkert annað en skemmdarverk á íslensku samfélagi sem á sér stað þessa dagana, og hefur staðið í þrjú ár frá því að þessi ríkisstjórn tók við.

Vinnubrögðin í þessu máli sýna að við erum á rangri braut, með nokkurra daga fyrirvara er komið fram með möguleg útgjöld Seðlabanka Íslands upp á tugi milljarða án þess að leitað sé álits, án þess að farið sé yfir málið og kannað hver andinn er í öðrum ríkjum. Þetta er óábyrgt og það verður að taka fyrir að unnið sé með þessum hætti, þetta er ekki hægt.

Frú forseti. Um miðjan dag í dag birtist frétt á miðlinum evrópuvaktin.is og þar er fjallað um spurningu sem forsætisráðherra Póllands velti upp í pólska þinginu í gær. Hann sagði: Ég yrði glaður ef ég vissi svarið við eftirfarandi spurningu: Hver er framtíð Evrópusambandsins? Þetta sagði Donald Tusk, forsætisráðherra Póllands, sem var að velta því fyrir sér hvernig Evrópusambandið væri samsett, hver framtíð þess væri og slíkt. Forsætisráðherrann sagði líka: Skrefin sem hafa verið stigin innan ESB sýna ekki aðeins gagnsleysi einstakra stofnana og innihaldsleysi evrópskra meginsjónarmiða, heldur einnig hve öflugir sundurleysisstraumarnir eru í Evrópu. — Þarf nokkuð að segja meir?