140. löggjafarþing — 38. fundur,  16. des. 2011.

hækkun á kvóta Íslands hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

304. mál
[17:06]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni ágæta yfirferð. Það er rétt hjá honum að það er jákvætt fyrir Ísland að fá þarna meiri möguleika til að taka lán o.s.frv. en mér fannst hann ekki benda nægilega vel á neikvæðu hliðarnar. Taka má dæmi um mann sem fékk lán til að kaupa stofnbréf í sparisjóði, það er nokkuð svipað vegna þess að stofnbréfin voru á þeim tíma álitin vera nánast skotheld og örugg, en svo fór sparisjóðurinn á hausinn. Þá skuldaði maðurinn lánið en átti ekki lengur stofnbréfin eða eignina. Það er sú áhætta sem við tökum.

Það getur gerst þótt líkurnar séu vonandi mjög litlar að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn fari á hausinn vegna þess að hann ræður ekki við þau verkefni sem honum er ætlað að sinna um allan heim, ekki bara í Evrópusambandinu varðandi Grikkland, Ítalíu, Spán o.s.frv. heldur líka víðar um heiminn þar sem hann hefur gripið til björgunaraðgerða. Þá getur þessi innstæða orðið verðlaus, þá á Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn innstæðu í krónum í Seðlabankanum sem fer til að borga skuldbindingar hans annars staðar og sá hluti af gjaldeyrisvarasjóðnum sem búið er að millifæra inn á hann hverfur. Það er sú hætta sem ég minntist á í morgun og ég held að menn þurfi að skoða það betur. Ég spyr hv. þingmann hvort hann sé sammála mér um það.

Svo er annað sem ég held að sé öllu alvarlegra og sem ég er nýbúinn að uppgötva, það er að Seðlabankinn ætti í rauninni að heyra undir fjárlög þegar hann tekur svona skuldbindingar. Skuldbindingarnar í Seðlabankanum eru ekki í fjárlögum Íslands eða fjárlögum ríkisins en ættu í rauninni að vera þar þegar Seðlabankinn tekur á sig svona áhættu og skuldbindingar, þá ætti það að koma inn í fjárlögin nákvæmlega eins og allar aðrar skuldir vegna þess að ríkissjóður ber ábyrgð á Seðlabankanum. Seðlabankinn er munaðarlaus nákvæmlega (Forseti hringir.) eins og tekjuhlið fjárlaga.