140. löggjafarþing — 38. fundur,  16. des. 2011.

hækkun á kvóta Íslands hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

304. mál
[16:59]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður sagði að ef það sama væri sagt nógu oft færi fólk að trúa því. Ég vil nefna dæmi úr markaðsbransanum. Fram á sjónarsviðið kom nýr bleiuframleiðandi og fór að auglýsa þær fyrir, ég man ekki hvað, segjum 100, fór í búðir, fékk hillupláss og auglýsti. Risinn á markaðnum sá þetta og sagði. Ef þarna er auglýst fyrir 100, auglýsum við fyrir 1.000. Gæðin eða annað skiptir ekki máli, við munum vinna þetta með auglýsingum. Nákvæmlega það sama er hér á ferðinni. Ef maður segir eitthvað nógu oft fer fólk að trúa því.

Bankar og fjármálastofnanir sem lánuðu óábyrgt út um allan heim fyrir hrunið áttu og eiga að sjálfsögðu að bera kostnaðinn af hruninu. Einhverjir halda því fram að það hefði leitt til framhaldshruns o.s.frv. Það kann vel að vera en almáttugur, er það frekar almenningur sem á að bera tjónið? Almenningur hefði hvort sem var, hefði hin leiðin verið farin, borið tjónið á endanum. Mér finnst þetta mjög óábyrgt.

Frú forseti. Hv. þingmaður spyr hvort ekki þurfi að fjalla um það meðal þingflokksformanna að því hafi verið haldið fram í nefndinni að allar þjóðir ætluðu að ganga frá þessu og væru búnar að samþykkja að ganga frá þessu jafnvel fyrir jól. Ef svo er þarf vitanlega að fjalla um það og rannsaka eða skoða innan þingsins því vitanlega er ekki hægt að láta það viðgangast að málum sé náð fram með röngum upplýsingum. Nú vil ég, frú forseti, leyfa mér að halda því fram að þessar upplýsingar hafi ekki verið settar fram (Forseti hringir.) nema í góðri trú eða vegna þess að menn vissu ekki betur en engu að síður þarf að leiðrétta þetta.