140. löggjafarþing — 38. fundur,  16. des. 2011.

hækkun á kvóta Íslands hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

304. mál
[17:36]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er rétt að taka það fram vegna þess að hv. þingmaður nefndi forsætisráðherra Breta og ákvarðanir hans, að hann fékk ekki bara bágt fyrir hjá stjórnarandstöðunni í Bretlandi, hann varð einnig fyrir heilmikilli gagnrýni hjá Ríkisútvarpinu á Íslandi. Reyndar verður að segjast eins og er að þegar horft er til viðbragðanna í hans eigin heimalandi og eins frammistöðu hans í breska þinginu þar sem þetta mál var rætt, kom í ljós að rökin lágu öll hans megin, rökin fyrir ákvörðun hans voru mjög skýr og skiljanleg og augljóslega og fullkomlega í samræmi við hagsmuni Breta. Það er einmitt mergur málsins hvað þetta mál allt saman varðar, þ.e. myntmálið, að síðan kemur alltaf að því að menn spyrja um hagsmuni einstakra ríkja. Stjórnmálamenn í Evrópu óttast margir hverjir að þurfa að fara með þætti eins og myntsamstarfið fyrir kjósendur sína, þeir kvíða því mjög vegna þess að verið er að biðja þjóðirnar um er að gefa sjálfviljugar frá sér mjög stóran hluta af fullveldi sínu án þess að menn sjái nákvæmlega hversu mikið þeir fá í staðinn vegna þess að það er ekkert sjálfgefið að evran henti öllum. Það má vel finna ákveðin svæði innan ESB þar sem menn geta sagt: Hér gæti verið sniðugt að hafa myntbandalag, en það eru stór spurningarmerki við hvort skynsamlegt sé að hafa það jafnstórt svæði og raun ber vitni eða stefnt er að.

Hvað varðar það hvort við eigum að segja nei við fjárframlagi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins get ég ekki svarað því á þessari stundu vegna þess að af þeirri umræðu að dæma sem ég hef lesið í nefndarálitum og eins umræðum í þingsal er þetta mál ekki fullþroskað. Við höfum ekki sett það nægilega vel niður fyrir okkur. Við höfum til dæmis ekki áttað (Forseti hringir.) okkur á því nákvæmlega hvað önnur ríki ætla sér að gera í þessu máli.