140. löggjafarþing — 38. fundur,  16. des. 2011.

hækkun á kvóta Íslands hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

304. mál
[16:57]
Horfa

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir afskaplega góða ræðu. Hann fór yfir það sem við ættum kannski að fara yfir, aðdragandann að bankahruninu og til hvaða aðgerða nákvæmlega var gripið. Hinir ýmsu áróðursmeistarar hafa metið það sem svo að ef menn segi sömu ósannindin nógu oft verði þau að eins konar sannleik. Það hefur því fólki sem er nú í hæstv. ríkisstjórn svo sannarlega tekist. Nú er hins vegar komið að skuldadögum. Þetta endalausa tal um að hrunið og alþjóðlega bankahrunið og allt saman sé Sjálfstæðisflokknum, og stundum er Framsóknarflokknum skeytt við, að kenna er í besta falli kjánalegt. Núna horfum við á vandann við þetta alþjóðlega bankahrun.

Okkur bar gæfa til að styðja neyðarlögin. Það var ekkert siðferðilega rangt við það, þvert á móti var mjög eðlilegt að þeir sem fjármögnuðu bankana og áttu bankana mundu bera skellinn. Það var ekkert óeðlilegt. Þeir áttu samkvæmt eðli málsins að bera ábyrgð á því.

Það mæddi hins vegar sérstaklega mikið á þáverandi hæstv. forsætisráðherra Geir H. Haarde og þjóðin var lánsöm að hafa þá sterkan leiðtoga sem tók erfiðar ákvarðanir við gríðarlega erfiðar aðstæður. En nú gera forustumenn þessarar ríkisstjórnar hvað þeir geta og setja að mig minnir 150 millj. kr. í það að reyna að koma fyrrverandi forsætisráðherra í fangelsi.

Ég vil spyrja hv. þingmann að einu vegna þess að hann er þingflokksformaður Framsóknarflokksins: Munu þingflokksformenn láta það líðast að skrökvað var og haldið röngum upplýsingum að hv. þingmönnum í þessari nefnd þegar sagt var að allar þjóðir væru að ganga frá greiðslum í tengslum við kvótaaukninguna án nokkurra vandkvæða og það mundi gerast fyrir jólin? Þetta er ekki smámál, þetta er stórmál.