140. löggjafarþing — 38. fundur,  16. des. 2011.

hækkun á kvóta Íslands hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

304. mál
[17:03]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Sem þingflokksformaður skorast ég að sjálfsögðu ekki undan því að fara yfir málið og skoða það. Það er ljóst að ef málið er tekið út úr nefndinni á röngum forsendum og síðan á að afgreiða það í þinginu, er að mínu viti full ástæða til að fjalla um betur um það. Ég á hins vegar ekki sæti í þessari nefnd þannig að ég þekki ekki alveg söguna eða stöðuna á málinu eða hvernig á því hefur verið haldið en miðað við þær upplýsingar sem hér hafa komið fram er full ástæða til að fara betur yfir það. Ég fæ ekki séð að einhverjar dagsetningar í þessu máli skipti svo miklu eða skipti yfir höfuð máli, ekki síst ef ríki eins og Bandaríkin, Kanada, Japan og fleiri ætli sér ekki að greiða, og Bretar ætli að hafa til reiðu hluta af þessu og sum ríki ætli jafnvel ekki að greiða neitt eða draga að taka ákvörðun, þá fæ ég ekki séð hvað okkur Íslendingum liggur á. Nema þetta sé einhvers konar klapp á bakið og þakklætisvottur upp á 40 milljarða til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins fyrir góð störf á Íslandi. Það er dýr blómvöndur það. En það kann að vera markmiðið, ég veit það ekki, ég var ekki í nefndinni.

Ég tek hins vegar undir með hv. þingmanni að eðlilegt er að endurskoða málið í þinginu í ljósi þess að hér hefur komið fram að ekki liggi á málinu. Sumir ætla jafnvel ekki að taka þátt í þessu. Málið var ekki sent til umsagnar og væntanlega því ekki krufið til mergjar. Þess vegna held ég að mjög vel færi á því að fjallað yrði aftur og betur um málið. En að sjálfsögðu, frú forseti, ber stjórnarmeirihlutinn ábyrgð á þessu máli eins og öðrum sem hann fer með í gegnum þingið. Það er því vitanlega raun hans að ákveða hvort málið verður skoðað betur eða hvort haldið verði áfram á þeirri braut sem hér hefur verið mörkuð.